mánudagur, janúar 03, 2005

Tíu minnisstæðustu ummælin árið 2004.

„En Samfylkingin er eins og gamall afturhaldskommatittsflokkur og ætlar sér aldrei að verða stór.“
Davíð Oddsson utanríkisráðherra, 29. nóvember 2004.

„Ég tel að hér sé um að ræða heimsatburð,“ sagði Halldór. „Ég er stoltur og þakklátur íslensku sérfræðingunum fyrir þeirra stóra þátt í þessu máli.“
Halldór Ásgrímsson, þá utanríkisráðherra, 9. janúar 2004 um meintan sinnepsgasfund Íslendinga í Írak.

„Það var einhver símastrákur hjá Samfylkingunni sem var spurður að þessu með virðisaukaskattinn. Það kannast enginn við að hafa svarað þessu.“
Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar 30. nóvember 2004. (Símastrákurinn reyndist vera Jóhann Ársælsson alþingismaður.)

„Meinfýsnishlakkandi úrtölumenn víða um heim hafa einblínt á erfiðleikana sem vissulega er við að etja í Írak og virðast telja deilur um aðdraganda innrásarinnar skipta meira máli en frelsi og framtíðarvonir Íraka.“
Davíð Oddsson utanríkisráðherra, 11. nóvember 2004.

„Ég hlýt að líta svo á og það skal þá standa að Davíð Oddsson sé slík gunga og drusla að hann þori ekki að koma hér og eiga orðastað við mig.“
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, 14. maí 2004.

„Jafnréttislögin eru barn síns tíma.“
Björn Bjarnason um jafnréttislögin, 7. apríl 2004.

„Það er ekki að ástæðulausu sem fjölmiðlar eru kallaðir hrægammar.“
Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi R-listans, 5. nóvember 2004.

„Ég veit ekkert um þetta meinta samráð olíufélaganna.“
Sólveig Pétursdóttir, fyrrverandi dómsmálaráðherra og eiginkona Kristins Björnssonar, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, 1. nóvember 2004.

„Ég tek ekki við skipunum frá miðaldra mönnum.“
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Ríkissjónvarpinu 24. október 2004.

„Synjunarákvæði stjórnarskrárinnar eru leifar af þeirri trú að konungurinn - einvaldurinn - fari með guðs vald.“
Halldór Blöndal, forseti Alþingis, 1. október 2004.

(Heimild: FRÉTTABLAÐIÐ)

fimmtudagur, desember 16, 2004

Framsókn í 88 ár.

Framsóknarflokkurinn var stofnaður á Alþingi 16. desember árið 1916. Fyrstu árin starfaði hann eingöngu sem þingflokkur en uppúr 1930 var honum breytt í formlega fjöldahreyfingu með flokksfélög sem grunneiningar. Uppruna flokksins má rekja til tveggja hreyfinga sem höfðu mikil áhrif á íslenskt þjóðfélag á fyrstu árum aldarinnar þ.e. samvinnuhreyfingarinnar og ungmennafélaganna. Þessi samtök börðust m.a. fyrir almennum framförum og umbótum í landinu, aukinni menntun og atvinnurekstri sem tryggði mönnum sannvirði fyrir vöru og vinnu. Þessi hugsjónalegi bakgrunnur hafði mikil áhrif á stefnu flokksins og gerir enn í dag.

Stefnan
Allt frá upphafi hefur Framsóknarflokkurinn verið frjálslyndur umbótaflokkur svo sem uppruni hans og stefnuyfirlýsingar í gegnum tíðina bera með sér. Þetta felur í sér að flokkurinn er fordómalaus um úrlausnir aðsteðjandi vandamála á hverjum tíma. Hann vill beita aðferðum þekkingar og vísinda til að ryðja framþróuninni braut á grundvelli þeirra þjóðfélagslegu gilda sem stefna hans byggist á. Þessu viðhorfi var lýst þannig af Hermanni Jónassyni formanni flokksins 1944-62 að stefna flokksins væri hvorki til hægri né vinstri heldur beint áfram. Vegna frjálslyndis síns er hann umburðarlyndur gagnvart skoðunum annarra. Hann vill að allir þeir sem hafa eitthvað fram að færa í sambandi við lausn þjóðfélagsmála fái tækifæri til að tjá sig, túlka skoðun sína og reyna að vinna henni fylgi áður en ákvarðanir eru teknar.

Sem umbótaflokkur hefur flokkurinn í starfi sínu lagt höfuðáherslu á að hver kynslóð leitist við að skila þeirri næstu betra þjóðfélagi en hún tók við, betra lífi, fleiri tækifærum og ríkari menningu. Þjóðfélagi þar sem manngildið er metið meira en auðgildi og vinnan, þekkingin og framtakið látið vega meira en auðdýrkun og fésýsla.

Grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins
Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi. Framsóknarstefnan setur manninn og velferð hans í öndvegi.

I. Þjóðfélagsgerð
Við viljum áfram byggja upp þjóðfélag á grunngildum lýðræðis, persónufrelsis, jafnræðis og samfélagslegrar ábyrgðar.

II. Mannréttindi
Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.

III. Jafnræði þegnanna
Við setjum manngildi ofar auðgildi og viljum að hver og einn hafi sama rétt til menntunar, þroska og grundvallarlífskjara óháð uppruna, heilsu og efnahag.

IV. Mannauður
Við viljum efla mannauð með því að sérhver einstaklingur fái örvun og tækifæri til að þroskast og vaxa í leik og starfi. Við stefnum að samfélagi umburðarlyndis og víðsýni svo margbreytileiki þjóðlífs og einstaklinga fái notið sín.

V. Stjórnarfar
Við viljum að þjóðin fari með æðsta ákvörðunarvald og handhafar valdsins stjórni aðeins í umboði hennar. Við vinnum ötullega að réttlátu stjórnarfari, opnum stjórnarháttum og valddreifingu.

VI. Hagkerfi
Við viljum byggja efnahagslíf þjóðarinnar á markaðshagkerfi einkarekstrar og samvinnurekstrar þannig að framtak einstaklinga og samtaka þeirra njóti sín til fulls.

VII. Alþjóðasamfélagið
Við höfum ríkum skyldum að gegna varðandi samvinnu við aðrar þjóðir um lausn sameiginlegra verkefna. Við viljum að þátttaka okkar í alþjóðlegum samskiptum eigi að byggjast á viðurkenningu á rétti þjóða til sjálfstæðis og sjálfsákvörðunar.

VIII. Náttúrugæði
Við viljum skynsamlega og sjálfbæra nýtingu á gæðum jarðar sem skaði ekki hagsmuni komandi kynslóða. Við teljum að allar innlendar náttúruauðlindir skuli óskorað lúta íslenskri stjórn.

IX. Búsetuskilyrði
Við teljum það til grundvallarréttinda að fólki verði gert kleift að velja sér búsetu þar sem það kýs. Greiðar samgöngur, alhliða fjarskipti, fjölbreytt atvinnutækifæri, fjölþætt framboð menntunar, menningar og heilbrigðisþjónustu eru þættir sem jafna búsetuskilyrði.

X. Stjórnmálin
Við byggjum á frjálslyndri hugmyndafræði og teljum því farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð eru á hófsemi og heiðarleika.

Samþykkt á 26. flokksþingi 16.-18. mars 2001

(Heimild: framsokn.is)

fimmtudagur, desember 02, 2004

Reykjavík-Staðarskáli-Varmahlíð-Sauðárkrókur-Borgarnes-Kópavogur.

Var á fundi í gærkvöldi á Sauðárkróki sem hófst kl. 21 og stóð til um hálf tólf. Hljóp í skarðið fyrir góðan vin minn sem stýrir landbúnaðarhópi flokksins sem vinnur að stefnumótun fyrir næsta flokksþing okkar.

Á norðurleiðinni kom það mér á óvart að hægt sé að leggja færðina á Vesturlandsvegi og Holtavörðuheiði að jöfnu, en sú er raunin. Suðaustan éljagangur á hvorum stað, að vísu verð ég að viðurkenna að færið á Holtavörðuhæðinni var eitthvað verra, var dimmt á köflum. Stoppuðum í Staðarskála og í Varmahlíð, mikil framsóknarmenning á hvorum stað. Langidalur ætlaði aldrei að endi taka, enda svarta myrkur, en loks var komið að Húnavöllum og hitastigið snar hækkaði, sælla minninga frá Verslunarmannahelginni 1989.

Verstu svellbúntin á allri leiðinni reyndist vera á gatnamótunum inn á Sauðárkrók, skaut þessu að heimamönnum og var þá bent á að Vinstri Grænir stýrðu þessu sveitarfélagi og ekki orð um það meir.

Það var sært stoltið hjá karldýrinu er hann koma út frá því að greiða fyrir bensínið á Ábæ. Hafði þó undirbúið að vera ofsalega „cool“ á því er á planið væri komið, þar sem ekki hafði enn tekist að finna út hvar ætti að opna bensínlokið, en kúbeinið hafði verið skilið eftir heima. Vonaðist til að afgreiðslumaðurinn myndi finna út úr þessu vandamáli í snarheitum, eftir að hafa kallað „fylla“ á leið inn á afgreiðslu. Sú von brást hrapalega. Ég hafði sem sé ekki með neinu móti fundið enn út hvernig ætti opna þetta „blessaða“ lok, þrátt fyrir fundarhöld innandyra sem utan á vettvangi. Þess ber að gera að ég var á lánsbíl, eina haldbæra afsökunin í stöðunni. Ung afgreiðslustúlka tók að sér að bjarga málum, og benti mér á, eftir að hún var komin inn aftur, að núna myndi ég vita næst hvar ætti að opna „blessað“ bensínlokið, á mjög svo móðurlegan hátt.

Kom ekki heim fyrr en um hálf fjögur í nótt, eftir ákaflega skemmtilegt ferðalag. Meðan ég man, vil hrósa fólki fyrir hversu duglegt það hefur verið við að skreyta síðustu daga, ekki svo mikið sem einn bær án jólaljósa. Gaman af því.

sunnudagur, nóvember 28, 2004

Sumum hefur verið byrlað eitur.

Ef þið skoðið frétt sem birtist á CNN á dögunum, sbr. slóðina hér á eftir,
http://www.cnn.com/2004/WORLD/europe/11/25/yushchenko.ailment.ap/index.html
þá getur maður ekki verið annað en sannfærður um að öll brögð séu notuð í pólitík. Ætli það séu til sambærileg tilvik hér heima?

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Hatton Rockall-málið.

Það var gaman að rekast á fréttina hér að neðan, enda undirritaður áhugamaður um málið. Skrifaði grein þann, 12. nóvember í fyrra, þar sem ég rakti ýmsar hliðar málsins. Ég læt fréttina fylgja hér með.


Viðræður um Hatton Rockall-málið í Lundúnum

Viðræður Íslands, Bretlands, Írlands og Danmerkur f.h. Færeyja fóru fram í vikunni í Lundúnum um Hatton Rockall-málið en öll ríkin fjögur hafa gert tilkall til landgrunnsréttinda utan 200 sjómílna á Hatton Rockall-svæðinu og skarast kröfur aðila.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir, að viðræðurnar hafi verið jákvæðar og gagnlegar og ákveðið að halda næsta viðræðufund aðila í Þórshöfn í Færeyjum á vormánuðum.

Ráðuneytið segir, að aðilum sé ljóst að til þess að lausn náist um afmörkun landgrunns á Hatton Rockall-svæðinu þurfi tvennt að koma til. Annars vegar þurfi ríkin fjögur að komast að samkomulagi um skiptingu landgrunnsins sín á milli eða um að landgrunnið eða hlutar þess verði sameiginlegt nýtingarsvæði. Hins vegar þurfi ríkin sameiginlega að leggja greinargerð eða greinargerðir fyrir landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna um ytri mörk landgrunnsins, þ.e. mörkin milli landgrunnsins og alþjóðlega hafsbotnssvæðisins, og ákvarða þau með hliðsjón af tillögum landgrunnsnefndarinnar.

Formaður íslensku viðræðunefndarinnar er Tómas H. Heiðar, þjóðréttarfræðingur í utanríkisráðuneytinu, en Steinar Þór Guðlaugsson, jarðeðlisfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum, tekur einnig þátt í viðræðunum af Íslands hálfu. (Af mbl.is)

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Að standa við gefin loforð – látum verkin tala.

Ræðan sem aldrei var flutt, eða því sem næst.

Hvernig hefur Framsóknarflokknum miðað við að ná fram raunhæfum markmiðum sínum. Eru kosningaloforðin öll svikin líkt og andstæðingarnir segja í hverri tækifærisræðunni á eftir annarri. Eða getum við getum borið höfuðið hátt er litið er til þess árangurs sem náðst hefur. Spyrja andstæðingarnir í dag, hvað með 12.000 ný störf, spyrja þeir í dag, hvað með foreldraorlofsmálið og spyrja þeir í dag, hvað með 90% lánin. Við framsóknarmenn eigum að vera duglegri í því að minna pólitíska andstæðinga okkar á, hverju við höfum náð fram í landsstjórninni, enda er sá árangur glæsilegur sem við getum verið stolt af.

12.000 ný störf.
Við framsóknarmenn l0fuðum að setja atvinnumálin á oddinn og auka verðmætasköpun í landinu. Við lofuðum að skapa 12.000 ný störf fyrir aldamót. Á kjörtímabilinu 1995 til 1999 var mikil hagvöxtur og stórfelld fjölgun starfa sem bar vitni um þá áherslu sem lögð var á atvinnumálin og aukna verðmætasköpun. Niðurstaðan varð að störfum fjölgaði um 14.000. Landsframleiðslan jókst um 22% og sem svaraði 1.600.000 kr. á hverju fjögurra manna fjölskyldu. Fjölgun starfanna tengdist fyrst og fremst hugbúnaðargerð og öðrum þekkingargreinum, almennum smáiðnaði, fjárfestingu í orkufrekum iðnaði og ýmsum þjónustugreinum.

Foreldraorlofið.
Við framsóknarmenn lofuðum að jafna rétt mæðra og feðra til töku fæðingarorlofs. Fæðingarorlofið var lengt úr sex í níu mánuði og tryggt var um leið samvistir barns bæði við föður og móður, þannig varð ábyrgð þeirra beggja jöfn gagnvart barninu. Við framsóknarmenn lögðum áherslu á að taka sérstakt tillit til fjölskyldunnar, þar er samræming fjölskyldu- og atvinnulífs mikilvægt úrlausnarefni, í nútímaþjóðfélagi og að því vinnum við framsóknarmenn.

90% lánin.
Við framsóknarmenn lofuðum að lánshlutfall almennra íbúðarlána verði hækkað í allt að 90% af verðgildi eigna, að ákveðnu hámarki. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp þessa efnis. Við gildistöku þessa lagafrumvarps er gert ráð fyrir að hámarkslánið verði 13 millj. kr. en það hækki síðan áfram í áföngum á kjörtímabilinu. Við framsóknarmenn stöndum vörð um að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum sé sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.
Við framsóknarmenn lofuðum að endurgreiðsla LÍN verði lækkuð til samræmis við eldri lánaflokk. Enda er leggjum við höfuð áherslu á að menntun sé fyrir alla, óháð efnahag, búsetu og stöðu. Í samræmi við þessa stefnu okkar liggur fyrir Alþingi frumvarp um að árlegt endurgreiðsluhlutfall námslána verði lækkað úr 4,75% í 3,75%. Lánþegum með eldri námslán verður gefin kostur á skuldbreytingu, þannig að endurgreiðsla af lánum þeirra verði í samræmi við nýja endurgreiðsluskilmála. Þessi breyting á reglum lánasjóðsins mun gefa fleirum einstaklingum tækifæri á því að fara í nám og stuðla þannig að arðbærra menntuðu fólki í þjóðfélaginu. Samhliða þessari breytingu er mikilvægt að skoða kosti og galla þess, að taka upp styrktarkerfi líkt og gerist á hinum Norðurlöndunum.

Skattalækkanir.
Við framsóknarmenn lofuðum að lækka skatta. Tekjuskattur einstaklinga mun lækka um 4% í þremur áföngum, til ársins 2007, samkvæmt tillögum sem ríkistjórnin hefur kynnt. Eignarskattar verða afnumdir frá og með áramótum. Viðmiðunarfjárhæðir barnabóta og vaxtabóta mun hækka um 3% á árinu 2005. Þá verður persónuafsláttur hækkaður til næstu þriggja ára í samræmi við umsamdar launahækkanir á almennum vinnumarkaði, þ.e. um 3% nú um áramót, 2,5% árið 2006 og 2,25% árið 2007. Auk þessa er vinna hafin við hækkun barnabóta sem mun koma til framkvæmda í tveimur áföngum, á árunum 2006 og 2007.

Af þessari upptalningum sést að við framsóknarmenn gleymum ekki loforðum okkar, heldur efnum við þau. Þjóðin treystir okkur til að vinna af ábyrgð að velferð sinni, undir því trausti ætlum við framsóknarmenn að standa.

föstudagur, nóvember 05, 2004

Vúhú, gaman, gaman.

Yess núna byrjar skólin aftur, ég hlakka svo til að byrja aftur, það er svo gaman að læra. Vonandi semja kennararnir um launin :) bæbæ - 29. október 2004 - 14:55

Það er bróðurdóttir mín, Eva Katrín, 9 ára, sem ber fram þessa ósk. Mér þykir full ástæða til að birta þetta hér á síðunni. Þessum kröfum verður þjóðfélagið að svara enda lögbundið að veita börnum 6 til 16 ára grunnmenntun.


miðvikudagur, nóvember 03, 2004

Bush næsti forseti.

Jæja, er ekki ástæða til að óska heimsbyggðinni til lukku með nýjan forseta stórveldisins. Var á kosningavöku í nótt, langt frameftir, og hélt síðan áfram, hálf sofandi, er heim var komið í nótt. Það mátti svo sem búast við þessari niðurstöðu, en auðvitað var einnig von innst inni um að Kerry myndi vinna þessar kosningar.

fimmtudagur, október 28, 2004

Bloggað í eitt ár.

Í dag er liðið eitt ár frá því að undirritaður byrjaði að blogga á netinu. Ég átti svo sem ekki von á því að mér tækist að halda þetta út, það hafa svo sem komið upp tímabil þar sem ritstíflan var algjör, en hér er ég enn.

Annars hefur 28. október ákveðna merkingu ár hvert, er ég hef reynt að lifa með, og því þá ekki að setjast niður og skrifa eitthvað, sem aðrir hefðu gaman af að lesa, er stundir gefast. Það er ekki til betri tímaþjófur.

Í skrifum um þjóðfélagsmál eru fyrirmyndirnar auðvitað allnokkrar, ein er mér þó kærust, sem ég missti alltof fljótt.

39. dagur í verkfalli grunnskólakennara

Frá 20. september s.l. hafa samningsaðilar í kjaradeilu grunnskólakennara og sveitarfélaga leitast við að ná saman um kaup og kjör. Krafan um að viðsemjendur nái nú niðurstöðu er skiljanleg, ekki síst fyrst og fremst barnanna vegna. Er réttur þeirra ekki að öllu leyti fyrir borð borin með áframhaldandi stöðu, þ.e. að í dag skuli vera 39. dagur í verkfalli grunnskólakennara. Þær raddir sem spáðu fyrir um löngu verkfalli hafa svo sannarlega haft rétt fyrir sér. Það eru um 4.500 kennarar frá störfum og kennsla legið niðri hjá rúmlega 45 þúsund skólabörnum á aldrinum 6 til 16 ára. Kennarar buðum sveitarfélögunum að skoða þá hugmynd að semja út skólaárið, þ.e. að gerður yrði stuttur samningur með 15 til 16 prósenta raunhækkun, og þar af 6,6 prósenta kauphækkun. Því var hafnað.

Kennarar hafa staðið fastir fyrir í baráttunni, jafnvel gengið það langt að banna aðgang að skólastofum, þannig að ekki sé minnsta smuga á því að sækja þangað nauðsynlegustu námsgögn, sem nemendur hafa jafnvel greitt fyrir. Frá því verður hins vegar ekki litið að jafn langt verkfall er taktlaust, sem bitnar á saklausum aðilum, börnunum, þau eru fórnarlömbin.

Kennarar eiga að hafa góð laun og það yrði mikið fagnaðarefni ef hægt væri að ná saman um kjör fyrir mánudaginn, samningsaðilar verða því að ná saman, líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi er undir. Enda segi í lögum um hlutverk grunnskólans, að í samvinnu við heimilin eigi skólinn að búa nemendur sína undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem sé í sífelldri þróun. Auk þess eigi starfshættir skólans að mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi, þar sem temja skuli nemendum víðsýni. Efla eigi skilning þeirra á kjörum fólks og umhverfi, á íslensku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum og á skyldum einstaklingsins við samfélagið. Grunnskólinn skuli einnig veita nemendum tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni og að þeir temji sér vinnubrögð sem stuðli að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið eigi að leggja grundvöll að sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra. Þessu mikilvæga hlutverki grunnskólanna má ekki missa sjónir af.

Nýjustu hugmyndirnar í kennaradeilunni um breytt launakerfi kennara hafa fallið í grýttan jarðveg hjá formanni menntamálanefndar Alþingis. Hann metur það svo að afleiðingarnar yrðu kollsteypa fyrir efnahagslífið.

Rök hníga því í þá átt að miðlunartillaga ríkissáttasemjara sé líklegasta lausnin.

miðvikudagur, október 20, 2004

Hagspá til ársins 2010.

Eftirfarandi umfjöllun er að finna á Vegvísi, markaðs- og greiningarriti Landsbankans, frá því í gær, undir fyrirsögninni: Auknar líkur á stormasamri aðlögun.

Mikil uppsveifla er fyrirsjáanleg í efnahagslífinu á næstu árum og mun hún að öllum líkindum reyna mjög á þol hagkerfisins og auka líkur á stormasamri aðlögun að betra jafnvægi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýútkominni hagspá Landsbankans fyrir árin 2004-2010. Nú í upphafi stóriðjuframkvæmdanna er viðskiptahallinn þegar kominn vel yfir það sem almennt samrýmist efahagslegum stöðugleika og verðbólgan er þegar komin töluvert umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans. Aðkoma bankanna á íbúðalánamarkaði og lækkun langtímavaxta mun án efa auka enn frekar á innlenda eftirspurn. Þessu til viðbótar koma svo loforð stjórnvalda um skattalækkanir sem m.a. hafa það að markmiði að auka kaupmátt ráðstöfunartekna, sérstaklega í lok uppsveiflunnar.

Að okkar mati er líklegt að framvindan á næstu árum verði á margan hátt keimlík því sem gerðist í síðustu uppsveiflu. Mikill kaupmáttur og vaxandi viðskiptahalli leiddu til mikils þrýstings á gengi krónunnar sem á endanum gaf eftir. Þessi sýn felur í sér að verðbólgan hækkar tímabundið og verður yfir þolmörkum Seðlabankans um miðbik spátímabilsins. Spár okkar gera ráð fyrir því að verðbólgan fari hæst í rúm 6% í upphafi árs 2007 en lækki síðan aftur samfara styrkingu krónunnar. Viðskiptahalli gagnvart útlöndum gæti því lækkað hratt og stefnir í 3% af landsframleiðslu árið 2010.

Ungt fólk stærsti hópurinn án atvinnu.

Mest er atvinnuleysi meðal fólks á aldrinum 16-24 ára eða 4,4%. Þetta kemur fram í vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar á þriðja ársfjórðungi ársins. Atvinnuleysi er nú 2,6% og er það sama atvinnuleysisprósentan frá sama tíma í fyrra.

Atvinnuleysi kvenna eykst.
Með tilliti til kynjaskiptingar þá eru 3,4% kvenna án atvinnu en 2,0% karla. Hefur þá atvinnuleysi kvenna aukist um 1,1%, en hjá körlum hefur það minnkað um 0,9%. Lítur því út fyrir að konur eigi erfiðara uppdráttar á vinnumarkaðnum í dag en karlar.

Fækkun á vinnumarkaði.
Samtals voru 158.100 manns starfandi á þriðja ársfjórðungi sem felur í sér fækkun um 4.800 manns frá sama tíma í fyrra.

Heimild: Hagstofan.

föstudagur, október 15, 2004

Halló Akureyri!

Stefnan er tekin á Akureyri um helgina. Var að lesa á heimasíðu þeirra að það séu um 200.000 manns sem heimsæki bæinn árlega, jafnt vetur, sumar, vor og haust. Ég var þarna á ferð fyrr í sumar og það í mjög góðu veðri. Undirritaður hefur því lagt nokkuð af mörkum til að halda uppi ofangreindri tölu.

fimmtudagur, október 14, 2004

Eitt embætti, tvö frumvörp.

Valgerður Sverrisdóttir, viðskiptaráðherra, hefur lagt fram til kynningar frumvarpsdrög til breytinga á skipulagi samkeppnisyfirvalda og neytendamála. Lagt er til að Samkeppnisstofnun og Löggildingarstofa leggist af í núverandi mynd en að sett verði á stofn Neytendastofa sem skuli starfa að stjórnsýsluverkefnum á sviði neytendamála, vöruöryggismála, opinberrar markaðsgæslu, mælifræði og rafmagnsöryggismála. Neytendastofu verður og ætlað að annast framkvæmd laga um órétta viðskiptahætti og gagnsæi markaðarins. Einnig skuli unnið að stefnumótun á sviði neytendamála, auk þess sem stofnunin skal beita sér fyrir því að gerðar verði rannsóknir á því sviði. Þá skal Neytendastofa annast söfnun, úrvinnslu og útgáfu upplýsinga á sviði neytendamála.

Þá er lagt til að skipuð verði sérstök áfrýjunarnefnd neytendamála, þ.e. úrræði til að áfrýja stjórnvaldsákvörðunum teknum af Neytendastofu. Mikilvægt er að slík úrræði séu áfram heimil, enda geta ákvarðanir Neytendastofu verið íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi aðila, sbr. sambærileg ákvæði í núgildandi lögum um Samkeppnisstofnun. Ákvörðunum Löggildingarstofu, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, er ekki heimilt að skjóta til æðra stjórnvalds samkvæmt núgildandi lögum. Neytendaréttur mun því verða ríkari með ofangreindum hugmyndum viðskiptaráðherra.

Nýmæli í frumvarpsdrögunum lýtur að stofnun embættis „talsmanns neytenda,“ sem hafi það hlutverk að taka við kvörtunum frá neytendum, gefa út álitsgerðir og hafa frumkvæði að úrbótum. Talsmanni neytenda verður hins vegar ekki ætlað að vinna að stefnumótun á sviði neytendamála, né er lagt til að talsmaður neytenda vinni að því að gerðar verði rannsóknir á sviði neytendamála. Sú vinna verður í höndum Neytendastofu. Þó svo að talsmaður neytenda muni starfa í tengslum við starfsemi Neytendastofu þá verður sjálfstæði hans að fullu tryggt og hann mun geta nýtt starfsmenn Neytendastofu sér til aðstoðar við dagleg störf og undirbúning mála.

Framsóknarflokkurinn hefur lagt áherslu á að vegna vaxandi fákeppni á ýmsum sviðum þurfi að koma til aukin neytendavernd og mun öflugra eftirlit með þeim fyrirtækjum sem í hlut eiga. Þessa sér stað í ofangreindum hugmyndum Valgerðar Sverrisdóttur viðskiptaráðherra.

Einn af öflugri liðsmönnum Samfylkingarinnar, Þórunn Sveinbjarnardóttir alþingismaður, hefur bent á að styrkja þurfi stöðu neytenda á markaði, enda hafi hún verið veik og við áratugum á eftir nágrannaþjóðunum í neytendavernd og í því að tryggja neytendarétt. Það er því ánægjulegt að vita til þess að Samfylkingin ætli sér að flytja þingsályktun er lítur að stofnun talsmanns neytenda, ekki síst í ljósi þess að nokkrum dögum áður kynnti viðskiptaráðherra ofangreint stjórnarfrumvarp sama efnis.

Það verður að teljast mjög fátítt að nokkrum dögum eftir stjórnarmeirihlutinn hefur kynnt brýnt þjóðfélagsmál skuli stjórnarandstaðan kynna nákvæmlega sama mál. Er þá eftir allt saman ekki svo mikill áherslumunur á flokkum í íslenskum stjórnmálum. Þórunn og félagar ættu því að kanna rækilega möguleika á „þjóðstjórn“ við flutning málsins á Alþingi.

laugardagur, október 09, 2004

Á ég að nefna þrenn mistök ...

Það var eftirtektarvert í kappræðum forsetaframbjóðendanna í nótt, að er Bush var beðin um að nefna þrenn mistök sem hann hafi gert í embætti, gat hann ekki nefnt eitt einasta. Ástæða þessa hjá Bush er sú að það er starfsfólkið hans sem gerir öll mistökin og hann svo mannlegur sjálfur að fyrirgefa þeim. Hann ætlar þó sögunni að dæma síðar til um hvaða mistök hafi verið gerð.

Endilega rennið yfir þetta:
Q: „President Bush, during the last four years, you have made thousands of decisions that have affected millions of lives. Please give three instances in which you came to realize you had made a wrong decision, and what you did to correct it. Thank you.“

PRESIDENT BUSH: „I have made a lot of decisions ― some of them little, like appointments to board you've never heard of, and some of them big. And in a war, there's a lot of tactical decisions that historians will look back and say, you shouldn't have done that, you shouldn't have made that decision. And I'll take responsibility for them. I'm human.

But on the big questions about whether or not we should have gone into Afghanistan, the big question about whether we should have removed somebody in Iraq, I'll stand by those decisions because I think they're right. That's really what you're ― when they ask about the mistakes, that's what they're talking about. They're trying to say, did you make a mistake going into Iraq? And the answer is absolutely not. It's the right decision.

The Duelfer report confirmed that decision today, because what Saddam Hussein was doing was trying to get rid of sanctions so he could reconstitute a weapons program, and the biggest threat facing America is terrorists with weapons of mass destruction. We knew he hated us. We knew he had been a ― invaded other countries. We knew he tortured his own people.

On the tax cut, it's a big decision. I did the right decision. Our recession was one of the shallowest in modern history.

Now, you ask what mistakes ― I made some mistakes in appointing people, but I'm not going to name them. I don't want to hurt their feelings on national TV.

But history will look back, and I'm fully prepared to accept any mistakes that history judges to my administration. Because the President makes the decisions, the President has to take the responsibility.“