miðvikudagur, janúar 21, 2004

Fólk í fyrirrúmi!

Stóraukið framboð á leiguhúsnæði hefur orðið þess valdandi að húsaleiga fer nú lækkandi og er nú svo komið að tveggja herbergja íbúð, sem áður var leigð á allt að 80 til 85 þúsund krónur, er nú komin niður í 50 til 70 þúsund. Umfjöllun um þennan viðsnúning mátti lesa á síðum Fréttablaðsins í vikunni, og er haft eftir Guðlaugi Erni Þorsteinssyni, eiganda og framkvæmdastjóra Leigulistans, að menn séu hættir að geta leigt íbúðir upp úr öllu valdi. Hann hvetur leigusala jafnframt til að setja ekki of háa leigu á íbúðirnar því þá ganga þær hreinlega ekki út.

Framsóknarflokkurinn er hreyfiafl þessa viðstuðnings á leigumarkaði; að frumkvæði félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins var hafið sérstakt átak til að auka framboð leiguhúsnæðis á árinu 2001, gert var rammasamkomulag um að byggðar yrðu 600 leiguíbúðir næstu fjögur árin til viðbótar almennum heilmildum Íbúðalánasjóðs vegna leiguíbúða og var lögð áhersla á að auka framboð minni íbúða. Þessar heimildir Íbúðalánasjóðs hafa allar verið nýttar að fullu um land allt. Einnig var gert samkomulag við húsnæðissamvinnufélagið Búseta um byggingu og rekstur 300 leiguíbúða á næstu fjórum árum. Rúmum 100 íbúðum hefur verið ráðstaf af þeirri heimild.

Þessar áætlanir hafa eflt og styrkt leigumarkaðinn í landinu, landsmönnum til hagsbóta með því að nú er hægt að leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum. En jafnframt verður að vonast til þess að leiguverð á húsnæði lækki enn frekar. Þetta er skref í rétta átt, og hér er um brýnt úrlausnarmál að ræða og Framsóknarflokknum einum er best treystandi til að vinna að viðlíka málum enda stendur hann fyrir stöðugum umbótum á samfélaginu. Framsóknarstefnan hefur ætíð sett manninn og velferð hans í öndvegi.

Engin ummæli: