miðvikudagur, janúar 07, 2004

Stjórnmálaskýrendur og ársuppgjörin.

Landsmenn hafa ekki farið varhluta af ýmiskonar uppgjörum nú við áramótin, en hér er ekki ætlunin að bæta við þá umfjöllun, næg er hún fyrir að flestra mati. Allavega stjórnmálaskýrendur hafa á þessum tímapunkti fengið gott rými í fjölmiðlum til að týna til orð og athafnir stjórnmálamanna og flokka þetta allt saman í það besta og versta á árinu, í afglöp eða snilld ársins, í sigurvegara eða lúsera o. s. frv. Í Bretlandi er jafnvel gengið ögn lengra í þessum efnum og þá með þátttöku stjórnmálamannana sjálfra og veittar viðurkenningar fyrir góða frammistöðu, s.s. fyrir bestu bókina, ræðuna eða viðtalið. Fullyrða má að öll umgjörð í kringum umfjöllun um þjóðfélagsmál hér heima sé að verða líkari því sem best gerist erlendis og er það vel. Uppgjörsþættir líkt og „Kryddsíld“ Stöðvar 2, er með betri þáttum á þessum tímamótum, „Silfur Egils“ á Stöð 2 er einnig um margt góður þáttur, nýr þáttur á Skjá 1 „Maður á mann“ lofar góðu, og ekki síst er „Kastljósið“ í Sjónvarpinu viðamikill vettvangur fyrir þjóðfélagsumræðuna. Ónefndir eru ýmsir dægurmálaþættir í útvarpi og eins er vert að minnast á þátt Útvarps SÖGU til þjóðfélagsumræðunnar með framúrskarandi umsjónarmönnum.

Nú má vitaskuld efast um mikilvægi stjórnmálaskýrenda fyrir almenna umræðu, stjórnmálamönnunum sjálfum á að vera leikur einn að koma á framfæri og svara áleitnum spurningum er eftir því er leitað. En samt sem áður vill það brenna við að þeir láta ekki ná í sig eða neiti jafnvel að koma fram. Gleggsta dæmið af þessu tagi var upphlaupið í kringum svo kallað „eftirlaunafrumvarp“, þegar þrautreyndir stjórnmálamenn eins og Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, og Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – grænt framboð, hurfu af yfirborði jarðar. Mikilvægum spurningum er brunnu á vörum þjóðfélagsþegnanna var ósvarað, ofangreindir stjórnmálamenn ákváðu að hlupust brott frá skyldum sínum og eftir stóð efi um þeirra þátt í öllum málatilbúnaði. Hlutverk stjórnmálaskýrenda við slíkar aðstæður er og verður mikilvægt, það hafa nýmörg dæmi sannað og í því samhengi er rétt að benda sérstaklega á þátt Gunnars Helga prófessors við Háskóla Íslands á mikilvægu augnabliki er eftirlaunafrumvarpið var til umræðu.

Um miðja nítjándu öld var til í París félag sem aðstoðaði leikritaskáld við að ná leikritum þeirra hylli almennings. Leitast var við að vekja áhuga og forvitni áhorfenda nokkru fyrir sýningar á götum úti, þar sem leikverkin voru auglýst. Er á leiksýninguna sjálfa var komið var keppst við að skapa rétta stemmingu s.s. með klappi á réttum stöðum, skellihlátri til að ýta undir meinta fyndni og jafnvel grátur og flóð tára í sorglegum atriðum. Upphrópanir líkt og frábært!! , stórkostlegt!! voru í höndum hæglátra og virðulegra manna, eins var endurtekningin skipulögð þannig að einhverjir pössuðu uppá að hafa eftir setningar úr leikritunum svo að ekkert færi framhjá hinum almenna áhorfenda. Leikritaskáld sem vildi ná hylli almennings varð að tryggja sér aðstoð þessa félags, en það var þó bannað fljótlega. Aðferðin þótti óviðeigandi og ekki til þess fallin að ýta undir þroskaðan listasmekk almennings. En hvað gerist, fólki þótti ekki lengur jafn gaman að fara í leikhús og áður, það varð núna sjálft að gera upp við sig hvenær það ætti að klappa, hlægja eða gráta, leiðsögnin var ekki lengur fyrir hendi.

Óhætt er að fullyrða að hlutverk stjórnmálaskýrenda í dag á sér hliðstæðu í félaginu sem lýst er hér að ofan; í ársuppgjörum eða almennt í umfjöllun um dægurmál hafa þeir það hlutverk að skapa rétta stemmingu með sínum álytum, týna til vinkla í umræðunni og kryfja þá fyrir aðra dauðlega menn.

Hvernig var stjórnmálaárið 2003? Okkar er að setjast niður á hverri „leiksýningunni“ á fætur annarri til að komast að því, nægt er framboðið.

Engin ummæli: