fimmtudagur, mars 11, 2004

Fólk í fyrirrúmi: „Íbúðabréf — grundvöllur traustari verðmyndunnar á verðbréfamarkaði.“

Árni Magnússon, félagsamálaráðherra, hefur fengið samþykkt í ríkisstjórnin að lagt verður fram á Alþingi frumvarp er hefur að markmiði að í stað húsbréfa og húsnæðisbréfa verða gefin út íbúðabréf. Þessi breyting mun auka hagkvæmni fjármögnunar, sníða af helstu agnúa sem eru á núverandi útgáfu og skapa grundvöll fyrir traustri verðmyndun á verðbréfamarkaði. Stefnt að því að bæta hag lántakenda sjóðsins bæði með lægri fjármögnunarkostnaði og minni áhættu í tengslum við fasteignaviðskipti, en íbúðalán verða greidd út í peningum og áhrif affalla við sölu verðbréfa verði þar með úr sögunni. Samkvæmt tillögunum munu lánin bera vexti í samræmi við ávöxtunarkröfu hverju sinni. Frumvarpið miðar að því að auka seljanleika íbúðabréfa á verðbréfamarkaði en líkur eru á því að ávöxtunarkrafa fjárfesta lækki vegna þessa. Ef svo verður, getur Íbúðalánasjóður lækkað vexti á útlánum sínum til lántakenda. Væntingar eru því um að framangreindar breytingar hafi í för með sér lækkun fjármögnunarkostnaðar lántakenda og dragi úr umsýslukostnaði Íbúðalánasjóðs.

Gert er ráð fyrir að íbúðabréf verði verðtryggð jafngreiðslubréf með fjórum endurgreiðslum á ári. Jafngreiðslubréf eru þekkt skuldabréfaform alls staðar í heiminum og ættu því að falla að öllum kerfum sem í dag eru notuð í tengslum við verðbréfaviðskipti. Stefnt er að því að íbúðabréf verði gefin út í fáum flokkum sem verði opnir allan líftímann og verði stórir og því markaðshæfir á alþjóðlegum markaði. Til að flýta fyrir að íbúðabréf verði markaðshæf verður eigendum húsbréfa og húsnæðisbréfa boðið að skipta þeim fyrir íbúðabréf og að haldin verði skiptiútboð. Unnið er að útfærslu skiptiútboða og verður útfærslan kynnt síðar. Miðað verði við markaðskjör í skiptum, að teknu tilliti til áhættu útgefandans. Stjórn Íbúðalánasjóðs áformar að fá sérfróðan aðila til aðstoðar við framkvæmd skiptanna. Gert er ráð fyrir því að breytingin geti tekið gildi 1. júlí 2004, en að útboð á íbúðabréfum hefjist eftir 15. apríl 2004.

Framsóknarflokknum einum er best treystandi til að vinna að viðlíka málum enda stendur hann fyrir stöðugum umbótum á samfélaginu og Framsóknarstefnan hefur ætíð sett fólk og velferð þess í öndvegi.

Engin ummæli: