mánudagur, mars 22, 2004

Að kroppa í yfirfærslu fjár á milli kynslóða.

Á Alþingi í dag er til umræðu og afgreiðslu ný heildarlög um erfðafjárskatt, en núgildandi lög eru að mörgu leyti orðin úrelt. Lögin eiga uppruna sinn í dönsku lögum, en fyrstu ákvæðin um erfðafjárskatt í Danmörku er að finna í tilskipun 12. september 1798, sem einnig var lögleidd hér á landi. Síðar, eða með lögum frá 1952 var m.a. fjallað um það hlutverk erfðafjársjóðs að endurhæfa fólk sem ekki gæti séð sér farboða. Erfðafé hefur lengi verið talið eðlilegur skattstofn, sbr. langa forsögu hans hér á landi, og í raun eru það aðeins tvö aðildarríki OECD, af 30, sem leggja ekki á erfðafjárskatt, þ.e. Ástralía og Kanada.

Svo segir í greinargerð með frumvarpinu: „Þótt flest ríki OECD leggi á erfðafjárskatt eru aðferðir við álagningu hans mjög mismunandi eftir ríkjum. Ákvörðun um skattstofn og skattfjárhæð er misjöfn. Einnig er mjög mismunandi eftir ríkjum hvort lagt er á dánarbúið sem heild eða á einstaka arfshluta. Síðari reglunni er fylgt á Norðurlöndum (nema Danmörku), í Frakklandi, Hollandi, á Spáni og í Þýskalandi, en í Bretlandi, Danmörku og ýmsum fleiri ríkjum Evrópu er dánarbúið andlag skattsins. Í langflestum tilvikum fylgja ríkin þó þeirri meginreglu að miða fjárhæð erfðafjárskattsins við skyldleika. Eftir því sem erfingjar eru fjarskyldari þeim mun hærri er skatturinn.

Samkvæmt íslenskri og norrænni löggjöf um erfðafjárskatta er almenna reglan sú að greiða skuli skatt af hverjum einstökum arfshluta, skatthlutfallið ræðst af sifjatengslum og fer stighækkandi eftir því sem skyldleikinn fjarlægist. Þá hækkar skatturinn innan hvers flokks eftir því sem arfur verður meiri.

Nýleg endurskoðun hefur staðið yfir bæði í Noregi og Danmörku á lögum um erfðafjárskatt. Hefur við samningu þessa frumvarps nú sérstaklega verið litið til þeirra breytinga sem lagðar hafa verið til í þessum löndum.“

Veigamestu breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru „annars vegar veruleg lækkun skatthlutfallsins og hins vegar hækkun skattfrelsismarka. Þannig er gert ráð fyrir að af erfðafé í a-flokki skuli greiða 5% erfðafjárskatt og af erfðafé í b-flokki skuli greiða 10% erfðafjárskatt. Ræðst skattfjárhæðin af skyldleika erfingja við arflifanda eins og samkvæmt gildandi lögum. Skatturinn er því hærri eftir því sem skyldleikinn er firnari. Slíkar reglur eru réttlættar út frá erfðaréttarlegum sjónarmiðum, þ.e. með vísan til þess að erfðaréttur fjarskyldari ættingja er veikari en erfðaréttur náskyldra. Hins vegar hækkar skatturinn ekki eftir því sem erfðafé vex eins og er samkvæmt gildandi lögum. Hann er með öðrum orðum ekki stigvaxandi.“

„Í frumvarpinu er miðað við að heildarskattfrelsismörk í hverju dánarbúi verði 1 millj. kr. og að erfðafjárskattur verði eingöngu lagður á þá fjárhæð sem er umfram viðmiðunarmörkin. Í dag eru skattfrelsismörkin afar lág, eða einungis 60 þús. krónur. Þá er skatturinn lagður á alla fjárhæðina sé hún hærri en 60 þús. kr., en ekki einungis það sem umfram er.

Áhrif breytingartillagna frumvarpsins eru nokkuð mismunandi eftir skattflokkum, en í öllum tilvikum ætti skatturinn að lækka ef frá eru taldir þeir aðilar sem hafa verið undanþegnir skattinum en verða nú skattskyldir. Í eftirfarandi töflu er birtur lauslegur samanburður á skattflokkum fyrir og eftir breytingu. Í öllum tilvikum er erfingi aðeins einn og skattskyldur arfur 3 millj. kr. þegar kostnaður hefur verið dreginn frá.“

Það verður því að teljast all mikil réttarbót með samþykki þingheims á þessum nýju heildarlögum og í raun fagnaðarefni, enda umdeilanlegt hvort að þessi háttur sé sanngjarn og réttlátur ef rökin eru að þetta sé ágæt leið fyrir ríkisjóð, ein af mörgum, að kroppa í yfirfærslu fjár á milli kynslóða.

Engin ummæli: