miðvikudagur, janúar 11, 2006

Og enduðu í drápi!!

Ég geri pistil Hjálmars Árnasonar, alþingismanns, að mínum og birti hann hér:

OG ENDUÐU Í DRÁPI!

Þann 9. febrúar 2004 setti ég pistil inn á þessa síðu og tilkynnti að fjölskyldan vildi ekki lengur fá DV inn á heimilið. Tilefnin voru svo sem mörg en þann dag fengum við einfaldlega nóg – nóg af ærumeiðingum og mannorðsmorðum þeirrar blaðamennsku er þá hafði haldið innreið sína í blaðið.

Tekið skal fram að fjölskylda mín hafði í sjálfu sér sloppið við illkvittni ritstjórnarstefnunnar en okkur blöskraði hvernig veist var að fólki dag eftir dag með svívirðilegum hætti. Með dylgjum, hæpnum fullyrðingum og þar sem blaðið vék lögum og dómstólum til hliðar en settist sjálft í sæti þeirra. Nokkru síðar hætti ég að svara spurningum blaðamanna DV – af sömu ástæðu. Þrátt fyrir nokkrar pillur í refsingarskyni af hálfu blaðsins hef ég haldið fast við báðar ákvarðanir enda létt að fylgja samvisku sinni.

Við eldhúsborðið höfum við annað slagið velt upp þeim áhrifum sem þessi ógeðslega blaðamennska kynni að hafa á einstaklinga og fjölskyldur þeirra. Flestir kannast ugglaust við sorgleg dæmi um slíkan harmleik af völdum blaðsins. Í dag gengu þeir þó endanlega fyrir björg.

Ég tek undir með þeim sem fullyrða að blaðið hafi drepið mann – í bókstaflegri merkingu þess orðs. Myndbirting á forsíðu af GRUNUÐUM manni með viðeigandi fullyrðingum reyndist að þessu sinni vera dauðadómur án réttarmeðferðar eða laga. DV fór yfir strikið og ekki einasta greip til mannorðsmorðs heldur morðs í eiginlegri merkingu. Og það er stórt orð en ekki verður séð annað en full innistæða sé þar að baki. Þyngra er en tárum taki að lýsa samúð með ástvinum hins myrta. Þeirra skaði verður aldrei bættur. En atvik þetta hlýtur að vekja upp nokkrar spurningar.

1. Hvernig hyggst ritstjórinn axla sína ábyrgð?
2. Hvernig hyggjast eigendur blaðsins axla sína ábyrgð?
3. Hvernig hyggjast auglýsendur og kaupendur blaðsins axla sína ábyrgð?
4. Hvernig hyggjast íslenskir neytendur bregðast við gagnvart þeim er ábyrgð bera?
5. Hvernig hyggst blaðamannastéttin bregðast við?
6. Getur verið að DV hafi teygt viðurkennd velsæmismörk íslenskrar blaðamennsku lengra en góðu hófi gegnir og þannig haft bein/óbein áhrif á þau mörk í öðrum fjölmiðlum?
7. Er ástæða til að leggja fram formlega kæru gagnvart gjörningsmönnum og láta dómstóla meta sekt þeirra?

Svör við þessum spurningum hljóta að birtast á næstu dögum og vikum. Sjálfur mun ég gefa mér góðan tíma til að leita þeirra – þegar og ef mér rennur reiðin.

Engin ummæli: