miðvikudagur, desember 17, 2003

Hagsmunir Ingibjargar Sólrúnar í desembermánuði ár hvert -- Taugastríðið IV.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður framtíðarnefndar Samfylkingarinnar, hafði í höndunum vinningsstöðu í liðinni viku. Solla hafði færi á að koma fram í fjölmiðlum sem vísdómsmaður í íslenskum stjórnmálum og hafa yfir alþjóð að „svona gera menn ekki“. Slík yfirlýsing af hennar hálfu hefði getað haft afdrífaríkar afleiðingar fyrir allt þingið og þá ekki síst stöðu þeirra sem studdu umdeilt eftirlaunafrumvarp. Pólitískt nef Ingibjargar, fyrir möguleikum í stöðum sem þessum, þar sem mál hreinlega hrópa á andstæðar skoðanir, ekki síst í því ljósi að velflestir þingmenn voru á góðri leið með að styðja mál er féll í jafn grýttan jarðveg hjá landsmönnum, brást hrapanlega þegar Solla í hjarta sínu sá möguleika á að koma að sínum eigin hagsmunum.

Ingibjörg lagði á það ofuráherslu, að formenn flokka er ekki eru ráðherrar og ekki á þingi, ættu einnig möguleika á að krækja í þær hækkanir er í boði voru. Slíkur var þunginn í þessari kröfu að Fylkingin hagræddi nefndarmönnum sínum í allsherjarnefnd þingsins, þar sem eftirlaunafrumvarpið var til umræðu, og settu inn einn þrautreyndasta þingmann sinn, Rannveigu Guðmundsdóttur, fyrrverandi ráðherra, til að auka líkur sínar til muna um að tillaga þeirra fylkingarmanna næði fram að ganga. Ingibjargar bíður það hlutverk, að hennar sögn, að leiða Fylkinguna eftir næsta landþing hennar, sitjandi utan þings að öllu óbreyttu, í því ljósi hafði Solla einlæga von um sneið af eftirlaunafrumvarpinu, en svo fór sem fór.

Það er með ólíkindum að jafn sjóaður stjórnmálamaður skuli hafa látið hankað sig svona, neitað m.a. fjölmiðlum um viðtöl, hreinlega hverfa af vettvangi, þegar gullið tækifæri gafst til að spila lykilhlutverk í máli sem varð jafn óvinsælt meðal almennings og raun bar vitni. Það fer að vísu að verða mjög vandræðaleg staða að hreinlega vera stjórnmálamaðurinn Solla í desembermánuði ár hvert.

Alþjóð er í fersku minni hvernig farsælum borgarstjóra tókst að glutra úr höndum sér stjórn borgarinnar í desember í fyrra, uppákoma síðustu daga á sér í raun þá hliðstæðu að Ingibjörg Sólrún metur rangt hvar hagsmunir hennar eigi heima hverju sinni. Það er orðið landslýð deginum ljósara að pólitískar ákvarðanir er Ingibjörg þarf að taka með litlum eða engum fyrirvara eru dæmdar til að mistakast.

Engin ummæli: