föstudagur, febrúar 18, 2005

Herferð Og Vodafone er tortryggileg.

Athygli hefur vakið sérlega tortryggileg herferð Og Vodafone á síðum dagblaðanna undanfarið. Er helst að skilja á þessum áróðri að Og Vodafone ætli sér að fá allt fyrir ekki neitt. Það er sérlega eftirtektarvert að sjá Baug í þessum auglýsingum höfða til landsbyggðarfólks. Fram hefur komið að Og Vodafone eru ekki á móti því að einkavæða Landssíma Íslands, hafa jafnvel talið þarft að flýta því ferli. En Og Vodafone eru á því að skilja eigi svokallað grunnnet frá við sölu símans og selja það sérstaklega. Hvaða hagsmunir liggja þar að baki? Er ekki nauðsynlegt að tryggja frjálsa samkeppni í fjarskiptum á Íslandi?

Fjarskiptafyrirtæki hafa víðast hvar í Evrópu verið seld úr ríkiseigu. Í því ferli hafa grunnnet hvergi verið aðskilin af þeirri ástæðu að hvergi var sú leið talin heppileg eða skynsamleg, hvorki fyrir fjarskiptamarkaðinn né neytendur. Gert er ráð fyrir samkeppni í rekstri grunnneta á EES-svæðinu, en auk grunnnets Símans reka Orkuveita Reykjavíkur, Og Vodafone og Fjarski svæðisbundin grunnnet. Ríkisrekið grunnnet væri því í beinni samkeppni við aðra rekstraraðila og engan veginn hægt að tryggja viðskipti annarra rekstraraðila við slíkt net. Sem dæmi má nefna að 365-ljósvakamiðlar hafa sagt upp samningi við Skjá 1 um dreifingu á svokölluðu örbylgjudreifikerfi. Þar hljóta markaðs- og rekstrarleg sjónarmið að búa að baki. Því er spurningin hvort að Póst- og fjarskiptastofnun eigi að grípa hér inn í og meta hvort að um málefnalegar forsendur sé að baki þessari ákvörðun 365-ljósvakamiðla?

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, sagði í ræða á Viðskiptaþingi fyrir stuttu: „Markmið íslenskra stjórnvalda með sölu á hlut sínum í Símanum eru skýr: að auka samkeppni á fjarskiptamarkaði enn frekar og bæta þannig hag neytenda. Til að þessi markmið megi nást er virkt eftirlit algert skilyrði. Þurfi að styrkja það frekar til að eyða tortryggni gagnvart markaðsráðandi aðila sem starfrækir grunnnet, þá tel ég rétt að skoða það sérstaklega.“ Rekstraraðili gunnnets þarf að standa undir fjárfestingum vegna tæknilegrar uppbyggingar til að koma til móts við hraða vöruþróun og auknar kröfur neytenda. Agi markaðarins hefur þau áhrif á þjónustufyrirtæki, sem á allt undir neytandanum, að þau eru betur til þess fallinn að byggja upp en rekstraraðili í eigu hins opinbera.

Farsímaþjónusta t.d. flokkast ekki undir alþjónustu og stjórnvöld geta því ekki lagt kvaðir á Símann um uppbyggingu þess. Því hefur Halldór Ásgrímsson sagt að ríkið ætli að nota um 800 milljónir af þeim peningum sem fást við sölu Landssímans til að byggja upp GSM-farsímakerfið við þjóðvegi landsins.

„Ætli þeir geri það nokkurn tímann hjá Og Vodafone“?

Engin ummæli: