þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Evrópuunræðan innann Framsóknarflokksins.

Siv Friðleifsdóttir, alþingismaður, kom inn á athyglisverðan flöt á Evrópuumræðunni innann Framsóknarflokksins á fimmtudaginn í síðustu viku er til umræðu var munnleg skýrsla utanríkisráðherra, Geirs H. Haarde. Þar sagði Siv m.a.:

„Talsvert hefur verið rætt um Evrópusambandið, sem er eðlilegt enda höfum við þar gífurlegra hagsmuna að gæta. Framsóknarflokkurinn markaði stefnu sína núna á flokksþingi í febrúar 2005. Þar stendur, með leyfi virðulegs forseta:

„Á vettvangi Framsóknarflokksins skal halda áfram upplýsingaöflun og vinnu við mótun samningsmarkmiða og hugsanlegs undirbúnings aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Niðurstöðu þeirrar vinnu skal bera undir næsta flokksþing til kynningar.

Komi til aðildarviðræðna við ESB skulu niðurstöður slíkra viðræðna bornar undir þjóðaratkvæði.“

Eins og margir muna þá skók EES-samningurinn Framsóknarflokkinn. Þar var tekist á. Ég var í þeim hópi sem studdi mjög EES-samninginn. Ég held að Framsóknarmenn telji almennt, þegar þeir líta til baka, að EES-samningurinn hafi verið geysilega jákvætt skref. Ég vil líka segja að á flokksþingi okkar í febrúar 2005 má segja að nokkur breyting hafi orðið í orðræðunni gagnvart Evrópusambandinu innan Framsóknarflokksins. Kannski er hægt að kalla það kynslóðaskipti, ég skal ekkert um það segja. A.m.k. var unga fólkið almennt, þótt það sé ekki svart-hvít umræða, mun jákvæðara gagnvart aðild að Evrópusambandinu en við höfum áður heyrt á vettvangi Framsóknarflokksins. Og hvað var unga fólkið að segja? Jú, það vildi fá tækifæri. Það sagðist sjá að Evrópusambandið væri einsleitt og við værum hluti af því. Við erum með EES-samninginn og að sjálfsögðu höfum við þróast eins og Evrópusambandið vegna þess. Það hefur fært okkur margt mjög hagstætt.

Unga fólkið menntar sig og nýtir tæknina. Það hugleiðir að stofna fyrirtæki og sum þeirra hafa gert það. Þau vilja fara í útrás. Þau fylgjast með sveiflu krónunnar og fylgjast með evrunni. Þau fylgjast með því hvernig önnur ríki hafa farið inn í Evrópusambandið og notið undanþágna, t.d. Malta. Menn hafa rætt um að á vettvangi sjávarútvegsins gætum við fengið slíkar undanþágu. Menn hafa trú á því, af því það er ekki Evrópusambandinu í hag að veita okkur ekki ákveðið svigrúm áfram gagnvart stýringu á sjávarauðlindum okkar. Þannig var mun jákvæðari tónn gagnvart Evrópusambandsaðild en ég hef upplifað áður í Framsóknarflokknum. Ég vildi draga þetta sérstaklega fram af því ég tel að það sé að verða breyting í Framsóknarflokknum að þessu leyti. Nú er unnið að því í Evrópunefnd að móta samningsmarkmið og það verður spennandi að sjá hvernig því reiðir af.“

Þessu til staðfestingar er rétt að rifja upp ályktun er samþykkt var á 32. þingi Sambands ungra framsóknarmanna að Nesjavöllum í Grafningi 25.-27. júní 2004, en þar segir:

„[Þingið] telur að meginmarkmið utanríkisstefnu Íslands sé að varðveita sjálfstæði íslensku þjóðarinnar, yfirráð yfir auðlindum hennar, tryggja öryggi landsins, efla viðskipti við aðrar þjóðir og tryggja aðgang að erlendum mörkuðum.

Á undanförnum árum hafa Íslendingar í auknum mæli látið til sín taka og axlað aukna ábyrgð innan alþjóða samfélagsins. Þann áratug sem EES-samningurinn hefur verið í gildi hefur hann nýst íslenskum hagsmunum vel í meginatriðum og hefur leitt til mikilla hagsbóta í þágu einstaklinga og fyrirtækja. Þing SUF telur að þó svo að tekist hafi að semja um framlengingu og stækkun EES-samningsins hafi samningurinn ekki þróast nægilega í takt við þær breytingar sem orðið hafa á samstarfi Evrópuríkja á þessu tímabili. Að auki telur þing SUF að EES-samningurinn hafi frá upphafi ekki gætt þess nægilega að Íslendingar hafi sjálfstjórn á sínum málum, m.a. með aðkomu að löggjöf þar sem Íslendingar þurfa í æ ríkara mæli að taka löggjöf ESB óbreytta inn í íslenskan rétt án þess að hafa nokkra aðkomu að stefnumótuninni sjálfri. Það liggur því fyrir að íslendingar afsala sér meira af sjálfsákvörðunarrétti utan ESB en innan.

Því telur þing SUF að það þjóni hagsmunum Íslands að hefja nú þegar vinnu við samningsmarkmið með aðild að ESB í huga og skal sú vinna hefjast að frumkvæði forsætisráðuneytisins. Huga þarf sérstaklega að hagsmunum Íslendinga í landbúnaðar og sjávarútvegsmálum. Án viðunandi niðurstöðu úr amningarviðræðum leggst SUF alfarið gegn inngöngu í ESB.“

Engin ummæli: