mánudagur, febrúar 20, 2006

Skagafjörður.

Hér horfum við út Skagafjörðinn, Sæmundarhlíð og Reykjaströnd blasa við, Tindastóll yfir 1000 metrar skagar hæst.

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

„Hálf 5-fréttir“ greiningardeildar ríkislögreglustjóra.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hefur á bloggi sínu upplýst að á ríkisstjórnarfundi, s.l. föstudag, hafi hann kynnt frumvarp er feli í sér „að við embætti ríkislögreglustjóra og önnur lögregluembætti samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra starfi greiningardeildir til að meta áhættu og sinna greiningu á því, sem tengist alþjóðlegri eða skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkastarfsemi".

Í fréttum hefur ráðherrann lýst því að slíkri greiningardeild megi líkja við greiningardeildir viðskiptabankanna og að leikfimisæfingar stjórnarandstöðu um að líkja þessu við leyniþjónustu séu með öllu ómálefnalegar.

Ég fagna mjög þessari yfirætlan ráðherrans, að fá fram alvöru spekinga til að rannsaka landráð og brot gegn stjórnskipan það er af hinu góða og hlakka ég mjög til að gerast áskrifandi að „hálf 5-fréttum" deildarinnar þar sem ég verð upplýstur um kaupin á eyrinni í undirheimum Reykjavíkur. Að vísu hef ég fyrirvara um að dómsmálaráðherra hafi sjálfdæmi um hvaða lögregluembætti hafi með höndum greiningu og mat á áhættu, þarna finnst mér að „Kínamúrarnir" eða „eldveggirnir" haldi ekki að öllu leyti.

En Danna í „greninu", Tobba „túkall" og Bjarna „glæp" verður hér eftir varla hlíft við stöðugum fréttum af markverðum atburðum og á DV-ið sjálfsagt eftir að fölna við hliðina á hálf 5-bloggi greiningardeildir ríkislögreglustjóra. Enda vonast maður til að geta fengið með milliliðalausum hætti greiningu og mat á áhættu að vera nálægt slíkum kumpánum sem og Danna, Tobba og Bjarna glæp.

Hér hefur dómsmálaráðherrann, Björn Bjarnason, hitt naglann á höfuðið, því að hver vill ekki fylgjast með gistináttafjölda hjá lögreglu, innflutningsspá, vaxtamöguleikum og uppgjörstímabilum. Það eru spennandi tímar framundan, það verður enginn sunnudagaskóli í undirheimum Reykjavíkur.

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

British Airways hefur áætlunarflug til Íslands.

Breska flugfélagið British Airways (BA) hefur tilkynnt að það muni í lok mars hefja áætlunarflug milli Gatwick og Keflavíkur. Stefnir félagið á að fara í harða samkeppni á Íslandsmarkaðnum og segjast vera komnir til að vera allt árið um kring. BA ætlar að halda úti ferðum fimm daga vikunnar á sumrin og fjóra á veturna.

BA mun ekki reka skrifstofu hér, farmiðarnir verða einungis seldir á vefsíðu þeirra, www.ba.com og þar geta farþegar sjálfir valið sér sæti í vélinni og síðan prentað út brottfararspjald sem flýtir fyrir við innritun í flugið.

Til að kynna sína vöru bjóða BA fyrstu tuttuguþúsund farþegunum helmings afslátt af fargjöldunum sem gildir fyrir flug fram í lok ágúst. „Megnið af viðskiptavinunum verða að öllum líkindum farþegar frá Bretlandi, einfaldlega vegna þess að það er mun stærri markaður,” sagði Sam Heine viðskiptastjóri BA á Norðurlöndum á blaðamannafundi í morgun.

„Við bjóðum upp á fulla þjónustu við okkar farþega, matur og drykkir áfengir og óáfengir eru innifaldir,” sagði Heine. Hann sagði að íslenski markaðurinn væri aðlaðandi fyrir BA því hér væru svo margir nettengdir. „Við erum ekki smeyk við samkeppnina, hún er góð fyrir viðskiptavininn sem fær aukið val á flugum og góð verð,” sagði Heine.

BA notar Boeing 737-400 á flugleiðinni og Heine sagðist fullviss um að margir Íslendingar myndu kjósa að fljúga með BA því þó að verðið væri kannski á svipuðum nótum og hjá öðrum flugfélögum eftir að kynningartilboðinu lýkur þá gætu BA boðið upp á góða þjónustu á vefnum og um borð í vélunum.

Fyrsta vélin lendir klukkan 9.45 þann 26. mars, verð á fari fram og tilbaka eftir að tilboði lýkur verður 22,900 kr. með sköttum. Boðið verður upp á tvö farrými og kostar farið á dýrara farrýminu 67,360 með sköttum.

Nú er þetta ekki í fyrsta sinn sem BA reynir fyrir sér á íslenskum ferðamarkaði því flugfélagið GO reyndi fyrir sér á þessari flugleið fyrir nokkrum árum, hver er munurinn á þessari tilraun? „GO var dótturfélag BA sem var lággjaldaflugfélag sem við reyndar seldum síðan með góðum hagnaði, en BA stefnir á að þjóna þessum markaði allt árið og lítum á það sem ákveðna skuldbindingu,” sagði Heine

Heimild: mbl.is
- - - - -

Verð að segja að þessar fréttir kæta mig mikið, enda um fyrstaflokks flugfélag að ræða. Veit a.m.k. af einni ferð sem ég fer í sumar, jæja svona helmingslíkur á henni vona ég.

föstudagur, janúar 27, 2006

Afmælis Mozarts fagnað

Mikil hátíðahöld eru í Salzborg í Austurríki í dag þegar þess er minnst að í dag eru 250 ár liðin frá því að tónsnillingurinn Wolfgang Amadus Mozart fæddist. Borgaryfirvöld hafa eytt hundruðum miljóna króna í að gera upp söfn borgarinnar, í sýningar og viðamikið tónleikahald. Mozarthátíðin á að standa í eitt ár.

Í tilefni dagsins hafa fjölmargar sjónvarpsstöðvar sameinast um útsendingu helgaða tónskáldinu. Útsendingin varir í 24 tíma og hófst í Sjónvarpinu nú klukkan 7. Sjónvarpið sendir út frá hátíðinni til klukkan 15 í dag, og svo aftur frá miðnætti til morguns. Klukkan tólf á hádegi verður bein útsending frá tónleikum sem fara fram í Forboðnu borginni í Peking. (Heimild: ruv.is)

Hér fylgir einnig með texti á ensku sem er með tengingar á mjög góðar upplýsingasíður.

Wolfgang Amadeus Mozart, the genius musician, was born 250 years ago today and the world is celebrating his birth and his music. In Salzburg, where he was born, dignitaries from around the globe will attend a giant birthday bash this evening. Over the next year, Salzburg will host 260 all-Mozart concerts and 55 Masses devoted to his sacred music. In New York this evening, the Philharmonic will debut a three-week "Magic of Mozart" tribute, and the Metropolitan Opera will present a production of The Magic Flute.

föstudagur, janúar 20, 2006

HJÓLREIÐABRAUT!!

„Frábært! Vonandi er þetta upphaf að nýjum áherslum í borginni. Hún er 96 metra löng, rétt lögð einstefnubraut, með litlum hellusteinum sem lagðir eru í tígul á ferðastefnu. Það er því lítil hætt á því að hjólreiðamaður missi stjórn á hjóli sínu þó steinarnir gangi til, sígi eða lyftist. Brautin er þráðbein og liggur milli akvegar og gangstéttar. Kantar eru lágir svo þeir skapa ekki verulega slysahættu. Þeir gagnast vel til að bægja frá skít sem stafar af vetrarumferð bíla. Hjólreiðafólk þarf því væntanlega ekki að vaða þykkt tjöru- og drullulag á hjólabrautinni.

En hönnunin er ekki gallalaus. Einhverra hluta vegna fékk hjólreiðabrautin ekki áberandi litaða steina eins og tíðkast víða erlendis. Þvert á móti þeir eru svartir. Í Danmörku og Noregi eru hjólreiðabrautir bláar en rauðar í Þýskalandi og Hollandi. Litað malbik í stað steina hefði verið mun betri kostur. Hér á landi myndi rautt henta vel. En borgaryfirvöld hafa svo sem ekki haft áhuga á því að ræða þessa hluti. Hér á landi virðast rauðir steinar vera notaðir til skrauts, eða í tilfelli Laugavegs til að afmarka einhverskonar gangbraut sem öllum börnum er vanalega kennt að sé „sebrabraut“ með hvítum lit!

Já, hvar er „sebrabrautin“ sem ætti að vera við enda hjólabrautarinnar, í raun skírt og greinilega yfir bæði hjóla- og gangbrautina? Er það kannski alræði bílana sem svífur yfir strætum Laugavegs eins og annars staðar í Reykjavík? Tengingin við Snorrabraut er ákaflega klúðursleg en það var ekki gerður flái á gangstéttina fyrir þá hjólaumferð sem kemur frá Hlemmi. Hugsanlega áttu hönnuðirnir í erfiðleikum með að tvinna þrennt saman, akandi, gangandi og hjólandi. Íslenska forgangsreglan í umferðinni við hönnun umferðarmannvirkja er einföld og hljómar svona: Bílar hafa ætíð forgang. Gangandi eiga alltaf að passa sig (svokölluð „varúðarregla“) og hjólreiðamenn eiga ekki að þvælast fyrir, hvorki gangandi né akandi. Myndin fyrir ofan sannar þessa reglu.

Þess ber þó að geta að eftirlitsaðilinn með þessari framkvæmd var frá Línuhönnun. Ekki töldu þeir rétt að hafa sebrabraut á þeim stað sem áður er getið. „Ofnotkun á gangbrautum og gangbrautir á röngum stöðum getur beinlínis verið hættulegt. Laugavegurinn er slík gata að betra er að stuðla að eðlilegu samspili milli mismunandi ferðamáta líkt og hefur tíðkast lengi á Laugaveginum.“
Merkingin á brautinni er farin að láta á sjá. Merkingin er því annað hvort ónýt eða hjólabrautin mikið notuð.“

(Heimild: hjol.org)

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Stefnuskrá Tímans.

Undirritaður átti gott samtal við fyrrum ráðherra Framsóknarflokksins fyrir síðustu helgi, og var erindið tengt máli er hefði getað fallið undir störf hans sem ráðherra á sínum tíma. Í framhaldi spannst upp skemmtilegt spjall og rifjaðist eitt og annað upp frá gamalli tíð.

Í framhaldi af þessu samtali hef ég svona til gamans skrifað hér upp stefnuskrá Tímans og mun bæta við hana þegar stund gefst til. Það er gaman að geta grúskað aðeins og t.d. að rifja upp gömul og góð gullkorn úr sögunni. Njótið vel. E.G.E.


Tíminn, Reykjavík, 17. mars 1917. 1. tbl. 1. árg.

Inngangur.

Um nokkur undarfarin misseri hafa verið á döfinni samtök allmargra eldri og yngri manna af ýmsum stéttum víðsvegar um land, sem stefnt hafa að því, að íslenska þjóðin skiptist framvegis fremur en hingað til í flokka eftir því, hvort menn væru framsæknir eða íhaldssamir í skoðunum. Þessir menn voru óánægðir með árangurinn af gömlu flokkaskiptingunni. Þeir sáu menn sem verið höfðu samherjar í gær, verða fjendur í dag. Og þegar til athafna kom í þinginu, gekk illa að halda þessum flokksbrotum saman um ákveðin mál. Í innanlands málum a.m.k. var ekki hægt að greina nokkurn verulegan stefnumun.

Af þessu öllu hefir mjög dvínað trúin á lífsgildi gömlu flokkanna. Og svo mjög hefir kveðið að þessu trúleysi, að tvö nafnkenndustu stjórnmálablöð landsins, hafa eigi alls fyrir löngu viðurkennt, að gamla flokkaskipunin væri úrelt og eigi til frambúðar.

En þjóð sem býr við þingræði getur ekki án flokka verið. Og stjórnarhættir og framkvæmdir í þingræðislöndum fara mjög eftir því, hvort flokkarnir eru sterkir og heilbrigðir, eða sjúkir og sjálfum sér sundurþykkir. Þar sem flokkarnir eru reikulir og óútreiknanlegir, eins og roksandur á eyðimörk, verða framkvæmdirnar litlar og skipulagslausar. Því að hver höndin er þar upp á móti annarri. Heilbrigð flokkaskipun hlýtur að byggjast á því, að flokksbræðurnir séu andlega skyldir, séu samhuga um mörg mál en ekki aðeins eitt, og það þau málin sem mestu skipta í hverju landi.

Erlendis hefur reynslan orðið sú í flestum þingræðislöndunum, að þjóðirnar skiptast í tvo höfuðflokka framsóknarmenn og íhaldsmenn. Að vísu gætir alla jafna nokkurrar undirskiptingar, en þó marka þessir tveir skoðunarhættir aðallínurnar. Og svo þarf einnig að vera hér á landi, ef stjórnarform það sem þjóðin býr við, á að verða sæmilega hagstætt landsfólkinu.

Þetta blað mun eftir föngum beitast fyrir heilbrigðri framfarastefnu í landsmálunum. Þar þarf að gæta samræmis, hvorki hlynna um of að einum atvinnuveginum á kostnað annars, né hefja einn bæ eða eitt hérað á kostnað annarra landshluta, því að takmarkið er framför alls landsins og allrar þjóðarinnar.

Að þessu sinni verður ekki farið ítarlega út í einstök stefnuatriði, en aðeins bent á fjögur mál sem blaðið mun láta til sín taka, og lítur það svo á, að heppileg úrlausn þeirra geti verið hin besta undirstaða allra annarra framfara.

Er þar fyrst að nefna bankamálin, sem eru og hafa verið í ólagi, svo megnu að seðlaútgáfurétturinn hefir af þinginu verið athentur erlendu gróðafélagi. Í því máli ber þrenns að gæta:

  1. Að ekki verði gengið lengra en orðið er í því, að veita hlutabankanum sérréttindi.
  2. Að bankarnir hafi í náinni framtíð nægilegt veltufé handa landsmönnum.
  3. Að fyrirkomulag bankanna sé heilbrigt, og að allar stéttir og allir landshlutar eigi jafn hægt með að hagnýta sér veltufé þeirra.

Um samgöngumálin verður spyrnt á móti því að nokkurt félag, innlent eða útlent, fái einkarétt til að eiga samgöngutæki hér á landi. Hefir áður borið á þeirri hættu, og á orði að sá draugur muni endurvakinn nú með vorinu. Hins vegar verður lögð áhersla á að koma samgöngunum á sjó í viðunarlegt horf, og að jafnframt verði samgöngurnar á landi bættar svo sem efni þjóðarinnar frekast leyfa.

Í verslunarmálum, mun blaðið fylgja fram samvinnustefnunni til hins ýtrasta, og gera sér far um að benda á hvar og með hverjum hætti sú hreyfing geti orðið þjóðinni til mestra nota.

Að því er snertir andlegar framfarir mun verða lögð stund á að banda á hverjir þættir séu sterkir og lífvænlegir í íslenskri menningu, og haldið fram máli þeirra manna sem vilja nema af öðrum þjóðum, þar sem þær standa Íslendingum framar, og þá kostað kapps um, að numið sé á hverju sviði af þeim, sem færastir eru og lengst á veg komnir.

En meðan hverskonar hættur og ófarnaður vofir þjóðinni af völdum heimsstyrjaldarinnar, mun blaðið leggja meiri áherslu á að ræða bjargráð yfirstandandi stundar, fremur en framtíðarmálin.

Er þar einkum tveggja hluta að gæta, fyrst að einskis sé látið ófreistað til þess að tryggja landinu nægilegan skipakost, og í öðru lagi að matvöruaðdrættir frá útlöndum og skipting matvælanna hér á landi, verði framkvæmd með þeirri réttvísi og hagsýni, sem frekast verður við komið.

Einmitt þessar sérstöku ástæður eru þess valdandi, að blaðið hefur göngu sína nokkru fyrr en ætlað var upphaflega, og áður en sá maður, sem búist er við að verði framtíðarritstjóri þess, getur flust hingað til bæjarins. Fyrir því stýri því nú í byrjun einn af eigendum þess, Guðbrandur Magnússon bóndi frá Holti undir Eyjafjöllum, þótt eigi geti hann sinnt því starfi nema skamma stund.

Nafnið á blaðinu þarf naumast skýringar við. Þó má taka það fram, að eins og það er ekki eins nútíð og framtíð, heldur einnig fortíðin sem felst í hugtakinu tíminn, þannig mun og blaðið hafa það fyrir augum sem læra má af liðinni þjóðarævi, til leiðbeiningar í nútíð og framtíð.

Visindavefurinn.

Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor við Háskóla Íslands og ritstjóri Vísindavefsins, hefur verið tilnefndur til Descartes-verðlauna Evrópusambandsins fyrir vísindamiðlun árið 2005. Er hann í hópi með 23 öðrum sem tilnefndir hafa verið verið. Menntamálaráðuneytið hafði bent á Þorstein vegna verðlaunanna en það færði honum sérstakt heiðursskjal nýverið í tilefni af fimm ára afmæli Vísindavefsins.

Í tilkynningu frá HÍ kemur fram að tilnefningin sé mikill heiður fyrir Þorstein og það starf sem unnið er á Vísindavef Háskóla Íslands. Þorsteinn hafi í áratugi lagt sig fram um að miðla vísindum til almennings og barna á áhugaverðan og aðgengilegan máta. Velgengni Vísindavefsins ber þess ótvíræðan vott að áhugi á vísindum meðal almennings er mun meiri en margir halda, segir í tilkynningunni.

Heimild: mbl.is

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Og enduðu í drápi!!

Ég geri pistil Hjálmars Árnasonar, alþingismanns, að mínum og birti hann hér:

OG ENDUÐU Í DRÁPI!

Þann 9. febrúar 2004 setti ég pistil inn á þessa síðu og tilkynnti að fjölskyldan vildi ekki lengur fá DV inn á heimilið. Tilefnin voru svo sem mörg en þann dag fengum við einfaldlega nóg – nóg af ærumeiðingum og mannorðsmorðum þeirrar blaðamennsku er þá hafði haldið innreið sína í blaðið.

Tekið skal fram að fjölskylda mín hafði í sjálfu sér sloppið við illkvittni ritstjórnarstefnunnar en okkur blöskraði hvernig veist var að fólki dag eftir dag með svívirðilegum hætti. Með dylgjum, hæpnum fullyrðingum og þar sem blaðið vék lögum og dómstólum til hliðar en settist sjálft í sæti þeirra. Nokkru síðar hætti ég að svara spurningum blaðamanna DV – af sömu ástæðu. Þrátt fyrir nokkrar pillur í refsingarskyni af hálfu blaðsins hef ég haldið fast við báðar ákvarðanir enda létt að fylgja samvisku sinni.

Við eldhúsborðið höfum við annað slagið velt upp þeim áhrifum sem þessi ógeðslega blaðamennska kynni að hafa á einstaklinga og fjölskyldur þeirra. Flestir kannast ugglaust við sorgleg dæmi um slíkan harmleik af völdum blaðsins. Í dag gengu þeir þó endanlega fyrir björg.

Ég tek undir með þeim sem fullyrða að blaðið hafi drepið mann – í bókstaflegri merkingu þess orðs. Myndbirting á forsíðu af GRUNUÐUM manni með viðeigandi fullyrðingum reyndist að þessu sinni vera dauðadómur án réttarmeðferðar eða laga. DV fór yfir strikið og ekki einasta greip til mannorðsmorðs heldur morðs í eiginlegri merkingu. Og það er stórt orð en ekki verður séð annað en full innistæða sé þar að baki. Þyngra er en tárum taki að lýsa samúð með ástvinum hins myrta. Þeirra skaði verður aldrei bættur. En atvik þetta hlýtur að vekja upp nokkrar spurningar.

1. Hvernig hyggst ritstjórinn axla sína ábyrgð?
2. Hvernig hyggjast eigendur blaðsins axla sína ábyrgð?
3. Hvernig hyggjast auglýsendur og kaupendur blaðsins axla sína ábyrgð?
4. Hvernig hyggjast íslenskir neytendur bregðast við gagnvart þeim er ábyrgð bera?
5. Hvernig hyggst blaðamannastéttin bregðast við?
6. Getur verið að DV hafi teygt viðurkennd velsæmismörk íslenskrar blaðamennsku lengra en góðu hófi gegnir og þannig haft bein/óbein áhrif á þau mörk í öðrum fjölmiðlum?
7. Er ástæða til að leggja fram formlega kæru gagnvart gjörningsmönnum og láta dómstóla meta sekt þeirra?

Svör við þessum spurningum hljóta að birtast á næstu dögum og vikum. Sjálfur mun ég gefa mér góðan tíma til að leita þeirra – þegar og ef mér rennur reiðin.

þriðjudagur, janúar 03, 2006

„Minning þess víst skal þó vaka.“

Gleðilegt árið. Í mínum huga er ekki nokkur spurning að árið 2005 hefur að geyma merka atburði, enda hvað er mikilvægara en það sem maður sjálfur er að sýsla hverju sinni.

Í hversdagslífi:
1. Ekki lengur ungur maður, sbr. lagaboð 2.6.
2. Átakið sem fór í vaskinn, eins og ég var nú ...
3. Þátttaka í PolitikenCup í júlí.
4. Sjúkrahúsvist í tvær nætur á JÓLUNUM!!
5. Reyna að byrja aftur í átakinu.

Í pólitíkinni:
1. Flokksþing framsóknarmanna í lok febrúar á Hotel Nordica.
2. Kosningaferð til London og Bristol í byrjun maí.
3. Plottfundur með ónefndum þingmanni, stóð yfir á fimmtu klst.
4. Kjördæmisþing framsóknarmanna í Suðurkjördæmi.
5. Plottfundur með sendiherra ónefnds ríkis, klst. langur fundur.

mánudagur, desember 26, 2005

Á sjúkrahúsi yfir jól.

Einu sinni verður allt fyrst, það sannaðist rækilega yfir hátíðirnar, er undirritaður varð að dvelja tvær nætur á sjúkrarúmi. Ég hefði farið heim veikur í hádeginu á miðvikudag, en á föstudegi var ekki um annað að ræða en að koma sér á bráðamóttöku. Þar var gripið til viðeigandi ráðstafana og sýnt að ég yrði a.m.k. dvelja þar sólarhring.

Ekki náðist nægur bati á þessum tíma og varð ég því að dvelja eina nótt til. En með sýklagjöf og framúrskarandi hjúkrun tókst að ná mér sæmilegum. Núna liggur maður heima RÓLEGUR til að ná sér fullkomlega. Þá er um að gera að nýta tímann og lesa.

GLEÐILEGA HÁTÍÐ!!

miðvikudagur, desember 21, 2005

þriðjudagur, desember 20, 2005

Hvað er trú á Jólasveininn?

Séra Flóki hefur upplýst að jólasveininn sé ekki til. Þetta átti sér stað við kirkjulegri athöfn með 6 ára börnum í sókn prestsins. Hann hefur sjálfsagt ekki haft hjarta í sér að færa staðreyndir mála í einhvern felubúning, fengið einhverja beinskeytta spurningu og orðið að svara í samræmi við sannleikann.

Í Konungsbréfi frá 1736 er kveðið á um barna confirmation og innvígsla, samkvæmt því er börnum séra Flóka gert að gangast undir opinberlegt examen og klerki hefur fundist tími til komin að uppfræða, því margir foreldrar gleyma fyrst og oft sinni skyldu í því að láta uppfræða sín börn í tíma, svo að ekkert manngreinarálit orsaki hina minnstu misklíð í samkundunni.

Séra Flóki tekur störf sín alvarlega, þetta vita landsmenn enda ógleymanleg misklíð í Langholtssöfnuði. Þar var landsþekktur organisti orðin frekur á svigrúm og andrími til handa klerki og orðið þröngt um að sóknarbörn væru uppfrædd í sérlegustu kristindómsins höfuðgreinum. Eða eins og segir í lögbók: „koma til sín í sitt hús, til að undirvísa þeim í þeirra kristindómi, með þeim hætti, að þau ei einasta fái skilning á meiningunni, eftir bókstafnum, í þeim nauðsynlegustu trúarinnar greinum, heldur og einnig verði upphvött til að ná þar af lifandi þekkingu og iðkast þar í, svo að börnin undireins og guðs sannindi verða þeim kröftuglega og alvarlega fyrir sjónir sett og innrætt, uppvekist til að gefa rúm sannleikanum og fái sannan smekk og andlega reynslu til að eftirfylgja honum í þeirra líferni og framferði, í einu orði að segja, komist til sannrar hjartans og sinnisins umvendunar.“

Þetta er eins skýrt og hugsast getur þegar segir „uppvekist til að gefa rúm sannleikanum og fái sannan smekk og andlega reynslu til að eftirfylgja honum í þeirra líferni og framferði.“

Er nema von að séra Flóki spyrji: Hvað er trú á Jólasveininn?

Sú skylda hvílir jú á klerkum að „viti hann til hverra synda eitt eða annað barn er hneigt og hvernig fyrir því er ástatt í einhverjum sérlegum kringumstæðum, skal hann af meðaumkunarsömum kærleika setja sama barni fyrir sjónir þess sálar eymdarlegt ásigkomulag og annaðhvort sýna því og gefa tækifæri til sannrar umvendunar.“ Forsómi á hér ekkert í og hana nú.

föstudagur, desember 16, 2005

Framsóknarflokkurinn 89 ára.

Maddama Framsókn er 89 ára í dag, að því tilefni býður Félag ungra framsóknarmanna í Reykjanesbæ til tónleika með stórhljómsveitinni Hjálmum í kvöld.

Aldurstakmark er 16 ára og er frítt inn á tónleikana, já þið lesið rétt, það verður frítt inn.

Tónleikarnir verða haldnir húsnæði Bigga Guðna í Grófinni, Reykjanesbæ, þar sem bílasprautuverkstæði var til húsa og byrja Hjálmar að spila kl 22:00.

Um er að ræða vímulausa skemmtun þar sem öllu ungu fólki gefst kostur á að hlýða á tóna vinsælustu hljómsveitar Íslands.

þriðjudagur, desember 06, 2005

Ein milljón dollara og þá áttu hugsanlega möguleika!!

FIDE to charge $1 million for a presential bid.

In an interview with Sport Express Kirsan Ilyumzhinov has revealed a startling plan to force any challenger during the May 2006 FIDE presidential election to put up $1 million for the privilege of running. He also reveals an equally revolutionary new plan for the World Chess Championship. First protests are already in.

The interveiw with Sport Express was conducted by Juri Vasiliev, who was travelling on the presidential plane from Moscow to Elista, the capital of the Russian Republic of Kalmykia, at the invitation of its president Kirsan Ilyumzhinov. The latter is also the president of the world chess federation, and will be running for reelection in May 2006, during the Chess Olympiad in Turin, Italy.

In this interview with Vasiliev the FIDE president reveals some startling plans. The first is to introduce a $1 million deposit which must be provided by any challenger for the FIDE presidency. If the challenge is successful this money is used for the development of world chess; if he loses 20% if the sum is retained for the same purpose.

Another dramatic development is that FIDE will permit anyone to challenge the current World Chess Champion Veselin Topalov, provided he or she is rated 2700 or higher and is able to put up the prize fund – including a 20% fee for FIDE. Apparently the regular world championship cycle is unaffected by this rule. If Topalov should lose his title in this kind of free challenge he will simply be replaced by the new champion in the 2007 eight-player world championship.

Today we received a letter of protest from the French candidate for FIDE Presidency, Léo Battesti, who states that FIDE is employing dubious methods during their election campaign and that he intends to take steps against this. "I will express myself any time the equal opportunities policy will be flouted. Moreover, I will not fail to act in a court of law, if obvious violations of the equity rules are to be observed."

(Heimild: ChessBase.com)

fimmtudagur, desember 01, 2005

Áhrif alþjóðasamstarfs á FULLVELDI.

Í tilefni dagsins, fullveldisdagsins, birti ég hér gott erindi Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra, er hann hélt við Háskóli Íslands 15. janúar 2002.

Hugtökin „fullveldi“, „frelsi“ og „sjálfstæði“ eru einhver þau mikilvægustu og jafnframt viðkvæmustu sem fjallað er um. Mörgum hefur orðið hált á því svelli að halda að í þeim felist það eitt að vera engum háður. Umræðan um þessi hugtök hlýtur hins vegar að taka tillit til þeirrar þróunar sem á sér stað allt í kringum okkur. Þau geta ekki orðið okkar eigin hugarsmíð án tillits til þess raunveruleika sem við búum við.

Bjartur í Sumarhúsum lifði í sínum eigin hugarheimi sem hann skilgreindi m.a. á eftirfarandi hátt:

„Þú getur haft mig fyrir því að frelsið er meira vert en lofthæðin í bænum...“ og ennfremur
„Að leita til annarra manna, það er sjálfstæðum manni uppgjöf á vald höfuðóvinarins.“

Öll þekkjum við örlög þessa stolta manns sem er ein þekktasta sögupersóna í íslenskum bókmenntum.

Fullveldishugtakið þróast.

Mönnum er tamt að grípa til þessara áhrifaríku hugtaka í hinni pólitísku umræðu. Oft eru þessi orð mistúlkuð og er hvert og eitt þeirra efni í langt mál. Ég ætla að láta mér nægja að fjalla um fullveldið og þá mikilvægu merkingu sem við leggjum í orðið.

Að mínu mati hefur skort á að bæði við stjórnmálamenn og fræðimenn hér á landi ræði fullveldishugtakið með opnum huga í tengslum við þá þróun sem átt hefur sér stað undanfarna áratugi í samstarfi þjóða heimsins. Fagna ég þessu tækifæri til að fjalla um þennan grundvallarþátt í umræðunni um alþjóðasamstarf. Jafnframt fagna ég þeirri umræðu sem hefur farið fram í tengslum við útkomu bókar Guðmundar Hálfdánarsonar, "Íslenska þjóðríkið uppruni og endimörk".

Bók Guðmundar varpar einmitt ljósi á þá staðreynd að fullvalda ríki er margslungnara en svo að hægt sé að skoða það og skilgreina með alveg sama hætti og gert var fyrir rúmlega átta áratugum. Það fullveldi sem veitti eftirsóknarverð tækifæri, setti vitaskuld einnig ramma takmarkanna sem ætlað var að tryggja stöðu þess. Sá rammi miðaðist við umhverfi og viðhorf þess tíma.

Ég hef talið mér skylt að stuðla að umræðu um stöðu Íslands í Evrópu en ég tel ekki síður mikilvægt að ræða þann þátt þess máls sem snýr að fullveldinu.

Það er nauðsynlegt að víkka þessa umræðu í því skyni að þjóðin fái skýra mynd af þeim margvíslegu skuldbindingum sem ríki nútímans eru bundin af; skuldbindingar sem eiga uppruna sinn í alþjóðlegum samningum og skyldum samkvæmt almennum reglum þjóðaréttar.


Hvað er fullveldi?

Grundvallarspurningin sem ég ætla að reyna að svara hér er hvað felist í hugtakinu fullveldi.

Samkvæmt skilgreiningu þjóðaréttar er sérhvert samfélag manna fullvalda sem hefur yfir landi að ráða, lýtur eigin stjórn og er viðurkennt af öðrum ríkjum sem fullvalda ríki. Með viðurkenningunni öðlast það rétt til þátttöku í samfélagi fullvalda ríkja með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Það hefur því rétt til aðildar að alþjóðlegum stofnunum og getur stofnað til tvíhliða eða fjölþjóðlegra samninga við önnur fullvalda ríki.

Fullvalda ríki hefur rétt til að ákveða eigin mál án þess að önnur ríki geti skipt sér af því. Það ákveður stjórnskipun sína, stjórnarform, stjórnarhætti og annars konar löggjöf og hefur eitt rétt til að framfylgja þeim á sínu landsvæði. Vald fullvalda ríkis í þessum efnum er hins vegar takmarkað af reglum þjóðaréttar hvort sem reglur sækja uppruna sinn til samninga eða almennra reglna þjóðaréttar. Mannréttindi svo dæmi sé tekið eru í dag viðurkennd sem reglur þjóðaréttar og túlkast því ekki út frá staðháttum eða landsrétti einstakra ríkja. Fullvalda ríkjum ber að virða þessar reglur gagnvart þegnum sínum og önnur ríki hafa rétt til afskipta af ástandi mannréttindamála í öðrum ríkjum.

Fullvalda ríki geta gert samninga sín í milli án þess að það raski stöðu þeirra í samfélagi þjóðanna. Ríki geta samið um að framselja ákveðna þætti ríkisvalds t.d. til sameiginlegra stofnana án þess að með því verði sagt að ríki sé ekki lengur fullvalda. Undir þessum kringumstæðum kýs ég frekar að tala um að ríki deili hluta af fullveldi sínu með öðrum ríkjum á gagnkvæman hátt.

Ísland varð fullvalda ríki 1918. Samskipti þess við gamla móðurríkið lutu frá 1. desember það ár alfarið reglum þjóðaréttar. Í samningi ríkjanna, sambandslögunum, voru hins vegar ákvæði sem kváðu á um að Danmörk annaðist fyrir hönd Íslands tiltekna þætti eins og framkvæmd utanríkismála og Hæstiréttur Danmerkur var um skamma hríð æðsti dómstóll Íslands auk þess sem Danmörk annaðist vernd íslenskrar landhelgi. Þrátt fyrir þessa framkvæmd er ekki ágreiningur um að Ísland varð fullvalda ríki þegar árið 1918.

Venjulega eru það aðeins fullvalda ríki sem geta gerst aðilar að alþjóðastofnunum. Ríkin gerast þátttakendur og lúta reglum slíkra stofnana í vissum efnum svo lengi sem þau eru aðilar að þeim. Þátttaka þeirra er grundvölluð á reglum þjóðaréttar og því hefur hún engin áhrif á stöðu þeirra sem fullvalda ríkja.

Í hinni pólitísku rökræðu virðist oft og tíðum vera vísað til fullveldisins í því skyni að þrengja það svigrúm sem ríkið hefur til þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Ég neita því ekki að mér finnst stundum að gripið sé til þessa þáttar þegar efnisleg rök eru þrotin.

Þróun í alþjóðamálum.

Að mörgu leyti má segja að saga heimsins sé saga stríðsátaka. Tvær heimsstyrjaldir með stuttu millibili á síðustu öld voru dropinn sem fyllti mælinn. Sú þróun hófst að ríki tóku upp náið samstarf sín í milli um sameiginlega hagsmuni sem þau töldu að tryggja myndi öryggi og jafnvægi í sambúð þjóðanna. Upp úr þessum jarðvegi spretta m.a. Sameinuðu Þjóðirnar, Evrópuráðið, NATO og ESB.

Sameinuðu Þjóðirnar gegna mikilvægu hlutverki að því er varðar frið og stöðugleika í heiminum. Hlutverk samtakanna hefur verið aukið skref fyrir skref í tímans rás og leika þau ásamt sérstofnunum nú lykilhlutverk á ýmsum sviðum sem verður vart í daglegu lífi flestra án þess að fólk sé meðvitað um það. Má þar nefna hlutverk þeirra í heilbrigðismálum, flóttamannamálum og mannréttindamálum svo ekki sé minnst á stórvirki eins og Hafréttarsáttmálann sem er okkur mjög dýrmætur.

Það er löngu viðurkennt að drifkraftur efnahagskerfis heimsins eru viðskipti. Mörg ríki eiga allt undir milliríkjaviðskiptum. Það þurfti því ekki að koma á óvart að framangreind þróun leiddi til samstarfs ríkja og síðar til stofnunar ríkjabandalaga er fjölluðu um viðskipta- og efnahagsmál. Má þar nefna GATT og OECD. Á þessu sviði er ríkjum löngu orðið ljóst að í alþjóðaviðskiptum þurfa að gilda samræmdar leikreglur svo jöfn staða allra sé tryggð.

Þess vegna hafa ríki stofnað Alþjóðaviðskiptastofnunina sem byggð er á grunni GATT. Í samstarfi innan þeirrar stofnunar verður Ísland ekki bundið af reglum hennar nema hafa fallist á það. Hins vegar er það svo innan þessarar stofnunar líkt og margra annarra að það yrði ekki liðið ef Ísland ætlaði einvörðungu að njóta ávaxtanna af samstarfinu en ekki axla skyldurnar með sama hætti og önnur aðildarríki. Þannig höfum við innan þessa samstarfs þrengt heimildir okkar til að hækka tolla eða styrkja landbúnað auk þess sem við höfum heimilað innflutning landbúnaðarafurða í nokkrum mæli.

Á hinn bóginn eru hagsmunir Íslands og annarra smærri ríkja af tilvist Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar mun meiri en stærri ríkja þar sem opin milliríkjaviðskipti eru okkur svo mikilvæg sem raun ber vitni. Stærri ríki geta í krafti áhrifa sinna náð fram sínum hagsmunum með öðrum hætti en fyrir tilstilli alþjóðlegra stofnana. Hinu sama gegnir í raun á ýmsum öðrum sviðum alþjóðlegs samstarfs. Því skapar alþjóðlegt samstarf oft grunn til sóknar fyrir smærri ríki á leikvelli hinna stærri. Er t.d. athyglisvert í þessu sambandi að í gær var kveðinn upp úrskurður innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar þar sem tiltekið skattahagræði er Bandaríkin hafa veitt útflutningsfyrirtækjum var úrskurðað í ósamræmi við reglur stofnunarinnar. Úrskurður af þessu tagi skiptir okkur auðvitað máli sem erum í alþjóðlegri samkeppni við bandaríska útflytjendur.

Úrlausn sem þessi hefði vart fengist nema fyrir tilvist alþjóðastofnunar af þessu tagi.

Á viðskiptasviðinu er Ísland aðili að EFTA en á vegum þess hafa verið gerðir alls 18 fríverslunarsamningar sem fela í sér afnám á tollum á tilteknum vörum. Um leið takmarka þessir samningar það svigrúm sem við höfum til að leggja á tolla gagnvart þessum samningsaðilum.

Þróun og uppbygging alþjóðasamstarfs hefur haldið áfram jafnt og þétt. Ríkjum verður sífellt ljósara að þeim er ekki lengur fært að leysa margvísleg vandamál án samstarfs og jafnvel án þess að deila fullveldi sínu hvert með öðru. Skýrasta dæmi þessa í dag er eflaust að finna á sviði umhverfismála þar sem ríkjum heims er nú orðið ljóst að mengun virðir ekki landamæri. Það er til lítils fyrir Íslendinga að berjast gegn mengun hafsins eða ofveiði nema í samstarfi við aðrar þjóðir. Má e.t.v. með nokkrum sanni færa að því rök að fullveldi Íslands; efnahagslegt fullveldi, byggist á því að sú barátta beri árangur. Má hér og minna á Kyotobókunina sem varðaði íslenska hagsmuni mjög miklu.

Að sama skapi er aukin tilhneiging til að færa baráttu gegn alþjóðlegum afbrotum inn á sameiginlegan vettvang þar sem hópur ríkja sammælist um markvissar aðgerðir í baráttu gegn þeim er að þeim standa. Sjáum við þess merki bæði innan ESB og einnig á vettvangi Sameinuðu Þjóðanna. Við höfum nýlega verið harkalega minnt á hve mikilvægt er að vinna saman á þessu sviði en viðbrögð við nýlegum hryðjuverkjum vestanhafs sýna í hnotskurn hvernig samfélag þjóðanna vinnur nú saman á þessu sviði.


Staða Íslands í alþjóðlegu samstarfi.

Sú þróun sem að framan er lýst hefur haft sín áhrif hér á landi. Ísland er í dag aðili að um 50 alþjóðastofnunum og alþjóðasamtökum en á vettvangi þeirra eru gerðir samningar og ákvarðanir teknar sem hafa með beinum hætti áhrif á daglegt líf okkar og umhverfi.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins hafa ríki orðið ásátt um víðtæka mannréttindasamninga. Hæstiréttur hefur vikið settum íslenskum lögum til hliðar þar sem þau væru andstæð Mannréttindasáttmála Evrópu jafnvel áður en sáttmálinn var lögfestur hér á landi. Fyrir áhrif sáttmálans hefur reynst nauðsynlegt að gera umfangsmiklar breytingar á íslenskum lögum. Á sínum tíma voru ekki allir sammála um þær breytingar en nú, reynslunni ríkari, sjá menn að vel hefur verið að verki staðið.

Lögum samkvæmt er Ísland skuldbundið til að hrinda í framkvæmd ályktunum öryggisráðs SÞ án þess að við tökum þátt í ákvörðunum þess. Eins og dæmin sanna geta aðgerðir sem Öryggisráðið samþykkir bæði verið umfangsmiklar og umdeilanlegar.

Allt eru þetta dæmi um hið viðamikla alþjóðasamstarf sem Ísland er hluti af; alþjóðasamstarf sem í sífellt meira mæli hefur mótandi áhrif á líf okkar og stefnumörkun íslenskra stjórnvalda.


Evrópusambandið.

Ekki verður fjallað um fullveldið án þess að fjalla um ESB því umræðan um fullveldið virðist einkum spretta upp í tengslum við spurninguna um hugsanlega aðild Íslands að ESB.

Ég hygg að ekkert eitt alþjóðlegt samstarf hafi haft meiri áhrif á líf okkar en samstarfið við ESB á grunni EES-samningsins.

Stefna ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum er skýr. Aðild að ESB er ekki á dagskrá núverandi ríkisstjórnar. Á hinn bóginn er umræða um Evrópumál á dagskrá. Ég hef beitt mér fyrir þessari umræðu því ég tel mér skylt að stuðla að því að opin umræða fari fram um stöðu okkar í alþjóðlegu samstarfi. Í mínum flokki, Framsóknarflokknum, hefur verið mikil umræða um Evrópumál þar sem línur hafa verið skýrðar og stefna mótuð.

Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr þá eigum við of mikið undir samstarfi við Evrópuríki til þess að geta komist hjá þessari umræðu. Ég hef reyndar enga trú á því að umræðunni um Evrópumál verði nokkru sinni ráðið til lykta hvort heldur Ísland gerist aðili að ESB eður ei. Þetta má sjá glöggt í Danmörku þar sem umræðan er viðvarandi.

Að mínu mati er afar mikilvægt að taki Ísland þá ákvörðun að standa utan ESB eða ganga þangað inn þá sé slík ákvörðun tekin á grundvelli upplýstrar umræðu þar sem skilgreining fari fram á kostum og göllum málsins á fordómalausan hátt. Að slíkri umræðu hef ég stuðlað innan míns flokks og á meðal þjóðarinnar og þarf sú umræða að halda áfram.

Þó svo að Ísland gengi í ESB með þeim breytingum sem það hefði í för með sér fyrir okkar stjórnskipan er það óumdeilt að Ísland yrði eftir sem áður í hópi fullvalda ríkja. Jafnljóst er að með því að deila fullveldi okkar með sameiginlegum stofnunum ESB í svo miklum mæli sem raun bæri vitni þá yrði það ekki gert án breytinga á stjórnarskránni. Jafnframt er augljóst að slíkt yrði ekki gert án þess að það væri borið undir þjóðina.

Aðild Íslands að ESB leiddi því ekki til þess að Ísland væri ekki lengur fullvalda ríki. Ef svo væri þá stefnir nú í það að einungis örfá ríki í Evrópu teljist í raun fullvalda. Eða telur einhver að Danmörk, Svíþjóð og Finnland séu ekki lengur fullvalda ríki?

Þetta segi ég ekki til að draga úr mikilvægi þess sem gera þyrfti áður en aðild Íslands gæti orðið að raunveruleika heldur til þess að benda á það að ESB er bandalag fullvalda ríkja, sem hafa ákveðið að deila fullveldi sínu með gagnkvæmum hætti til að ná sameiginlegum markmiðum sem þau telja sig ekki geta leyst nema í samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir.

Það er einkenni Evrópusamstarfsins með aðild að ESB að þar taka þjóðir fullan þátt í mótun þeirra ákvarðana sem teknar eru. Þessu er ekki eins farið á vettvangi EES þar sem við erum þátttakendur. Við njótum þar meira jafnræðis á fyrstu stigum málsmeðferðar en á síðari stigum þegar kemur að hinum raunverulegu ákvörðunum. Þróun ESB undanfarin ár hefur gert þetta þeim mun bagalegra þar sem völd og áhrif hafa í auknum mæli færst frá framkvæmdastjórninni til annarra stofnana ESB, þ.e. ráðherraráðsins og Evrópuþingsins, þar sem Ísland á ekki þess kost að taka þátt. Í þessu efni hallar mjög á jafnræði aðila sem á endanum verða bundnir af löggjöf ESB.

Því má halda fram með góðum rökum að aðild að ESB tryggði fullveldi Íslands með betri hætti en EES gerir nú þar sem við myndum innan ESB taka þátt í mótun okkar eigin örlaga og í mótun þeirra reglna sem þegnum og fyrirtækjum þessa lands er skylt að fara eftir. Á þetta skortir í EES-samstarfinu.

Það er ekki síst af þessum sökum sem ég hef lýst því yfir að EES-samningurinn reyni nú á þanþol stjórnarskrárinnar. Samningurinn hefur einnig að mínu mati ýmis yfirþjóðleg einkenni eins og sjá má af hlutverki Eftirlitsstofnunar EFTA á afmörkuðum sviðum. EFTA dómstóllinn hefur gefið skýr skilaboð um að í EES-samningnum felist skaðabótaskylda ríkis með líkum hætti og innan ESB ef ekki er réttilega staðið að innleiðingu EES reglna en innan ESB er þessi skylda talin hluti af hinu yfirþjóðlega valdi.

En það er ekki einvörðungu EES-samningurinn sem hér um ræðir. Í vaxandi mæli eru ríki heimsins að sameinast um að taka á tilteknum hagsmunamálum í sameiningu. Má þar nefna umhverfismál, sakamál, viðskiptamál o.fl. Þessi þróun leiðir í raun til þess að svigrúm hverrar þjóðar til að grípa til eigin aðgerða er takmarkaðra en áður.

Þessi staðreynd reynir auðvitað einnig á stjórnarskrána eins og hún er nú úr garði gerð. Það er bæði pólitískt og fræðilegt samkomulag um að það eru mörk fyrir því hve langt er heimilt að ganga í að deila fullveldi okkar með ríkjabandalögum eða fjölþjóðlegum stofnunum án þess að til komi breytingar á stjórnarskránni.

Ég hef því tekið undir með þeim fræðimönnum sem vakið hafa máls á nauðsyn þess að gera breytingar á stjórnarskránni til að mæta þessari þróun og skapa okkur traustari grunn til þátttöku í sífellt umfangsmeira alþjóðlegu samstarfi.


Hvar stöndum við?

Í ljósi þess sem ég hef hér gert að umtalsefni má draga eftirfarandi ályktanir.

Ísland er virkur þátttakandi í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi. Ljóst er að Ísland deilir nú þegar fullveldi sínu með ríkjum sem eiga aðild að slíku samstarfi. Flestir fræðimenn telja að með því hafi ekki verið gengið á svig við stjórnarskrána.

Á hinn bóginn setur stjórnarskráin óskilgreind takmörk fyrir því hve langt er unnt að ganga í þessu efni án þess að henni sé breytt.

Í öllu mati á fullveldinu og stöðu þess gagnvart alþjóðlegu samstarfi hljóta menn að horfa til þess hvort Ísland sé hverju sinni þátttakandi í mótun sinna eigin örlaga. Við stöndum hins vegar frammi fyrir þeirri staðreynd að örlög okkar eru nú á vissum sviðum ráðin þar sem við höfum ekki kost á að taka þátt í mótun ákvarðana. Er þar einkum um að ræða EES-samninginn. Vekur það vissulega nokkrar áhyggjur með tilliti til stjórnarskrárinnar, að við séum á mörkum þess sem stjórnarskráin leyfir í þessu efni.

Má halda því fram með gildum rökum að fullveldi aðildarríkja ESB sé betur varið en okkar þar sem þau eru fullir þátttakendur í að móta þær reglur sem þeim er ætlað að fylgja. Munu t.d. margir hafa verið þeirrar skoðunar í Svíþjóð og Finnlandi á sínum tíma að EES-samningurinn gengi nær fullveldinu en aðild að ESB.

Mér finnst eins og okkur hætti til að tala um fullveldið í of þröngum skilningi án tillits til alls þess sem hefur gerst í heiminum undanfarna áratugi og án tillits til þeirra ákvarðana sem íslenskir ráðamenn hafa tekið á undanförnum áratugum hvort heldur það er aðild að NATO eða EES-samningurinn.

Af öllu því sem ég hef gert hér að umtalsefni er ljóst að Íslendingar eru ekki einir höfundar örlaga sinna. Hagsmunir þjóða á tímum hnattvæðingar felast í því að vinna saman á mörgum sviðum og deila með sér fullveldi sem áður var talið nauðsynlegt að tilheyrði hverju og einu ríki í þeim tilgangi að ná sameiginlegum markmiðum. Þannig hefur sú mynd sem einstakar þjóðir hafa af fullveldinu breyst verulega.

Bjartur í Sumarhúsum vildi vera sjálfstæður maður og skapaði sér sína eigin hugmyndafræði um í hverju slíkt sjálfstæði fælist. Þessi hugmyndafræði var hans eigin hugarsmíð sem var ekki öllum skiljanleg. Í hans heimi var betra að vera fátækur og öðrum óháður en hafa það betra og deila hlutskipti sínu með öðrum. Bjartur galt eigur sínar og lífsviðurværi fyrir þessa hugmyndafræði.

Auðlegð og lífsgæði Íslendinga í dag byggja á því að við berum gæfu til þess að eiga fjölbreytt samskipti við önnur ríki í skjóli stöðu okkar sem fullvalda ríki.

Mikilvægt er að vega og meta hagsmuni Íslands á breytilegum tímum en varast að búa til ramma utan um okkar stöðu sem er í engu samræmi við þann raunveruleika sem við búum við eða þá þróun sem á sér stað allt í kringum okkur.