föstudagur, apríl 15, 2005

Q-hlutfallið? ─ „Þá var hlegið að mér“.

Í framhaldi af hugleiðingunum sem koma fram í blogginu mínu frá því í gær, gat ég ekki annað en hlegið er ég rakst á þessa frétt á mbl.is í morgun:

„Kennitalan Q-hlutfall, sem skýrt var frá í Viðskiptablaði Morgunblaðsins í gær, er séríslenskt fyrirbæri sem þarf að útrýma ef við ætlum að starfa í alþjóðasamfélagi,“ segir Vilhjálmur Bjarnason, aðjúnkt í fjármálum við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.

Vilhjálmur segir að Q-hlutfallið þekkist hvergi í kennslubókum erlendis. Samkvæmt skilgreiningu á því sé í raun um að ræða kennitölu sem kallist „market to book ratio,“ þ.e. hlutfall markaðsverðs og bókfærðs verðs.

„Það sem kallað er Tobin's q í erlendum kennslubókum er aðeins annað og þá er það hlutfall endurstofnverðs og markaðsverðs eigna.“ Hann segir íslensku útgáfuna af Q-hlutfallinu hafa orðið til upp úr 1990. „Þegar ég fór í nám til Ameríku árið 1995 og fór að velta þessu upp, þá var hlegið að mér og ég spurður um hvað ég væri að tala. Og ef við ætlum okkur að starfa í alþjóðasamfélagi þá megum við ekki láta hlæja að okkur þegar við förum að tala um Q-hlutfall,“ segir Vilhjálmur, og hnýtir við að hann hafi tekið það að sér að koma þessu hugtaki út á Íslandi, því það sé einfaldlega ekki til.“

Þarna er einn af okkar mikilhæfustu álitsgjöfum í íslensku viðskiptalífi, Vilhjálmur Bjarnason, að segja okkur að Q-hlutfall og Q-Tobins séu ekki eitt og hið sama. Það vekur því athygli að á vísindavefnum sé þetta spyrt saman með eftirfarandi rökum:

„Q-hlutfall eða Q-Tobins er notað í fjármálum og hagfræði til að tákna hlutfallið á milli annars vegar markaðsvirðis fyrirtækja og hins vegar kostnaðar við að endurnýja öll framleiðslutæki þess. Ef markaðsvirði fyrirtækis er meira en það fé sem þyrfti til að byggja fyrirtækið upp með því að kaupa öll framleiðslutæki sem það notar þá er þetta hlutfall hærra en 1, annars minna en 1. Sé hlutfallið hærra en 1 þá virðast einhver verðmæti liggja í öðru en framleiðslutækjunum, til dæmis viðskiptavild eða hæfni stjórnenda og annarra starfsmanna.

Hlutfallið er stundum notað við ákvörðun um fjárfestingu. Sé það hærra en 1 þá virðast líkur til þess að markaðsvirði fyrirtækis vaxi ef það fjárfestir til að auka umsvif sín. Ef hlutfallið er lægra en 1 þá eru hins vegar líkur á því að skynsamlegt sé að festa ekki meira fé í rekstrinum og jafnvel að hætta rekstrinum og selja framleiðslutækin.

q-hlutfallið er einnig talsvert notað í þjóðhagfræði. Hlutfallið var fyrst sett fram af William Brainard og James Tobin, sem báðir voru við Yale-háskóla í Bandaríkjunum, árið 1968. Tobin bætti síðan um betur með annarri grein um efnið ári síðar og er hlutfallið kennt við hann. Á ensku er talað um Tobin's q. James Tobin (1918-2002) var einn fremsti hagfræðingur 20. aldar og fékk Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1981.“

Í greininni sem Vilhjálmur bendir á er sagt að Q-hlutfall sé hlutfall markaðsvirðis og bókfærðs eigin fjár. Það sjá allir að „bókfært eigið fé“ og „kostnaður við að endurnýja öll framleiðslutæki“ er ekki það sama. Ennfremur segir í greininni: „Vaxtarfyrirtæki eru almennt með há Q hlutföll og ávöxtun því yfirleitt slök. Hérlendis veittu fyrirtæki með lág Q hlutföll betri ávöxtun á tímabilinu en munurinn var ekki nægur með tilliti til kerfisbundinnar áhættu“

Það vekur því furðu að í skrifum Má Wolfgang Mixa, frá því í gær, skuli það talið slæmt að einhver verðmæti liggi í öðru en framleiðslutækjunum, til dæmis viðskiptavild eða hæfni stjórnenda og annarra starfsmanna, ERGO: „ávöxtun [er] því yfirleitt slök“.

Svona vitleysa veldur mér auðvitað streitu, framundan eru svefnlausar nætur og klárlega hræðsla við að fara af landi brott. Þetta getur ekki hangið svona í lausu lofti.

Enn meiri vitleysa er að þessi annars ágæti Mixa skuli hafa skrifað grein í Morgunblaðið 16. október 1997 þar sem hann segir: „ Annað hlutfall sem vert er að athuga er Q hlutfallið, sem er hlutfallið milli markaðsverðmætis og bókfærðs eigin fjár. Þegar það er lágt er verð fyrirtækja lágt og þveröfugt þegar hlutfallið er hátt.“

Svo við förum nú aftur yfir þetta. Samkvæmt skrifum Mixa síðustu 8 ár þá eru „vaxtarfyrirtæki“ almennt með há Q hlutföll og ávöxtun því yfirleitt slök en verð þeirra hátt og því eru „vaxtarfyrirtæki“ með lá Q hlutföll, með góða ávöxtun en verð þeirra lágt.

Ef við lítum aftur á skilgreininguna á vísindavefnum þá segir: „Ef markaðsvirði fyrirtækis er meira en það fé sem þyrfti til að byggja fyrirtækið upp með því að kaupa öll framleiðslutæki sem það notar þá er þetta hlutfall hærra en 1, annars minna en 1. Sé hlutfallið hærra en 1 þá virðast einhver verðmæti liggja í öðru en framleiðslutækjunum, til dæmis viðskiptavild eða hæfni stjórnenda og annarra starfsmanna.“

Þessu séríslenska fyrirbæri þarf auðvitað að útrýma, við verðum að geta talað sama „Q-tungumál“ og sérfræðingarnir úti í hinum stóra heimi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ha! Gaman að sjá (betra seint en aldrei) að einhver fylgjist jafn mikið með mínum skrifum, sem nú má nálgast á einum stað, http://mixa.blog.is/blog/mixa/. Sé að ég hafði eitthvað til míns máls varðandi viðskiptavild og hæfni stjórnenda, en skal viðurkenna að dæmið er nú alls ekki svo einfalt, auk þess sem ég lít á vöxt sem virði sem kemur líklegast engan veginn fram í (gömlum) skrifum mínum. Q er ágætt byrjun, en skilgreina þarf Q betur eins og atburðir síðustu mánaða staðfesta. Már Wolfgang Mixa