fimmtudagur, apríl 07, 2005

Reglur um tölvuleiki — þær eru ENGAR.

Samstarfshópurinn Náum áttum hélt fræðslufund um tengsl tölvuleikja og ofbeldis í vikunni. Þar hélt m.a. Rakel Guðmundsdóttir, móðir úr Hafnarfirði, tölu um upplifun foreldris er verslunin BT hafði selt þrettán ára syni hennar tölvuleik sem ekki sé ætlaður börnum að átján ára aldri.

Sonur hennar hafði keypt nýja útgáfu af leiknum Grand Theft Auto fyrir fé sem hann fékk í afmælisgjöf. Í framhaldinu leitaði hún til Neytendasamtakanna, umboðsmanns barna og hafði samband við menntamálaráðuneytið þar sem hún hugðist kæra verslunina til lögreglu en hafi þá komist að raun um að engar reglur giltu um tölvuleiki.

Viðbrögð framkvæmdastjóri BT voru að verslunin setji sér sínar eigin reglur. Hún gangi út að vilji börnin kaupa leiki sem erlendis séu bannaðir sé hringt í foreldra og viðskiptin borin undir þá. Þessi regla hafi gengið upp þar til þeir fengu reiða foreldra í verslanirnar sem vildu leyfa kaupin. En þessi ágætis regla BT var brotin í umrætt sinn.

Leikurinn Grand Theft Auto skera sig úr öðrum ofbeldisleikjum þar sem leikmenn tilheyri glæpagengjum og er hrósað fyrir barsmíðar og dráp meðal annars á börnum og konum. Leikurinn hefur mjög raunverulega ásýnd og er vafasamur. Með nýrri útgáfu leiksins er fullyrt að ofbeldið hafi magnast.

Þann 27. nóvember s.l. segir Þórhildur Líndal, umboðsmaður barna, margítrekaðar beiðnir til menntamálaráðuneytisins um að reglur séu settar um tölvuleiki ekki hafa borið árangur. Hún segir jafnframt að það virðist sem pólitískan vilja skorti.

Í grein eftir Guðmund Magnússon í Fréttablaðinu undir heitinu „Börn og ofbeldisleikir“ segir: „Vestur í Bandaríkjunum hefur það valdið nokkru uppnámi að á markaðinn er kominn tölvuleikur sem býður upp á þá "afþreyingu" að endurtaka morðið á John F. Kennedy, forseta landsins, í nóvember 1963. Framleiðendur leiksins virðast hissa á aðfinnslunum sem uppátækið hefur sætt; finnst þetta saklaus skemmtun sem að auki getur þjálfað viðbragðsflýti og skerpt rökhugsun þátttakenda. Sennilega kannast þeir ekki við hugtakið siðferði nema þá sem einhvers konar samheiti yfir forsjárhyggju og afturhaldssemi. Það má þó hrósa Bandaríkjamönnum fyrir að stjórnvöld þar í landi gera sér grein fyrir því að tölvuleikir sem byggjast á ofbeldi, klámi og virðingarleysi fyrir helstu siðferðislegu gildum samfélagsins hafa slæm áhrif á börn og unglinga. Lög þar í landi banna sölu slíkra leikja til þeirra sem ekki hafa náð átján ára aldri.

Afstaða Alþingis til þessa máls er annars umhugsunarverð. Þingmenn úr öllum flokkum hafa fimm sinnum á undanförnum árum flutt tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að draga úr ofbeldisdýrkun og framboði ofbeldisefnis, meðal annars í formi tölvuleikja. Tillagan hefur aldrei fengið afgreiðslu. Enginn neitar því að erfitt er að semja lög og reglur um þetta í nútímaþjóðfélagi. En úr því að stórþjóðir eins og Bandaríkjamenn hafa fundið leiðir til að reyna að takmarka þann skaða sem börn og unglingar verða fyrir af völdum ofbeldisfullra tölvuleikja er okkur Íslendingum engin vorkunn að gera slíkt hið sama.

Á endanum er það, eins og alltaf í dæmum af þessu tagi, afstaða og hugarfar okkar sjálfra sem máli skiptir. Uppeldi barna og unglinga er á ábyrgð foreldra og annarra forráðamanna. Það efni sem verslanir afhenda börnum og unglingum yfir búðarborð er á ábyrgð starfsmanna og eigenda viðkomandi verslana. Ef þessir aðilar gera skyldu sína er óþarfi að setja opinberan regluramma um tölvuleiki. En meðan svo er ekki þurfa stjórnvöld að taka á málum. Boð og bönn eru óhjákvæmileg þegar börn og unglingar eiga í hlut. Enn mikilvægara er þó að færa umræður um þessi efni inn í skóla landsins og á annan þann vettvang þar sem hægt er að koma boðskap til unga fólksins til skila með áhrifaríkum hætti.“

Á heimasíðu umboðsmanns barna má m.a. lesa afskipti hans af málum er varða tölvuleiki. En árið 2001 er óskað upplýsinga hjá menntamálaráðuneytinu hvort og þá hvenær standi til að settar verði reglur til verndar börnum og unglingum um skoðun gagnvirkra tölvuleikja. Árið 2003 hvetur umboðsmaður menntamálaráðherra til að setja reglur um skoðun tölvuleikja. Svör berast um að ráðherra vilji bíða fram yfir alþingiskosningar vorið 2003 með að taka slíka ákvörðun. Ekkert gerist í framhaldinu.

Mér er spurn hvert ætlum við að stefna í þessum málum? Er þetta vita vonlaus barátta eða er hægt að bregðast við líkt og Bandaríkjamenn hafa gert?

Það þyrfti að minna ágætan menntamálaráðherra á að það sé árið 2005 NÚNA.

Engin ummæli: