fimmtudagur, október 20, 2005

Árni á ársfundi Alþýðusambands Íslands.


Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, flutti gott ávarp á ársfund Alþýðusambands Íslands í dag. Þar sagði hann m.a. að mótast hafi „almenn samstaða um að gefa heildarsamtökum atvinnurekenda og launafólks nokkuð mikið svigrúm til að semja sín á milli um kaup og kjör á vinnumarkaði.“ Niðurstaðan sé sú að stjórnmálamenn séu ekki eins miklir gerendur við gerð þeirra. Ráðuneytið sé, að hans mati, t.d. ráðuneyti beggja aðila, bæði atvinnurekenda og launafólks, þ.e. í hlutverki sáttasemjara.

Hann nefndi sem dæmi erfið mál er hafa komið inn á borð ráðherra svo sem reglugerð um atvinnuréttindi útlendinga, starfsemi starfsmannaleiga og fullgildingu alþjóðasamþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda.

Ráðuneytið hafi í þessum málum sem öðrum „fylgt þeirri stefnu að vera vettvangur fyrir skoðanaskipti, reynt að skapa gagnkvæmt traust á milli aðila og freistað þess að beita á jákvæðan hátt áhrifum sínum til að niðurstaða fáist sem dragi úr ágreiningi, skapi forsendur fyrir því að vél samfélagsins gangi sem snurðulausast og starfsfólk búi við gott vinnuumhverfi.“

Jafnframt kom Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, inn á staðreyndir sem vert er að halda til haga:

„Í síðasta mánuði var skráð atvinnuleysi 1,4% af vinnuaflinu. Þetta eru mikil umskipti á síðast liðnum tveimur árum svo að ekki sé talað um ástandið eins og það var árið 1995 þegar núverandi stjórnarsamstarf hófst en þá mældist atvinnuleysið fimm prósent.

Hagvöxtur hefur verið mikill og verður ekki lát á næsta ári. Á árinu 2004 var hann hvorki meira né minna en 6,2%, á þessu ári er gert ráð fyrir að hann verði 6 % en eitthvað minni á árinu 2006.

Það sem hlýtur að skipta launafólk miklu er að þrátt fyrir meiri verðbólgu hefur kaupmáttur launa haldið áfram að aukast. Á tímabilinu júlí 2004 til júlí 2005 hækkaði launavísitalan um 6,6% og kaupmáttur launa um 2,9% á þessum tíma.

Útlán Íbúðalánasjóðs á síðastliðnu ári eru eitthvað nálægt 70-80 milljörðum króna, sem er í ágætum takti við þau útlán sem hafa verið hjá sjóðnum á undanförnum árum. Á sama tíma hafa útlán bankanna vegna húsnæðislána verið um 280 milljarðar króna.“

Engin ummæli: