miðvikudagur, maí 12, 2004

Af landsfeðrum nær og fjær.

Gangverk þjóðfélagsins heldur sínu striki, engin púst þó svo að landsfeður vorir deili um fjölmiðlalög á Alþingi, og Íslendingar halda áfram vinnu sinni við að safna vinaþjóðum, núna síðast hefur verið stofnað til stjórnmálasambands milli Íslands og Gambíu.

Gambía er aðeins einn tíundi af stærð Íslands, liggur umhverfis samnefnda á á vesturströnd Afríku og er umlukið Senegal. Íbúar eru 1.4 milljónir manna, flestir múslimar. Náttúruauðlindir eru fáar og meðaltekjur á landsmann eru aðeins jafnvirði um 1.000 bandaríkjadollara. Síðustu áratugi hefur ferðaþjónusta orðið ein af mikilvægustu atvinnugreinum landsins.

Landið var áður bresk nýlenda en fékk sjálfstæði fyrir 40 árum og varð lýðveldi árið 1970. Þar er nú fjölflokka þingræði.

Núverandi forsætisráðherra landsins, Yahya Jemmeh, var einungis 29 ára er hann tók við stjórnartaumum, þann 23. júlí 1994, það var að vísu með valdaráni, en þó án blóðsúthellinga. Jemmeh hefur síðan sigrað í tvennum kosningum, árin 1997 og 2003.

Engin ummæli: