þriðjudagur, maí 04, 2004

Flogið með Eimskip, sbr. grein í tímaritinu Frjáls verslun, 11. tbl. 1991.

Í allri þeirri umræðu sem á sér stað í þjóðfélaginu í dag um samþjöppun, fákeppni og einokun er vert að glöggva m.a. í stjórnarsáttmála fyrsta ráðuneytis Davíðs Oddssonar er innhélt kafla er hljóðaði svo:

Áform ríkisstjórnarinnar um lagasetningu gegn einokun og hringamyndun eiga rætur sínar að rekja til þess að menn hafa ekki kunnað sér hóf í ásókn eftir völdum í nokkrum af álitlegustu fyrirtækjum landsins. Valdasamþjöppun stríðir gegn hugmyndum manna um lýðræðisleg vinnubrögð í atvinnulífi nútímans.

Í svonefndri hvítri bók ríkisstjórnarinnar, sem út kom í október sama haust, sagði: „Ríkisstjórnin mun efla samkeppni og setja lög sem beinast skulu gegn einokun og hringamyndun í viðskiptalífinu.“

Nú er það svo að Alþýðuflokkurinn sat í nefndu stjórnarráði og hefur allt fram að deginum í gær talað fyrir aðgerðum gegn samþjöppun, fákeppni og einokun. Forystumaður Samfylkingarinnar, Össur Skaphéðinsson, hefur jafnframt kallað eftir reglum til handa Samkeppnisstofnun að skipta upp markaðsráðandi fyrirtækum, og það helst á öllum sviðum.

Þetta er skýr stefna og því mjög eftir því tekið hvernig Samfylkingin heldur á fjölmiðlamálinu í dag og gengur erinda þeirra valdasamþjöppunarafla sem hafa orðið gríðarleg tök á fjölmiðlamarkaðnum.

„Þann 25. apríl sl. birtist grein í Vísbendingu eftir Björn G. Ólafsson hagfræðing þar sem spurt var hvort leyfa eigi hlutafélögum að eiga hlut í öðrum hlutafélögum. Þar vitnaði hann m.a. í skrif Friðriks Ágústs von Hayeks, nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, þar sem hann leggur til að hlutafélögum verði einfaldlega bannað að eiga hlutafé í öðrum fyrirtækjum nema sem fjárfestingu og þá án atkvæðisréttar“, sbr. Frjáls verslun, 11. tbl. 1991.

Morgunblaðið gerði hana að umtalsefni og birti hana í heilu lagi í Reykjavíkurbréfi 4. maí, nokkrum dögum eftir að ríkisstjórnin var mynduð 1991. Þar sagði:

„Eins og lesendur Reykjavíkurbréfs sjá er Hayek að lýsa í þessari ritgerð, sem skrifuð er fyrir alllöngu, aðstæðum sem nú þegar eru komnar upp á hlutabréfamarkaðinum hér og í viðskiptalífi okkar Íslendinga. Hafi einhverjir talið að skoðanir þeirra sem telja þetta óeðlilega þróun eigi eitthvað skylt við sósíalisma eða vinstrimennsku ættu þeir hinir sömu ekki lengur að velkjast í vafa um að þær spretta þvert á móti upp úr grundvallarlífsviðhorfum borgaralegra afla.“

Morgunblaðið spurði því hvort að ekki væri verið að „koma í veg fyrir misnotkun og afskræmingu […], nauðsynleg til þess að viðhalda eðlilegu jafnvægi í þessu fámenna þjóðfélagi. Slíkt jafnvægi er forsenda þess að sæmilegur friður og sátt ríki meðal hinna ýmsu þjóðfélagshópa. Þess vegna eru þeir aðilar í viðskiptalífinu sem raska þessu jafnvægi að kalla yfir sig afskipti löggjafarvaldsins sem væru óþörf ef menn kynnu sér hóf.“

Það frumvarp sem nú hefur verið lagt fram er að öllu leyti í samræmi við þá stefnu sem mörkuð er í skýrslu nefndar um eignarhald á fjölmiðlum.

1. Með frumvarpinu er aðeins leitast við að tryggja að við lögbundna og nauðsynlega úthlutun ríkisins á útvarpsleyfum séu þjóðréttarlegar skuldbindingar ríkisins um að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði hafðar í heiðri. Frumvarpið nær sem sé aðeins til þeirra sviða þar sem ríkið hefur nú þegar aðkomu að fjölmiðlamarkaði. Í frumvarpinu ekki gengið lengra en nauðsynlegt er í því skyni að ná fram hinu lögmæta markmiði og tryggja að sjónarmið um fjölbreytni séu meðal þess sem haft er í huga við úthlutun leyfa.

2. Það gildir öðru máli um dagblöð en útvarp vegna þess að starfsemi útvarps byggir á nauðsynlegri úthlutun ríkisvaldsins á útvarpsleyfum, sem eru takmörkuð gæði, sem er nú þegar úthlutað til takmarkaðs tíma. Engin úthlutun takmarkaðra gæða á dagblaðamarkaði réttlætir svo víðtæka takmörkun á tjáningarfrelsi (og atvinnufrelsi) eins og fólgin væri í því að setja ákveðin eignarhaldsskilyrði gagnvart eigendum dagblaða. Löng lýðræðishefð er fyrir því að rétturinn til útgáfu dagblaða er ótakmarkaður.“

Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði hérlendis er komin yfir þau mörk sem talist geta viðunandi þegar miðað er við alþjóðlega mælikvarða. Hér er um fullkomlega málefnalegar forsendur fyrir lagasetningu að ræða. Með lagasetningunni er veittur aðlögunartími til þess að tryggja að áhrif hennar séu ekki óþarflega íþyngjandi og brjóti ekki gegn stjórnarskrárákvæðum er vernda atvinnufrelsi og eignarréttindi.

Hvernig er hægt að standa í vegi fyrir áform ríkisstjórnarinnar um lagasetningu sem eiga rætur sínar að rekja til þess að menn hafa ekki kunnað sér hóf í ásókn eftir völdum í nokkrum af álitlegustu fyrirtækjum landsins. Þegar valdasamþjöppun stríðir gegn hugmyndum manna um lýðræðisleg vinnubrögð í atvinnulífi nútímans. Fyrir þessu hefur Jóhanna Sigurðardóttir talað, Össur Skarphéðinsson, Margrét Frímannsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson og Ásta R. Jóhannesdóttir.

EN BARA EKKI Í DAG, SEGJA ÞAU ÖLL Í DAG, UM FJÖLMIÐLAFRUMVARÐIÐ SVOKALLAÐA.

Er nema von að spurt sé hvort að málefnaleg afstaða Samfylkingarinnar til frumvarpsins sé nokkur?

Engin ummæli: