fimmtudagur, maí 13, 2004

Heilbrigðismál eru fjárfesting, fremur en útgjöld.

Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, situr fund heilbrigðismálaráðherra OECD landanna sem nú stendur yfir í París. Jón hefur þar lagt áherslu á að heilbrigðisyfirvöld landanna settu sér markmið til að vinna eftir til langs tíma og vísaði í máli sínu til „Heilbrigðisáætlunar til ársins 2010,“ sem samþykkt var á Alþingi fyrir nokkrum misserum. Auk þess lagði Jón ríka áherslu á mikilvægi þess að menn nýttu sér upplýsingatækni á heilbrigðissviði og undirstrikaði mikilvægi samvinnu og samráð allra þeirra sem sinna heilbrigðisþjónustu, þ.e. yfirvalda, samtaka sjúklinga, fagstétta, stofnana, sjálfboðaliða og fyrirtækja sem starfa á heilbrigðistæknivettvangi.

Í fréttatilkynningu frá fundinum er jafnframt bent á að fram hafi komið hjá flestum heilbrigðisráðherrum þeirra 30 ríkja sem eru á fundinum að fremur bæri að líta á kostnaðinn við heilbrigðisþjónustuna sem fjárfestingu hvers samfélags í stað þess að skilgreina hann sem útgjöld, eða eyðslu.

Jóns Kristjánsson útlistaði útgjaldaaukningu einstaklinga í heilbrigðismálum, í svari við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur, í byrjun mars á þessu ári. Í máli hans kom m.a. fram að tæknilegar framfarir í læknisfræði hafi það í för með sér að aðgerðir flytjist út af sjúkrahúsunum í miklum mæli. Sjúklingar eigi því kost á miklu fjölbreyttari þjónustu en áður hafi verið, án þess að þurfa að leggjast á sjúkrahús. Að sjálfsögðu eykst kostnaður sjúklinga í kjölfarið, m.a er þá boðið upp á sífellt flóknari og nákvæmari röntgen- og rannsóknargreiningu heldur en áður, sem var að stórum hluta eingöngu mögulegar á sjúkrahúsunum sjálfum. Síðan eru það ný og sífellt dýrari lyf, sem valda sífelldri útgjaldaþenslu sem sjúklingar verða varir við. Á tímabilinu 1987 til 2001 hækkuðu heilbrigðisútgjöld um 276%, meðan heilbrigðisútgjöld heimilanna hækkuðu á sama tímabili um 316%. Verg landsframleiðsla hækkaði á sama tímabilinu um 258%, sem segir að hlutur heilbrigðisútgjaldanna þar af hafi hækkað um tæp 5%. Því er ástæða til að spyrja hvort þetta sé eyðsla?

Munu landsmenn geta náð saman um að skilgreina útgjöld til heilbrigðismála sem fjárfestingu? Munu landsmenn geta náð saman um samfélagslega vitund og samkennd með þeim sem minna hafa og þurfa á hjálp að halda; og skilgreina því útgjöld til heilbrigðismála sem fjárfestingu?

Framsóknarflokkurinn hefur rekið markvissa og ákveðna stefnu í heilbrigðismálum sem felur í sér að vera réttlát, öllum opin, byggð á samábyrgð þegnanna, að mestu kostuð af almannafé og að þeir gangi fyrir sem hafa mesta þörfina. Framsóknarfólk heldur fast í þessi grundvallargildi, ríka réttlætiskennd, samhjálp og samvinna. Í þennan málaflokk er veitt fjárfesting sem er mikilvægari í dag en nokkru sinni, enda íslenska heilbrigðiskerfið eitt það besta í heiminum og aðgangur að kerfinu almennur.

Engin ummæli: