föstudagur, desember 05, 2003

Hækkun lágmarkslauna og lækkun skatta.

Það eru liðin 4 ár frá gerð síðustu kjarasamninga og þegar byrjað að huga að nýrri samningargerð. Flóabandalagið, Efling-stéttarfélag, Hlíf í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur, hefur lagt fram sína kröfugerð og þá hafa Verslunarmannafélag Reykjavíkur og Landssamband íslenskra launþega verið að kanna viðhorf félagsmanna sinna til þess hvernig hafi til tekist, frá gerð samninga árið 2000. Hækkun lágmarkslauna skoraði hæðst hjá félagsmönnum hvors félags og er það í góðu samræmi við viðhorf um að leiðrétta verði kjör þeirra sem lægst hafa launin. Ennfremur er mikilvægt að mati félagsmanna að staðið sé við loforð um lækkun skatta í tengslum við gerð kjarasamninga, en halda skuli þó heildarmyndinni skýrri; viðhalda stöðugleika, öflugu efnahagslífi, skýrri fjárlagagerð með ábyrgum hætti, traustri peningastjórn og halda verðbólgu lágri.

Peningastefnan er einn af hornsteinum efnahagsstjórnunar og þá fyrst og fremst með því að hafa áhrif á magn peninga í umferð. Þannig má hafa áhrif á verðlag og hins vegar á umfang allrar atvinnustarfsemi og viðskipta. Seðlabankinn hefur á þessu ári keypt erlendan gjaldeyri sem nemur kr. 25,5 milljörðum frá áramótum og nemur hrein eign bankans þá í erlendum gjaldeyri kr. 46,4 milljörðum. Seðlabankinn hefur einnig breytt bindiskyldu hjá innlánsstofnunum þannig að nú er umframframboð fremur en umframeftirspurn á peningamarkaði. Á markaði hafa sérfræðingar spurt sig hvort að boðaðar hækkanir vaxta Seðlabanka muni hafa nokkur áhrif til að byrja með þar sem áfram verður nægt fjármagn á peningamarkaði. Efnahagslegmarkmið um hátt atvinnustig, stöðugt verðlag, réttláta tekjudreifingu, hagvöxt og hallalaus viðskipti við útlönd skipta gríðarlega miklu máli og því er hækkun neysluverðs umfram væntingar umhugsunarefni, en verðbólga er í dag 2,2% með hliðsjón af hækkun neysluverðs. Skýr markmið ríkistjórnarinnar í ríkisfjármálum með hliðsjón af áhrifum stóriðjuframkvæmda, þar sem lögð er áhersla á að afgangur ríkisjóðs sé notaður til lækkunar skatta og skulda ríkisjóðs, auk öflugri útflutningsgreina til að örva hagvöxt, munu þannig stuðla að bættum lífskjörum. Allt eru þetta gríðarlegir áhrifaþættir á heildarmyndinni sem allir eru sammála um að viðhalda.

Kaupmáttur launa hefur aukist um 11,3% frá árinu 2000, en í því sambandi vekur athygli að vinnutími hefur styst hjá flestum stéttum en hjá almennu verkafólki hefur hann lengst. Krafa um styttingu vinnutíma verkafólks er því skiljanleg ekki síst í því ljósi að auka tíma fólks til samveru með fjölskyldum sínum. Meginmarkmið Flóabandalagsins við gerð kjarasamninga sem færi launafólki tryggan kaupmáttarauka á samningstímanum án þess að hætta sé á aukinni verðbólgu er grundvallarmarkmið sem aðilar vinnumarkaðarins eiga að sameinast um. Telja má víst að horft verði til hópa sem heyra undir ákvarðanir kjaradóms og kjaranefndar, og þurfa því ekki að standa í formlegri kjarabaráttu, en þeir hafa haldið sínu og gott betur samkvæmt tölum Hagstofunnar, hækkanir lægstu laun um 30% þurfa því ekki að koma á óvart.

Engin ummæli: