þriðjudagur, desember 09, 2003

Stór stund í réttindabaráttu öryrkja.

Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalags Íslands, var í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi og staðfesti hann enn og aftur að von um betri tíð og blóm í haga í kjölfar aukins skilnings ríkisvaldsins á stöðu fólks sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni, er í ljósára fjarlægð, eða svo mátti a.m.k. skilja á látbragði Garðars Sverrissonar. Að samkomulag hans og Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, væri hægt að túlka út og suður er með ólíkindum. Þann 25. mars s.l. var kynntur í Þjóðmenningarhúsinu samningur, sem Jón mat sem „eitt mikilvægasta skrefið sem yfirvöld tryggingarmála og ríkisstjórn hafa gert á síðustu árum.“ Garðar sagði sjálfur að „þetta skref [væri] afar mikilvægt í réttindabaráttu öryrkja og [táknaði] nokkur tímamót í almannatryggingum á Íslandi.“ Jón Kristjánsson sagði jafnframt, á fundinum 25. mars, að hugmyndafræðin væri Öryrkjabandalagsins og að sér hafi hugnast aðferðin vel að koma mest til móts við þá sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni.

Ungir öryrkjar hafa ekki sömu valkosti og jafnaldrarnir, menntun, húsnæðiskaup og yfirleitt þátttaka í þjóðfélaginu er erfiðleikum háð, að reyna að halda í við aðra er ekki mögulegt svo að jafnræði sé með aðilum. Þess vegna var þetta réttlætismál Öryrkjabandalagsins tekið upp og framkvæmt, Jón Kristjánsson hefur verið betri en enginn í þeirri baráttu, það á Garðar Sverrisson að vita og viðurkenna. Samkvæmt því samkomulagi sem náðist þann 25. mars munu öryrkjar 18 og 19 ára fá tvöföldun á sínum lífeyri og þeir sem eru á aldrinum 20-29 ára munu fá á bilinu 70-95% hækkun. Þeir sem eru á aldrinum 30-39 ára fá á bilinu 20-60% hækkun og þeir sem eru 40 ára og eldri fá 10% hækkun eða lægra. Ungir öryrkjar munu fá hækkanir sem nemur 135% frá árinu 1995, eða úr kr. 53.847 á mánuði í kr. 126.547 nú um mánaðarmótin.

Garðar Sverrisson hefur farið hamförum, haft uppi gífuryrði og svika tal, vegna þessarar niðurstöðu og tæmt innihald félagsgjaldabauka Öryrkjabandalagsins og dritað út milljónum króna í auglýsingar í dagblöðum og ljósvakamiðlum. Tilgangurinn; umhugsunarefni er hvort að Garðar sjái eftir því að hafa ekki tekið sæti á lista Samfylkingarinnar í vor, pólitíkin kitlar; það var vafalaust gaman að vinna með Vilmundi Gylfasyni í Bandalagi Jafnaðarmanna hér í þá gömlu góðu, og hvers vegna ekki að endurtaka leikinn. Hver er „ítalski bílasalinn“ í þessu máli, líkt og Garðar hafði á orði svo smekklega um daginn, er hann líkti heilli ríkistjórn við þá stétt og þarflaust að taka fram að það hafi verið gert í neikvæðri merkingu. Stórum stundum í réttindabaráttu öryrkja á Garðar mjög erfitt með að samfagna með öðrum, öll framganga Garðars ber þess merki að hann einn eigi að lýsa yfir sigri í orrustum, aðrir eigi ekki að óhreinka sig við þá iðju, þó svo að þeir hafi barist við hans hlið allt til enda.

Á blaðamannafundi 25. mars var spurt hvort að ekki væri um kosningabombu að ræða. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingaráðherra hefur lýst þeirra atburðarás í blaðagrein 27. mars svo: „ ... [ég] og Garðar Sverrisson, formaður ÖBÍ, lýstu yfir að þannig bæri ekki að skilja niðurstöðuna og báðir sögðumst við sannfærðir um að enginn stjórnmálaflokkur myndi einn eða í samráði við aðra flokka reyna að rokka við því samkomulagi sem gert hefur verið.“

Engin ummæli: