miðvikudagur, desember 10, 2003

Atvinnulýðræðið hjá Samfylkingunni — Taugastríðið III.

Samfylkingin hefur lagt fram á Alþingi þingsályktun um atvinnulýðræði og að fela félagsmálaráðherra „að skipa nefnd er hafi það hlutverk að kanna og gera tillögur um það hvernig unnt sé að tryggja áhrif starfsmanna á stjórnun og ákvarðanatöku í fyrirtækjum og stofnunum á vegum ríkis og sveitarfélaga.“ Ætlunin er að kalla eftir markvissri athugun á því hvergi unnt sé að innleiða hér á landi það sem kallað hefur verið atvinnulýðræði, sem felur í sér að starfsmenn hafi áhrif á mál sem snerta vinnutilhögun og aukin áhrif á stjórnun.

Undarlegast við allt þetta er að málshefjendur, Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir, Helgi Hjörvar og Ásta R. Jóhannesdóttir, skuli hafa opinberað hér með ólýðræðisleg vinnubrögð sem eru viðhöfð innan Fylkingarinnar. Á yfirborðið er komin staðfesting á því að Samfylkingin sé að fótum komin, framsóknarmanninum Árna Magnússyni er ætlað að hlutast til um að lýðræðið innan Fylkingarinnar lifi af. „Horfðu til himins“ segir í ágætu dægurlagi, en Jóhanna, Margrét, Helgi og Ásta mælast til þess að kannað verði hvaða leiðir hafa verið farnar í nágrannalöndunum, uppáhalds land Ingibjargar Sólrúnar er ekki nefnt á nafn.

Kjarni umrótsins verður því öllum ljós, lýðræðisleg vinnubrögð Sollu í Fylkingunni, fyrirmyndir hennar og fjarlæg vinalönd. Fordæmislaus yfirlýsing hennar um að bjóða sig fram til formanns á næsta landsþingi Fylkingarinnar, eftir að hafa hlotið varaformannssætið án eins einasta atkvæðis þingfulltrúa, hefur hleypt illu blóði í fylkingarfólk. Hafið er yfir vafa að Árna Magnússyni, félagsmálaráðherra, er ljúft og skylt að verða við bón um skipun nefndarinnar góðu, Jóku, Möggu, Helga og Ástu verður falið af fylla þau sæti og pólitísk veisla er framundan.

Áhugamönnum um íslensk stjórnmál er þessi þingsályktun happa fengur, umfjöllun um hugtök eins og völd og lýðræði hjá fólki í hringiðu stjórnmálaumræðunnar, mun reyna á allar þær kenningar sem fræðimenn hafa hingað til talið góðar og gildar, og hvernig nútíma stjórnmál hafa farið með Fylkinguna, þ.e. umræðustjórnmál Sollu. Hvernig mun pólitísku pólunum reiða af í þessu nefndarstarfi, kjósendur, flokksmenn og þingmenn, er vandi um að spá. Jóhanna, Margrét, Helgi og Ásta munu hafa það í sínum höndum hvernig Fylkingin mun í „auknum mæli [horfa] frá miðstýringu til dreifstýringar þar sem einstakir [flokksmenn taki] sífellt meiri þátt í ákvörðunum sem tengjast [Fylkingunni] þeirra." Aðild, þátttaka og samráð fylkingarfólks er undir í umræðunni.

Engin ummæli: