mánudagur, desember 08, 2003

Tímabundnar ráðningar og hlutastörf.

Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, hefur mælt fyrir frumvörpum til laga á Alþingi um réttindi starfsmanna í tímabundnum störfum og starfsmanna í hlutastörfum. Frumvörpin eru lögð fram til innleiðingar á tilskipunum Evrópusambandsins, um rammasamning sem Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC), Samtök evrópskra iðn- og atvinnurekenda (UNICE) og Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild (CEEP) hafa gert.

Á íslenskum vinnumarkaði er meginreglan sú að starfsmenn eru ráðnir ótímabundið. Ekki ætlað að breyta þeirri óskráðu reglu og er því gert ráð fyrir að ótímabundnir ráðningarsamningar verði áfram ríkjandi ráðningarform hér á landi. Þetta er einnig í samræmi við efni tilskipunarinnar en í forsendum hennar kemur fram að „[ó]tímabundnir ráðningarsamningar eru hið almenna form ráðningarsambands og stuðla að lífsgæðum viðkomandi launamanna og bæta árangur“. Engu síður er tekið fram að tímabundnir ráðningarsamningar geta á tilteknum sviðum og í tilteknum starfsgreinum hentað bæði vinnuveitendum og launamönnum.

Í inngangsorðum rammasamningsins kemur fram að hann sé framlag til skipulags atvinnumála í Evrópu. Þar eru settar fram almennar meginreglur og lágmarkskröfur er varða tímabundnar ráðningar og hlutastörf. Markmið rammasamningsins er að tryggja meginregluna um bann við mismunun og að sett verði rammaákvæði í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun sem byggist á því að tímabundinn ráðningarsamningur taki við af öðrum og að uppræta mismunun gagnvart launþegum í hlutastörfum og til að auka möguleika á hlutastörfum á forsendum sem eru viðunandi bæði fyrir vinnuveitendur og launþega.

Mælt fyrir um þrenns konar leiðir sem stjórnvöld geta valið um í samráði við aðila vinnumarkaðarins, þannig að hver tímabundinn ráðningarsamningur taki ekki við af öðrum. Heimilt er að velja eina eða fleiri leiðir en sú fyrsta felur í sér að taldar séu upp þær ástæður sem réttlæta endurnýjun tímabundinna ráðningarsamninga, önnur að kveðið sé á um hámarkstímalengd slíkra ráðningarsamninga og sú þriðja hversu oft sé heimilt að endurnýja þá.

Dæmi er um tímabundnar ráðningar í kjarasamningum milli einstakra sveitarfélaga og viðsemjanda. Í greinargerð kemur fram að slík ákvæði er að finna í kjarasamningi milli Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar (ákvæði 12.3.2) en það er í samræmi við ákvæði starfsmannalaga. Kjarasamningur Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins fjallar einnig um tímabundna ráðningarsamninga (ákvæði 12.1.2). Þar kemur fram að heimilt sé að ráða starfsmann tímabundið eða til ákveðins verkefnis. Slík ráðning má þó ekki vera til lengri tíma en þriggja mánaða og kveðið er á um tveggja vikna uppsagnarfrest. Ákvæði þetta mun vera tilkomið vegna aðstæðna í viðkomandi starfsgreinum. Aðrir kjarasamningar á íslenskum vinnumarkaði kveða ekki sérstaklega á um tímabundnar ráðningar.

Ótvírætt er að efni þessara lagafrumvarpa fela í sér réttarbót, sem má sjá af því að um sérlög að ræða, auk þess að kveðið er á um að brjóti vinnuveitandi gegn lögunum varði það skaðabótum. Eins verður um sameiginlega túlkun laganna að ræða hjá aðildarríkjum EES-samningsins.

Engin ummæli: