fimmtudagur, nóvember 20, 2003

Hver er vænlegasta byggðaaðgerðin?

Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, hefur lagt fram á Alþingi þingsályktun um stofnun háskóla á Vestfjörðum. Sér hann fyrir sér að hægt væri að móta sérhæft námsframboð sem mótist af sérstöðu svæðisins, með tilliti til umhverfismála, ferðamála, sjávarútvegsmála og tónlistarlífs. Horft verði til samstarfs við aðra háskóla og þannig stuðlað að fjölbreyttu námsframboði.

Á Vestfjörðum hefur aðsókn að háskólanámi aukist svo á skömmum tíma að líkja má við sprengingu. En samt er enginn skóli á háskólastigi í fjórðungnum svo að nemendur verða að stunda fjarnám. Um það bil 130 manns á Vestfjörðum stunda háskólanám við a.m.k. fjóra háskóla.

Á Akureyri var stofnaður sjálfstæður háskóli m.a. með þeim rökum að ekkert væri raunhæfara í byggðamálum en að flytja menntun út í byggðir landsins. Má fullvíst telja að flutningur æðri menntunar út í hinar dreifðu byggðir skapi betri undirstöður heldur en margt að fjármagn sem hefur farið í ýmis konar félagsleg verkefni og til ýmiss konar atvinnufyrirtækja. Enda nauðsynlegt að fólki í hinum dreifðu byggðum landsins fái aukna möguleika á að notfæra sér þá menningu og þau lífsgæði sem felst í þróttmikilli háskólamenntun og vísindastarfsemi.

Á Vestfjörðum er staða byggðar óvíða erfiðari né íbúafækkun meiri. Um síðustu áramót voru íbúar Vestfjarða 7.915 og hefur þeim þá fækkað um 8,6% frá árinu 1997.

Menntun er fjárfesting sem skilar arði til samfélagsins sem hefur þá alla burði til að auka velsæld sína með þeim mannauði sem vex upp í heilbrigðu skólastarfi og er því vænlegasta byggðaaðgerðin. Það er ástæða til að taka undir þessa þingsályktun og fylgja henni fast eftir.

miðvikudagur, nóvember 19, 2003

Hvaða stefnu rekur Framsóknarflokkurinn í heilbrigðismálum?

„Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi. Framsóknarstefnan setur manninn og velferð hans í öndvegi.“

Framsóknarflokkurinn hefur rekið markvissa og ákveðna stefnu í heilbrigðismálum sem felur í sér að vera réttlát, öllum opin, byggð á samábyrgð þegnanna, að vera að mestu kostuð af almannafé og að þeir gangi fyrir sem hafa mesta þörfina. Þegar þessi markmið eru tryggð, þá skiptir rekstrarform ekki máli. Þetta er spurning um jafnræði þegnanna og því segjum við framsóknarmenn: manngildi ofar auðgildi, að hver og einn hafi sama rétt til grundvallarlífskjara óháð heilsu og efnahags. Það er af siðferðilegum ástæðum að það er haldið svona fast í þessi grundvallaratriði sem fela í sér arf Framsóknarflokksins, þ.e. rík réttlætiskennd, samhjálp og samvinna í velferðarmálum. Samfélagsleg vitund og samkennd með þeim sem minna hafa og þurfa á hjálp að halda er mikilvægari í dag en nokkru sinni því að í samfélögum vesturlanda hefur markaðskerfið orðið ofan á. Í hreinum og tærum markaðslausnum í heilbrigðisþjónustunni felst misrétti, leiðarstjarnan getur því aldrei orðið sú sem lausn við útgjaldaaukningu í heilbrigðisþjónustunni.

Framsóknarflokkurinn vill byggja efnahagslíf þjóðarinnar á markaðshagkerfi einkarekstrar og samvinnurekstrar þannig að framtak einstaklinga og samtaka þeirra njóti sín til fulls. Framsóknarflokkurinn er því ekki andsnúin markaðslausnum, enda hefur hann staðið fyrir fjölbreytileika í þjónustunni sem er ætlað að vera jafn góðri og ekki dýrari fyrir skattborgarana en einhver önnur lausn. Undir stjórn framsóknarmanna hefur í fyrsta sinn verið bryddað upp á öðrum rekstrarformum í heilbrigðisþjónustu til að auka skilvirkni og bæta þjónustuna. Gerðir hafa verið fleiri þjónustusamningar en nokkru sinni áður og undir stjórn Framsóknarflokksins hefur einnig verið staðið fyrir útboðum.

Framsóknarflokkurinn byggir á frjálslyndri hugmyndafræði og telur því farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð eru á hófsemi og heiðarleika. Það er ekki hægt að tefla fram einhverjum töfralausnum í heilbrigðismálum og því mikilvægt að umræðan um þessi mál byggist á þekkingu og sanngirni.

Það er því sorglegt þegar formaður Samfylkingarinnar Össur Skarphéðinsson, fer mikinn í hinni pólitísku orðræðu um heilbrigðismál og boðar lögmál markaðarins um framboð og eftirspurn, er rætt er um vandan við útgjaldaaukninguna í heilbrigðismálum á síðustu árum. Með hagsmuni hverra að leiðarljósi tala slíkir talsmenn frjálshyggjuaflanna? Gætum við verið viss um að sjúklingar hefðu getað greitt fyrir lyfin án þess að samfélagið kæmi þar að eða greitt fyrir dýra aðgerð? Hverjir njóta bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem hægt er að fá er lögmál framboðs og eftirspurnar ráða för? Er tryggt að þar felist ekki misrétti? Er hægt að hafna þörfinni á auknum fjárframlögum til heilbrigðismála þegar staðið er vörð um samfélagslega vitund og samkennd með þeim sem minna hafa og þurfa á hjálp að halda?

Upphafsorð þessa pistils eru grundvöllur að stefnu Framsóknarflokksins, grundvöllur þeirrar stefnu sem við framsóknarmenn stöndum fyrir, hugsjónir um frelsi lýðræði, samhjálp og samvinnu. Framsóknarfólk er með svipaða lífssýn og svipaðar hugmyndir og berst fyrir umbótum á samfélaginu, berst fyrir velferð, öryggi borgaranna og lætur sig hvaðeina í mannlegu samfélagi varða í því augnamiði að láta gott af sér leiða. Framsóknarflokkurinn setur „fólk í fyrirrúmi.“

mánudagur, nóvember 17, 2003

Drifkrafturinn kemur úr nýrri átt.

Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, flutti yfirgripsmikla og góða ræðu á Haustfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins um síðustu helgi. Halldór kom m.a. inn á að framsóknarmenn settu sér raunhæf markmið og sem kjósendur vissu að þeir geta treyst á að verði framkvæmd. En íslenskt þjóðfélag býr nú við meiri stöðugleika í efnahagsmálum en oftast áður, auknum umsvifum og öflugra velferðarkerfi. Þessar staðreyndir eiga vel við stefnu Framsóknarflokksins sem velferðarflokks, þar sem ríkistjórnin leggur áherslu á aukin framlög til málefna fatlaðra og ætlun um að eyða biðlistum eftir búsetu og þjónustu fyrir fatlaðra í heimabyggð. Ætlunin er að úrræði í öldrunarþjónustu verða bætt og að unnið verði enn frekar að uppbyggingu í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu, á næsta ári verða framlög til heilbrigðismála aukin um alls níu milljarða.

Í kosningunum í vor settu framsóknarmenn 90% lán til íbúðakaupa meðal forgangsverkefna sinna. Ráðgjafahópur þriggja ráðuneyta vinnur að mótun tillagnanna og munu niðurstöður liggja fyrir á næstunni. Jafnframt benti Halldór á að sem hluta að heilstæðri húsnæðisstefnu verði staða leigumarkaðarins könnuð í því augnamiði að auka megi framboð leiguhúsnæðis. Í menntamálum lagði Halldór til að miðstjórnin fæli Málefnanefnd að stofna umræðuhóp um málefnið, þannig að Framsóknarflokkurinn myndi móta sér kröftuga og skýra stefnu í málaflokknum, sem ætti við um öll skólastigin, enda væru menntamál einhver mikilvægust verkefni samfélagsins í framtíðinni.

Halldór Ásgrímsson benti á að traustar stoðir efnahagslífs hafi „lagt grunninn að auknum umsvifum, meiri þjóðartekjum, stórbættum kaupmætti, betri efnahag og öflugra velferðarkerfi“. En þó hefur eins og Halldór kom inn á „skort nægilegt framboð á því sem oft er kallað þolinmótt fjármagn, sem styður við frumkvöðla og sprotafyrirtæki“. Enn fremur mun Framsóknarflokkurinn í ríkistjórn beita sér fyrir nýjum lögum um vísinda og tækniráð og stofnun tækniþróunarsjóðs sem verði ætlað að bæta verulega stuðning við nýsköpun.

„Drifkrafturinn kemur úr nýrri átt“, voru orð Halldórs, er hann benti á að Austurland væri miðpunktur athyglinnar og að sérstakt væri að þensla í atvinnumálum skuli vera mest utan höfuðborgarsvæðisins. Síðan fór Halldór með miðstjórnarfulltrúa í hringferð um landið og sýndi framá hvernig byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar væri þegar farin að hafa jákvæð áhrif. Hann tók sérstaklega fram í ræðunni að hlutir gerðust ekki að sjálfu sér, eitthvert afl þyrfi til að koma hlutum af stað og það væri hlutverk ríkisins að skapa skilyrði til þess að atvinnulíf hér á landi blómstri.

Framsóknarflokkurinn og framsóknarfólk um land allt er samstíga hópur og sá mikli kraftur sem gerir okkur auðveldara en ella að sækja fram með okkar baráttumál, líkt og í kosningunum í vor, af krafti og einurð er enn til staðar og getum við með stolti litið yfir okkar störf í ríkistjórn undanfarinn átta ár „og þess vegna hefur íslensk þjóð falið okkur ábyrgð“, voru lokaorðin í ræðu Halldórs Ásgrímssonar.

fimmtudagur, nóvember 13, 2003

Þið munið hann Steingrím Jóhann Sigfússon.

Í frægri hátíðarræðu, Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri-framboðsins, á landsþingi fyrir skömmu, virðist hann harma að Framboðið skyldi mælst lengi vel mjög hátt í skoðanakönnunum. Verður því ekki annað skilið en að framboðið hafi átt að mælast mun lægra. Staðan væri skelfileg, en það jákvæða væri nú „að eiga hljómgrunn hjá miklu stærri hluta almennings í landinu en sem nemur þeim fjölda sem að endingu ákvað að kjósa okkur“.

Er því nema von að spurt sé hvort að Steingrímur Jóhann Sigfússon sé enn stjórnmálamaðurinn sem kom inn á Alþingi, árið 1983, fullur af þrótti og eldmóði, sem ber fram þann boðskap, árið 2003, að „keppinautar okkar eða andstæðingar í stjórnmálum tóku smátt og smátt allir að líta á okkur sem sérstaka og sameiginlega ógn og hagsmunir þeirra fóru þ.a.l. saman í því að reyna að finna á okkur höggstað. ... Við getum ekki vænst þess að aðrir flokkar horfi á okkur taka aukið rými í heimi stjórnmálanna á þeirra kostnað án þess að bregðast við.“

Nú er það svo að innistæða er nauðsynleg fyrir fullyrðingum, það ættu sjóaðir stjórnmálamenn að vita. Þegar Steingrímur Jóhann telur Framboðið sitt eiga og geta tryggt að fimmtungur til fjórðungur þjóðarinnar a.m.k. sem eigi meira og minna málefnalega samleið með Vinstri-framboðinu og fylgi því eftir með atkvæði sínu í kjörklefanum, þá þrýtur heimildina.

Sé formaðurinn að líta til kosningarannsókna Ólafs Þ. Harðarsonar, þá er ekkert sem segir að hægt sé að sækja allt það fylgi sem hafi íhugað að styðja flokkinn, því það er alltaf við andstæðinga að berjast og við því þarf Framboðið að bregðast. Barlómur forystumanns í stjórnmálum er því meir undarlegri ef það er ekki verðugt verkefni flokksfélaga í alvöru flokki, sem vill verða stór, að takast á við andstæðingana sem reyna að finna höggstað á flokknum.

Áskorunin í stjórnmálum fellst í því að þurfa að vinna eins mörg þingsæti og hægt er til að breyta, þ.e. að hafa áhrif á ríkistjórnina, embættismennina og þjóðfélagið í heild. Áfallið fyrir þá sem eiga ekki aðild að ríkisstjórn kallar á umræður og uppgjör innan flokka. Staða forystumann verður einnig veikari takist þeim ekki að skapa sér áhrifastöðu. Ekki er að sjá að Steingrímur Jóhann Sigfússon hafi tekist á við þetta uppgjör á landsþinginu eða hvaða alvöru stjórnmálaafl, vill hafa forystumann sem hræðist góða mælingu í könnunum?

miðvikudagur, nóvember 12, 2003

Hvar er umræðan um Hatton-Rockall svæðið?

Fyrir um 3 árum flutti Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, ávarp á ráðstefnu um landgrunnið og auðlindir þess. Þar kom m.a. fram í ágætu erindi hans að frá því að Hafréttarsáttmáli Sameinaðuþjóðanna öðlaðist gildi 16. nóvember 1994 hafa tekið til starfa þrjár stofnanir Alþjóðlegi hafréttardómurinn, Alþjóðahafsbotnsstofnunin og Landgrunnsnefndin. Líkt og Halldór benti á þá hefur tilkomu tveggja síðastnefndu stofnanna, aukið áherslu á málefni hafsbotnsins, bæði landgrunnsins og alþjóðlega hafsbotnsins. Og að jafnframt þá væri það fyrir strandríkið Ísland einkum landgrunnið sem hefði gífurlega þýðingu.

Nú er það svo að frestur Íslands til þess að leggja fram upplýsingar fyrir Landgrunnsnefndina rennur út haustið 2004, sbr. ákvæði samningsins um 10 ára frestinn frá gildistöku. Fram kom í ræðu Halldórs, að Landgrunnsnefndin sé „að taka við upplýsingum frá strandríkjum um mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna og gera tillögur þar að lútandi. Samkvæmt hafréttarsamningnum skulu strandríki almennt leggja upplýsingar um mörk landgrunns síns fyrir nefndina innan 10 ára frá gildistöku samningsins að því er viðkomandi ríki varðar. Ekkert ríki hefur enn lagt slíkar upplýsingar fyrir nefndina en alls munu um 30 ríki eiga rétt til landgrunns utan 200 sjómílna.“

Um svæðin utan 200 sjómílna sagði Halldór: „Annars vegar er um að ræða landgrunnið til suðurs, þ.e. á Reykjaneshrygg og Hatton Rockall svæðinu, og hins vegar landgrunnið til austurs, þ.e. í Síldarsmugunni. Ljóst er að mikið starf er framundan vegna þessa en m.a. þarf að yfirfara fyrirliggjandi gögn um mörk íslenska landgrunnsins, afla nýrra gagna, þar sem þörf er á, og ganga úr skugga um að gögnin séu í samræmi við hinar vísindalegu og tæknilegu viðmiðunarreglur Landgrunnsnefndarinnar. Starf þetta verður einkum í höndum utanríkisráðuneytisins og Orkustofnunar en aðrir aðilar munu einnig koma að því, m.a. Sjómælingar Íslands. Tryggja verður að þessir aðilar hafi bolmagn til þess að takast á við þetta mikil-væga verkefni með fullnægjandi hætti.“

Við Íslendingar eigum gífurlegra hagsmuna að gæta í þessu máli og því nauðsynlegt að vel sé staðið að þessari framkvæmd allri. Í þjóðréttarlegri rökræðu um rétt Íslendinga til Hatton-Rockall svæðisins er vísað til hugtaksins um eðlilegt framhald landgrunns sem telja má að sé aðalregla í skilgreiningu landgrunns samkvæmt samningnum. Hafa Íslendingar byggt kröfur sínar á því að fundnar séu rætur landgrunnshlíðarinnar og dregin lína 60 sjómílur þar fyrir utan. Beiting viðkomandi reglna tekur mið af því að á íslenska hafsvæðinu séu ekki fyrir hendi skýr mörk landgrunns á Íslands-Færeyjahrygg fyrr en komið er að Hatton-Rockall bankanum.

Síðan er það að á milli Hatton-Rockall svæðisins og Írlands/Skotlands liggur svokallað Rockall-trog sem er 3000 metra djúpt þar sem það er dýpst. Þessi staðreynd veikir mjög kenningar um að Hatton-Rockall svæðið sé óslitið framhald eða eðlilegt framhald meginlands Írlands og Bretlands. Írsk og bresk stjórnvöld hafa hins vegar haldið því fram að þar sem trogið liggi innan ytri marka efnahagslögsögu þeirra hafi það ekki áhrif á framhald landgrunnsins utan 200 sjómílna. Bresk stjórnvöld hafa bent á tengsl milli Skotlands og Hatton-Rockall svæðisins eftir Wyville Thomson-hryggnum. Danir halda því fyrst og fremst fram að Hatton-Rockall svæðið tengist Færeyjum sem eins konar „micro-meginland“. Rannsóknir sem hafa farið fram benda til þess að jarðskorpan á Hatton-Rockall svæðinu sé sama eðlis og jarðskorpan undir Færeyjum.

Samkvæmt 125. gr. hafréttarsamningsins fá eyjar á stærð við Rockall hvorki landgrunn né efnahagslögsögu. Slík takmörkun á víðáttu landgrunns efnahagslögsögunnar teljast gildandi þjóðaréttur nú þegar og getur réttarstaða Bretlands og á Hatton-Rockall svæðinu byggst á eynni sem slíkri eða þessum 19 metra háa kletti.

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, kom inn á mjög mikilvægt atriði í lokaorðum sínum er hann sagði: „Hatton Rockall málið er býsna flókið og viðbúið að erfitt verði að finna lausn á því. Við munum hins vegar ekki láta okkar eftir liggja í því efni, enda er hætt við því að nái aðilar ekki samkomulagi muni kostnaðarsamar greinargerðir aðila til Landgrunnsnefndarinnar verða unnar fyrir gíg og hugsanlegar auðlindir á svæðinu liggja ónýttar í jörðu.“

Á Hatton-Rockall svæðinu er að finna vinnanlega olíu og því mikilsverðir hagsmunir sem eru í húfi fyrir fámenna þjóð eins og Ísland. Það er nauðsynlegt að umræða um þessi mál séu sem oftast í dagsljósi og að þjóðfélagsumræða sem slík fari fram. Ber því að hvetja þá aðila sem að málinu koma að greina frá stöðu mála enda aðeins 369 dagar til stefnu.

Obbobobb, Obba!!

Það er nauðsynlegt í pólitískri orðræðu að svara fljótt og vel illa ígrunduðum og innistæðulausum aðdróttunum andstæðinganna. Nú í morgun hóf TÍK ein að míga utan í mann og annan og þá helst framsóknarmenn. Rembingur viðkomandi ætti að beinast að stöðu kvenna í eigin Sjálfstæðisflokki, en það er sjálfsagt ekki til vegsauka innan þess félagsskapar. Er rétt að birta hér snilldar pistil sem Dagný Jónsdóttir, alþingismaður, ritaði í morgun og segir allt sem segja þarf við tíkarskrifum Obbu.


Við eigum innistæðu fyrir nýrri ímynd

Ég má til með að setja hér inn nokkur orð varðandi pistil sem ég heyrði í morgunsjónvarpi Stöðvar tvö í morgun. Ég veit ekki hvernig pistlahöfundar eru valdir þar, væri gaman að vita það. Reyndar voru tengslin frekar skýr varðandi höfundinn í morgun en þar talaði Þorbjörg Gunnlaugsdóttir, fyrrverandi oddviti Vöku í Stúdentaráði (var á sama tíma og ég var framkv.stjóri Stúdentaráðs) í þætti sem fyrrverandi stúdentaráðsliði Vöku stýrir. Langsótt, ég held ekki. Alla vega þá gripu orð hennar Obbu (Þorbjargar) mig þar sem ég stóð inni á baði og var að hafa mig til fyrir daginn.

Hún talaði um Framsóknarflokkinn og markaðssetningu hans í vor. Hún sagði að allt hefði þetta verið auglýsingum að þakka og minn skilningur af bitrum orðum hennar var að hún teldi enga innistæðu fyrir nýrri ímynd flokksins. Ég vil bara benda henni á að við erum flokkurinn sem tefldi fram þremur konum í forystusætum. Við erum flokkurinn sem var með ungt fólk í baráttusætum í öllum kjördæmum og skiluðum þremur nýjum þingmönnum inn á þing og þar af eigum við yngsta þingmanninn og yngstu þingkonuna. Geri aðrir betur. Við hefðum aldrei getað farið út í slíka ímyndavinnu nema hafa grunninn til þess. Allt gekk upp hjá okkur og við erum afar ánægð með það.

Obba ræddi um ráðherra flokksins og ég vil taka fram í þeirri umræðu að mér finnst gjörsamlega óþolandi í slíkri umræðu hvað fólk gerir lítið úr þingmennskunni. Ég er svo heppin að mér finnst ég ekkert ómerkari þingmaður þó ég sé ekki ráðherra. Það er nú svo að Alþingi Íslendinga er æðra framkvæmdavaldinu og af því vitum við þingmenn. Hún gerði að umtalsefni hversu einkennilegt það hafi verið að setja Árna Magnússon í ráðherrastól þar sem hann hafði enga reynslu haft sem þingmaður, minni menntun en aðrir þingmenn og að hann hafi ekki verið kona. Tja, ég veit að Árni er ekki kona en hann hefur virkilega sett jafnréttismálin á dagskrá í ráðuneytinu og er það vel. Átti hann að gjalda fyrir það að vera ekki af sterkara kyninu? Mín skoðun er að svo eigi ekki að vera. Hann hafði enga reynslu sem þingmaður en flokkurinn sýndi í verki að hann treystir ungu fólki og fylgdi eftir því fylgi sem við fengum meðal ungs fólks með því að taka áhættu. Er ekki í góðu lagi að gera einhvern tíma eitthvað öðruvísi? Þurfum við alltaf að hafa sömu formúluna? Ég segi nei og mér fannst þetta útspil einmitt vera fyrstu merki þess að nýir vindar blésu innan þingflokksins.

Með þessum orðum er ég þó á engan hátt að taka til þeirra framúrskarandi einstaklinga sem komu til greina sem ráðherrar, sem betur fer gátum við valið úr góðum hópi. Að lokum við ég setja út á þennan menntahroka hennar Obbu. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að hafa sem fjölbreyttustu reynslu á Alþingi. Ég vil t.d. ekki að allir þingmenn séu lögfræðingar eða að allir þingmenn séu íslenskufræðingar (tek þetta dæmi því ég er íslenskunemi og Obba laganemi). Það sama á að gilda um ráðherra.

þriðjudagur, nóvember 11, 2003

Sár og bitur, Ingibjörg Sólrún.

„Davíð Oddsson forsætisráðherra og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra kunna því best að taka þátt í þjóðfélagsumræðunni einir og óáreittir. Annar í sjónvarpssal og hinn á netinu. Þá er enginn að trufla þeirra merku pólitísku útleggingar á veruleikanum og enginn til andsvara. Þeim finnst fara best á því.“

Ofangreind tilvitnun er úr grein sem Ingibjörg Sólrún skírir „Rismiklir ráðamenn“ og er sjálfsagt ætlað að vera framlag hennar til svo kallaðra umræðustjórnmála sem eru hennar ær og kýr. En eitthvað er það, við þessa tilvitnun sem á bara svo ágætlega vel við formann framtíðarnendar fylkingarinnar, eða hverjum hefur hún annars boðið til sætis við hringborðið til umræðna um pólitískar útleggingar á veruleikanum. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, er þar ekki á meðal boðsgesta, það er vitað fyrir víst.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður framtíðarnefndar Fylkingarinnar, virðist ekki alltof sátt við sitt hlutskipti í sjálfskipaðri pólitískri útlegð. Enda sest hún niður, þegar hér er komið til sögu, við einhverja tölvuna, svona til að vera í beinu milliliðalausu sambandi við sitt fólk, henni þykir fara best á því, og sendir út eftir þörfum boðskap sinn, í skjóli frægrar uppgjafar frá borgarstjóraembættinu í Reykjavík og mislukkaðrar farar í átt að forsætisráðherrastólnum í vor.

Þessi annars ágæti varaþingmaður situr annars í hverju embættanna á fætur öðru innan raða Samfylkingarinnar án þessa að nokkurt það atkvæði falli henni í skaut sem ætti að þurfa til fleyta öllum öðrum dauðlegum mönnum áfram. Það eru greinilega umræðustjórnmálin sem eiga að koma í stað hefðbundinna lýðræðislegra vinnubragða. Er það þá ekki orðin aðkallandi spurning fyrir Samfylkinguna að leggja meira upp úr þörf fyrir réttaröryggi og jafnræði þegnanna þegar umræðustjórnmálin eru í kolli einnar manneskju og ráða að séð verður algjörlega för. Eða hvar dettur öðrum stjórnmálamanni það í hug, á byggðu bóli, að tilnefna sig til formanns á næsta landsþingi, ný orðin varaformaður, ef undan er skilin fylking í Norður-Kórea, þar er enginn til andsvara.

mánudagur, nóvember 10, 2003

Fortíðardraugar Vinstriframboðsins – dýrið gengur laust og eigir engum landamærum.

Einn er sá flokkur sem á fulltrúa á löggjafarsamkundunni og telur hann heila 5 þingmenn sem verður að teljast harla gott fyrir flokk manna sem byggir tilvist sína óánægju „alltaf á móti stefnu“, og verður því nær aldrei dæmdur af einhverjum sérstökum verkum.

Útivist frá áhrifum í íslenskum stjórnmálum hefur því á stundum virst vera aðalsmerki Vinstriframboðsins, enda jafnvel ekki áætlun uppi um að verða neitt stórt framboð. Má fullvíst telja að annar lítill flokkur hafi stolið sviðinu með óvæntum hætti og í raun stolið fylgi því sem Vinstriframboðið ætlaði sér að ná með óánægju-stefnunni.

Vinstraframboðið hefur frá árinu 1999 fengið sem nemur kr. 87,5 millj. af fjárlögum til að styrkja sig, efla og dafna. Kemur því verulega á óvart að framboðið skuli á landsþingi sínu, nú um helgina, telja sér það til tekna að hafa eitt litlu sem engu í kosningabaráttuna sl. vor. Er það þá ekki grundvallarspurning í hvað peningarnir hafa farið? Eru ofangreindir peningar ekki til að skerpa á áherslum og það í aðdraganda kjördags?

Væll yfir áróðursherferðum annarra flokka er síst til að skýra illa skipulaga og ómarkvissa baráttu, líkt Vinstraframboðið háði í vor, né til að skila árangri til lengri tíma. Er þá ekki óhjákvæmilegt „að líta aðeins um öxl og fara yfir það“ sem aflega fór í eiginn ranni, líkt og formaðurinn, Steingrímur J. Sigfússon, ætlaði sér í hátíðarræðu á landþinginu en tók aldrei föstum tökum. Að sætta sig við að vera lítið framboð laðar varla að fjölmenni.

Yfirlýsingar formannsins fyrir næstu kosningar munu líklegast einkennast af sama snakkinu, um lítið Vinstriframboð, sem ætli sér fátt eða ekkert nema að vera á móti öllu. Meginreglurnar virðist Steingrímur Jóhann þó hafa en á hreinu á landsþinginu er hann segir:

Umhverfismálin eru einn stærsti og mikilvægasti málaflokkur samtímans og sá sem verður án nokkurs minnsta vafa hvað fyrirferðarmestur í stjórnmálaumræðu bæði innanlands og utan á komandi árum. Það tengist bæði einstökum átakamálum eins og þeim sem við höfum staðið, og munum standa, frammi fyrir varðandi nýtingu tiltekinna landssvæða og hagsmunaárekstra milli nýtingarsjónarmiða annars vegar og verndunarsjónarmiða hins vegar. Auðvitað fyrst og fremst þegar nýtingaráformin eru af þeim toga að þau stangast á við framsækna náttúruvernd og eyðileggja náttúruna. Framkvæmdir eða svokölluð nýting náttúrunnar sem um leið eyðileggur hana er að sjálfsögðu ekki sjálfbær og getur aldrei orðið. Það sem mönnum gengur seint að læra er að þó nýting og náttúruvernd fari sem betur fer iðulega vel saman, þá á það ekki alltaf við. Stundum rekst þetta algerlega á og þá er ekki bæði hægt að borða kökuna og geyma.

Gleymist ekki hér að það verði einnig að baka kökuna? Eða duga hundasúrur og fjallagrös til handa dýrunum? Hefur Steingrímur J. gleymt „Útflutningsleiðinni“ frá þeim gömlu góðu, kommaárunum?

Steingrímur Jóhann er síðan, eftir allt saman, ekki með á þurru hvað snýr upp eða niður í stefnu litla framboðsins er hann segir:

Ég tel að ákveðnir þættir í kosningabaráttunni, t.d. vægi áherslna hefðu mátt vera öðruvísi. Líklega höfum við goldið þess að vera orðin um of merkt hinum hörðu átökum um stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Við vitum vel að barátta okkar fyrir varðveislu náttúruverðmætanna, sem þýddi andstöðu við framkvæmdaáform sem miklar væntingar tengdust, sérstaklega í ákveðnum landshluta, við vitum að þetta var okkur ekki auðvelt vegarnesti í kosningabaráttunni, a.m.k. ekki á þeim slóðum. Það er skiljanlegt, það getur kostað sitt að standa í lappirnar og vera sjálfum sér samkvæmur.

Hvernig skýrir formaðurinn, Steingrímur Jóhann, hvernig öðrum stjórnmálaöflum var mögulegt að afla sér fylgis? Tóku ekki allir flokkar þátt í sömu kosningabaráttunni, með sama kjördag? Að væna Framsóknarflokkinn um að „hafa lagst flatur í ömurlega auglýsingamennsku, froðu og lágkúrupólitík“, segir allt um gamla kommahjartað, það er samkvæmt sjálfu sér.

laugardagur, nóvember 08, 2003

Helgarsjónarhornið.

Það er hreint ömurlegur málflutningur hjá Samfylkingunni að leggja til þá tímamóta stefnubreytingu í heilbrigðismálum að kostnaður hins opinbera megi ekki aukast, það vanti ekki aukið fé í heilbrigðismálin, en segja síðan í hinu orðinu að málefni geðsjúkra séu í uppnámi ár eftir ár vegna fjárskorts.

Hin nýja og framsækna hugsun Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum gengur út að hafna því að auka þurfi þjónustu og mæta ólíkum þörfum einstaklinga. Samfylkingin segist ekki ætla sér að einkavæða þar sem forgangur hinna efnuðu er tryggður, heldur að einkavæða þannig að aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustunni sé óháð efnahag.

Getur það verið að samfylkingarmenn gleymi að það sé til stétt innan heilbrigðisgeirans sem heiti tannlæknar eða að sjálfseignarstofnanir reki hluta öldrunarstofnana, er þörf á framtíðarlausn í þessum þáttum. Gengur gagnrýni Samfylkingarinnar í hátíðarræðu Össurar Skarphéðinssonar, formanns, fullkomlega upp. Ætla má að formaður framtíðarnefndar fylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, eigi nú eftir að rétta formanninn af á frjálshyggjuferðalaginu og telji okkur trú um að fljótfærni og hugsunarleysi hafi verið að ræða. Er hafið yfir vafa að Rannveig Guðmundsdóttir muni ljá Ingibjörgu lið í þessari baráttu.

Skortur á pólitískri forystu er kallað úr hornum fylkingarinnar, ljóst er að blinda og heyrnaleysi Samfylkingarinnar er einn aðalvandi hennar og að hún gefur sér ekki tíma til að fara yfir öll þau góðu verk sem Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, er að framkvæma.

Hver var stefna Samfylkingarinnar í heilbrigðismálum?
Rannveig Guðmundsdóttir, alþingismaður, sagði í umræðu fyrir um 2 árum (18.10.2001) um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um almannatryggingar, eftirfarandi:

… Það er merkileg staða uppi hjá okkur Íslendingum hvað varðar einkarekstur. Þegar við förum að skoða hvernig einkarekstur hefur þróast eiginlega af sjálfu sér, án mikillar umræðu og þýðingarmikilla ákvarðana um að opna fyrir einkarekstur, hvort heldur í mennta- eða heilbrigðiskerfi, þá hefur það gerst og gerist í skjóli einhvers konar pilsfaldakapítalisma. Þannig er það í menntakerfinu. Opnaðir hafa verið einkaskólar og einkaskólarnir fá sama ríkisframlag og ríkisskólarnir, en þeir fá bara leyfi til að taka gjöld til að hafa sinn skóla flottari, til að kaupa betri, fleiri og dýrari tæki, búa betur að nemendum og greiða betri laun. Síðan á ríkisskólinn að keppa við þetta fyrirkomulag sem ábyggilega þekkist hvergi á byggðu bóli.

Förum svo yfir í heilbrigðiskerfið. Þar hafa ákveðnar fagstéttir fengið heimild til að flytja starfsemi sína frá sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum í einkarekstur á stofu úti í bæ. Og hver borgar þegar upp er staðið? Neytandinn, sjúklingurinn. Afgangurinn fer á samneysluna, eðlilega, af því að þær fagheilbrigðisstéttir sem hér um ræðir hafa fengið heimild til þess að vinna á eigin forsendum nokkurn veginn, auðvitað með ákveðnum samningum, allt öðruvísi samningum en þeirra sem starfa á stofnunum og sjúkrahúsum, og senda Tryggingastofnun reikninginn.

… Það er annað sem ég vil líka nefna, hámarksgreiðslu fyrir tannlæknaþjónustu. Tannlæknakostnaður hefur ekki verið undir hámarki hingað til heldur annar heilsufarskostnaður eða lækniskostnaður. Það hefur verið að þróast í þá átt undanfarið að foreldrar og þeir sem fá hluta af tannlæknakostnaði greiddan af hinu opinbera, Tryggingastofnun, hafa alltaf verið að greiða meira og meira úr eigin vasa vegna þess að gjaldskrá Tryggingastofnunar hefur ekki verið í samræmi við gjaldskrá tannlækna og þeir hafa verið að láta fólk greiða hærri upphæðir en gjaldskrá Tryggingastofnunar segir til um. Kostnaður fólks vegna tannlækninga barna sinna og sjálfs sín hefur aukist mjög.


Í utandagskrárumræðu þann 8. mars 2002, um útboð í heilbrigðisþjónustu, var sá annars ágæti þingmaður, Rannveig Guðmundsdóttir, málshefjandi og sagði:

Virðulegi forseti. Ungur læknir skrifaði á dögunum um stríðsástand á Landspítalanum. Læknirinn bendir á að vegna þess að bið eftir vistun á hjúkrunarrýmum aldraðra geti skipt mánuðum, liggja aldraðir á sjúkradeildum og bráðveikir sjúklingar komast ekki inn á spítalann, þar sem fá og engin laus pláss eru fyrir hendi. Fresta þarf aðgerðum og biðlistar lengjast. Læknirinn segir að öldrunar- og endurhæfingarþjónustan sé enn annar flöskuháls og hann bendir á að þar sem 20 til 30 þús. manns á höfuðborgarsvæðinu séu án heimilislæknis flytjist vandamál sem hægt væri að leysa innan heilsugæslunnar inn á sjúkrahúsin, á bráðamóttökur og slysadeildina.

Þetta þekkjum við og þessi frásögn er ekki af nýjum tíðindum. En hún vekur verðskuldaða athygli vegna þess að fagmaður sem starfar á Landspítalanum setur vandamálin þar í samhengi. Lausnina á vandamálinu telur læknirinn vera einkarekstur, m.a. í heilsugæslunni, en það finnst mér vafasöm staðhæfing. Gífurleg þörf er fyrir hjúkrunarrými og frjáls félagasamtök sem reka hjúkrunarheimili víða um land hafa barist í bökkum fjárhagslega. Þau hafa ekki getað fengið sambærilegan samning og gerður var í kjölfar útboðs á Sóltúni. Þangað var veitt meira af almannafé, enda þótti Sóltúnssamningurinn milljónavirði eins og frægt varð þegar hann varð söluvara. Þá ályktun má draga af þeirri einkavæðingu að þegar ríkisstofnun eða sjálfseignarstofnun mannúðarsamtaka á í hlut er fjármagn skorið við nögl, en þegar um alvörueinkaframkvæmd er að ræða er allt annað verðlag á þjónustunni.

Frumstig heilbrigðiskerfisins, heilsugæslan, hefur verið vanrækt. Nauðsynleg uppbygging hefur ekki átt sér stað. Ofboðsleg þörf hefur myndast í heilsugæslunni sem ekki hefur fengið nauðsynlegt fjármagn og keyrt hefur um þverbak tvö undangengin ár. Þekkt atburðarás verður til. Málaflokkurinn er sveltur fjárhagslega og svo kemur lausnin: Einkavæðing. Þannig hefur hæstv. heilbrrh. fyrirvaralaust boðað útboð á rekstri nýrra heilsugæslustöðva, húsnæði og öllum rekstri – miðað við fréttir — þar með talinni læknisþjónustu, fyrst í Salahverfi í Kópavogi og sennilega síðar í Hafnarfirði og Heimahverfi, miðað við fréttir. Þetta eru næstu heilsugæslustöðvar sem fyrirhugað er að opna. Ekki er ljóst hvers konar útboð er hér á ferðinni eða hvernig eigi að tryggja þjónustu. Engin rök liggja fyrir um að einkaframkvæmd í heilbrigðisþjónustu sé hagkvæmari. Þvert á móti bendir reynsla erlendis frá til þess að einkarekstur sé dýrari. Erfitt er að sjá mikinn sparnað í rekstri, þar sem 70--80% kostnaðar er laun, nema ef draga á úr þjónustu. En meginmál er að það á ekki að vera hagnaðarvon í heilsugæslunni. Grunnþjónusta í heilbrigðiskerfinu lýtur ekki lögmálum framboðs og eftirspurnar.

Samfylkingin leggur höfuðáherslu á að tryggja jafnrétti til heilbrigðisþjónustu og einkarekstur hefur ekki tryggt öllum sama rétt.

Fréttin um útboðið kom eins og þruma úr heiðskýru lofti fyrir þá sem mánuðum saman hafa staðið í samningaviðræðum við heilbrrn. Þannig hafði heilsugæslan í Hafnarfirði átt í viðræðum um tilteknar sértækar lausnir og í Kópavogi hafa alvarlegar viðræður við heilbrrn. verið í gangi í níu eða tíu mánuði. Í Kópavogi er áformað að taka húsnæði í Salahverfi á leigu og þörfin er sex lækna stöð. Sú stöð verður þriðja stöðin í Kópavogi þar sem íbúar nálgast óðfluga 25.000.

Á skömmum tíma hefur biðin eftir lækni farið úr þremur í tíu daga, meðan áður var hægt að komast til læknis fyrirvaralítið. Þetta er léleg þjónusta og ömurlegt ástand sem fólk vill ekki una.

Margar spurningar vakna um einkavæðingaráform heilbrigðisráðherrans. Í fyrsta lagi:

Hvers vegna útboð heilsugæslunnar núna?
Hverju hyggst ráðherrann ná fram og hvernig verður jafnrétti til heilsugæslu tryggt?
Með hvaða hætti verða stöðvarnar tengdar stjórnum heilsugæslustöðvanna, stefnu þeirra og áherslu?
Verða sambærilegar kröfur gerðar til rekstraraðila um alla þjónustu eins og stöðvanna sem fyrir eru?
Verður þeim gert að veita sömu upplýsingar og finna má um heilsugæslustöðvarnar í verkefnavísum?
Í Salahverfi í Kópavogi á fólki eftir að fjölga um helming. Hvernig verður þessi stighækkandi þjónustuþörf skilgreind og tryggð?
Hvernig kemur Læknalind, sjálfstæða einkarekna stöðin, inn í það þjónustumat?
Hvernig mun heimaþjónusta í Sölum tengjast heimaþjónustumiðstöð núverandi heilsugæslustöðva?
Herra forseti. Verður Salastöðin tengd miðlægri vörslu upplýsinga sem starfrækt er hjá hinum heilsugæslustöðvunum í Kópavogi?


Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, svaraði í þessari utandagskrárumræðu m.a. grundvallarspurningu um mismundandi rekstrarform:

… Við erum þegar með mismunandi rekstrarform í heilsugæslunni. Útboð eins og ég hef sagt að kæmi til greina er því engin nýlunda. Við erum þegar með hinar hefðbundnu stöðvar. Við erum með sjálfstætt starfandi heilsugæslulækna. Við höfum gert eins konar þjónustusamning um rekstur heillar stöðvar og við höfum þar fyrir utan gert eins konar þjónustusamning um rekstur Læknavaktarinnar. Gagnvart einstaklingum er kostnaðurinn alls staðar sá sami og leiðin að læknum á að vera jafngreið fyrir alla. Fyrir heilbrigðisyfirvöld, lækna og skattgreiðendur er hins vegar hollt að geta borið saman hin mismunandi form á rekstri, meta þannig kosti og galla og það hyggjumst við gera án þess að hverfa frá neinum grundvallaratriðum sem ég hef ætíð hamrað á varðandi þessi mál.

föstudagur, nóvember 07, 2003

Telur þú að framlag Íslands til þróunarmála sé of mikið, hæfilegt eða of lítið?

Svo var spurt í nýjasta þjóðarpúls Gallup og eru viðhorf landsmanna mismunandi eftir stuðningi við stjórnmálaflokka. Fram kemur að meirihluti stuðningsmanna stjórnarflokkanna telur að framlagið sé hæfilegt en meirihluti fylgis stjórnarandstöðunnar telur að framlag Íslands til þróunarmála sé of lítið.

Svör voru einnig greind eftir menntun, kyni og búsetu. Framkemur mikill munur á viðhorfum fólks eftir menntun, en 64% háskólamenntaðra og 35% þeirra sem lokið hafa grunnskóla telja framlag Íslands til þróunarmála of lítið. En þegar er litið til heildarniðurstöðunnar þá telur nærri helmingur þjóðarinnar, eða 48% að framlagið sé of lítið eða hæfilegt.

Sé blaðað í fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár, 2004, mun framlag til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, þrónunarmála og alþjóðlegrar hjálparstarfsemi nema kr. 651,3 millj. Framlög Íslands hafa verið að hækka en eru þó langt frá alþjóðlegum viðmiðunum. Fyrir um áratug var ætlunin að framlög næmu 0,7% af þjóðarframleiðslu, en framlög Íslands námu þá 0,07%. Á síðasta ári voru þessi framlög þó orðin 0,16% af þjóðarframleiðslu, frá því að vera 0,12% árið 2002.

fimmtudagur, nóvember 06, 2003

Hvers vegna bráðabirgðalög?

Samkvæmt 28. gr. stjórnarskrár er heimilt að „þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út bráðabirgðalög er Alþingi er ekki að störfum. Ekki mega þau þó ríða í bág við stjórnarskrána. Ætíð skulu þau lögð fyrir Alþingi þegar er það er saman komið á ný“. Af þessu má sjá að sérstaða bráðabirgðalaga fellst í því að Alþingi á ekki hlut að setningu þeirra, heldur forseti einn sem annar handhafa löggagjafarvaldsins. En í 2. gr. stjórnarskrárinnar, er kveður á um þrískiptingu ríkisvaldsins, segir að „Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið“.

Forseti getur ekki sett lögin að eigin frumkvæði, heldur gerir hann það með atbeina og á ábyrgð ráðherra. Það felur í sér að ráðherra gerir tillögu um slík lög og leggur hana fyrir forseta í stað þess að leggja hana fyrir þingið. Ráðherra sá sem gerir tillögu um lögin ræður að sjálfsögðu efni þeirra og hann ábyrgist gagnvart forseta að fullnægt sé skilyrðum 28. gr. stjórnarskrárinnar.

Allmörg dæmi eru til um setningu bráðabirgðalaga s.s. um stofnun utanríkisþjónustu Íslands 8. júlí 1940. En Alþingi hafði 10. apríl 1940, þ.e. daginn eftir að Þjóðverjar réðust inn í Danmörku, samþykkt þingsályktun þess efnis að Ísland taki yfir utanríkismál að öllu leyti í sínar hendur. Á árunum 1989 og 1990, voru sett bráðabirgðalög á samninga fjármálaráðherra við BHMR og tekin var til baka umsamin launahækkun kennara. Í seinni tíð hefur setning bráðabirgðalaga verið í algjöru lámarki. Nýjasta dæmið er frá því nú í sumar er sett voru bráðabirgðalög um innleiðingu tilskipunar 91/67/EBE um skilyrði á sviði heilbrigðis eldisdýra og afurða þeirra.

Heimildir til setningar bráðabirgðalaga virðist af öllu vera nauðsynleg til að geta brugðist við atvikum er kalla á brýna nauðsyn. Það er í höndum forseta að taka ákvörðun um hvort hann fellst á tillögu ráðherra og þar hlýtur m.a. að ráða mat hans á brýnni nauðsyn. Í lögum er kveðið á um að reglulegt Alþingi skuli koma saman 1. október ár hvert og sitja til jafnlengdar næsta ár. Alþingi situr því allt árið, þannig að bráðabirgðalög verða aðeins gefin út í þinghléum.

miðvikudagur, nóvember 05, 2003

Lífstílslyf — auknar þarfir, aukin kostnaður.

Samkeppni lyfjaframleiðenda í lífstílslyfjum er greinilega hörð um þessar mundir. Ef horft er til þess að árið 1990 nam kostnaður vegna lyfja sem falla undir þennan flokk, sem er ætlað að vinna gegn slæmum afleiðingum af óheppilegum lifnaðarháttum okkar, tæplega kr. 90 millj. Þetta voru lyf gegn nikótínfíkn og til að lækka blóðfitu. Núna hafa bæst við lyf við stinningarvanda og offitu og eru nú samtals 19 lyf í þessum flokki, þar af 2-3 sem bæst hafa við á þessu ári. Á síðasta ári 2002 var heildarsalan samtals kr. 1.288 millj. Miðað við söluna það sem af er árinu má reikna með að heildarkostnaður á þessu ári 2003 fari yfir kr. 1.400 millj.

Á 13 árum hafa lífstílslyf, vegna nýrra þarfa kallað á aukin kostnað sem nemur kr. 1.310 millj. eða yfir 1555%. Það sem vekur athygli við þessa þróun að það eru lyfjafyrirtækin sem skapa þessa nýju þörf. Almannatryggingar greiða einungis 1/3 hluta þessa kostnaðar, þannig að það er almenningur í raun sem greiðir þessa gríðarlegu aukningu beint úr eigin vasa.

Nýtt Bistro í Hafnarfirði a la Össur Skarphéðinsson.

Það vekur athygli í hátíðarræðu Össurar Skarphéðinssonar, formanns Samfylkingarinnar, á landsþingi Samfylkingarinnar að hann telur Hafnarfjarðar-fylkinguna hafa „hratt fyrir róða því pólitíska tilraunaeldhúsi sem Sjálfstæðismenn höfðu sett hér á hlóðir, þar sem aðalrétturinn sem boðið var upp á var einkavæðing grunnskólans a la Björn Bjarnason“.

Síðan segir hann: „Hefði Samfylkingin ekki lokað einkavæðingareldhúsi Sjálfstæðisflokksins hér í Hafnarfirði hefði Sjálfstæðisflokkurinn sent sömu uppskrift og sömu kokka um allt land.“

Það vekur því furðu þegar sami formaður Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, segir að „við þurfum framtíðarlausn í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Við þurfum ekki endilega aukið fjármagn en við þurfum sárlega breytta stefnu. Pólitík er að þora. Pólitík er að reyna nýjar aðferðir, nýja hugsun, sýna dirfsku.“ En síðan heldur maðurinn því fram að það vanti fjármagn í hinu orðinu þegar hann segir „málefni geðsjúkra, meira að segja geðsjúkra barna og afbrotamanna eru í uppnámi ár eftir ár vegna fjárskorts, allt að 10 mánaða biðtími er eftir heyrnartækjum í kerfinu og allt að eins árs biðtími eftir hjúkrunarrými fyrir aldraða“.

Nú er spurning hvort að formaður Framtíðarnefndar Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hafi verið með í ráðum er þessi undarlega ræða formannsins var í smíðum og að sá annars ágæti varaþingmaður útskýri hvað þessi orð þýði „að skoða með opnum huga breytt rekstrarform í heilbrigðisþjónustunni“. Var ekki verið að afþakka kokkarí frá öðru eldhúsi með samskonar uppskrift, eða skiptir það nýju Frjálshyggju-fylkinguna höfuðmáli hver kokkar.

þriðjudagur, nóvember 04, 2003

Dómsmálaráðherra kærður fyrir Hina málefnalegu niðurstöðu.

Líkt og frægt var þá skipaði Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, nýjan hæstaréttardómara ekki fyrir svo löngu. Þótti sú skipan ekki að öllu leiti eftir bókinni, en mjög gróflega var gengið framhjá þremur mjög svo hæfum einstaklingum.

Það vakti eftirtekt í rökræðu eftir skipan Björns, á Ólafi Berki Þorvaldssyni í Hæstarétt, að Birni Bjarnasyni þótti það ómálefnalegt af fréttamönnum að telja frændsemi Ólafs við Davíð Oddsson, forsætisráðherra, hafa haft einhver áhrif. Það hefðu jú verið sérþekking Ólafs Barkar á Evrópurétti sem hefði haft úrslitaárif. Þetta hafði því verið málefnaleg niðurstaða og því hafin yfir alla gagnrýni.

Þessi málefnalega niðurstaða Björns hefur nú verið kærð til Kærunefndar Jafnréttismála fyrir brot á jafnréttislögum. Markmið þeirra laga er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Til að ná fram þessu markmiði skal líkt og segir í lögunum: a) gæta jafnréttissjónarmiða á öllum sviðum samfélagsins, b) vinna að jöfnum áhrifum kvenna og karla við ákvarðanatöku og stefnumótun í samfélaginu, c) gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf, d) bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu, e) efla fræðslu um jafnréttismál, f) greina tölfræðiupplýsingar eftir kyni og g) efla rannsóknir í kynjafræðum.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, stendur núna frammi fyrir því prófi hvort að hin málefnalega niðurstaðan, þ.e. sérþekking á Evrópurétti, haldi vatni frami fyrir Kærunefnd Jafnréttismála.

mánudagur, nóvember 03, 2003

Hugsjónasvik Samfylkingarinnar?

Það er ekki laust við að forysta Samfylkingarinnar hafi hvatt hugsjónir sýnar og tekið upp á sína arma lausnir frjálshyggjunnar, lausnir félaga dr. Hannesar H. Gissurarsonar, ef dæma á fréttaflutninginn af landsfundi fylkingarinnar. Formaðurinn hvetur hirðina til að fylgja sér djúpt niður í fen markaðsaflanna, ferð sem mun hugnast frjálshyggjuliðinu, en varla megin þorra kjósenda.

Fréttin í ræðu formannsins er: Hvers vegna komu þessar áherslur ekki fram í kosningunum í vor? Sváfu allir er formaðurinn minntist á heilbrigðismál í vor? Eða sofnaði Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, eftir kosningar og vaknaði óvænt í Hafnarfirði hálfu ári síðar í Frjálshyggjuflokknum, sem mun þó hugsanlega ekki bjóða fram fyrr en í kosningum árið 2007. Vandséð er í hvaða ferðalag formaðurinn er að fara með hugsjónir fylkingarinnar, en hans er vitaskuld valdið.

Á óvart kemur ef ekki neinn af hinum sjálfskipuðu forystumönnum Samfylkingarinnar muni ekki með óbragð í munni reyna að kyngja þessum súra grauti Össurar Skarphéðinssonar. Það verður spennandi að sjá hvernig formaður framtíðarnefndar Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, muni höndla þessar tillögur Össurar. Það skyldi þó ekki vera að hér sé komið kjörið tækifæri til handa Ingibjörgu, til að klekkja á formanninum, þ.e. leiða hópinn sem mun ekki geta með nokkru móti sætt sig við ofangreindar frjálshyggjulausnir. Upp væri komin togstreita þeirra á millum, þar sem málefnið er aðalatriðið, ekki persónurnar. Þessa stöðu hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ekki náð að þvinga fram áður, en hér gefst henni væntanlega einstakt tækifæri.

Sá annars ágæti varaþingmaður, hefur ekki enn náð að skáka öllum samherjum sínum, enn er ljón á veginum (Össur formaður), væntanleg barátta hennar mun þó skila sér að lokum og mátturinn verða hennar.