miðvikudagur, nóvember 19, 2003

Hvaða stefnu rekur Framsóknarflokkurinn í heilbrigðismálum?

„Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi. Framsóknarstefnan setur manninn og velferð hans í öndvegi.“

Framsóknarflokkurinn hefur rekið markvissa og ákveðna stefnu í heilbrigðismálum sem felur í sér að vera réttlát, öllum opin, byggð á samábyrgð þegnanna, að vera að mestu kostuð af almannafé og að þeir gangi fyrir sem hafa mesta þörfina. Þegar þessi markmið eru tryggð, þá skiptir rekstrarform ekki máli. Þetta er spurning um jafnræði þegnanna og því segjum við framsóknarmenn: manngildi ofar auðgildi, að hver og einn hafi sama rétt til grundvallarlífskjara óháð heilsu og efnahags. Það er af siðferðilegum ástæðum að það er haldið svona fast í þessi grundvallaratriði sem fela í sér arf Framsóknarflokksins, þ.e. rík réttlætiskennd, samhjálp og samvinna í velferðarmálum. Samfélagsleg vitund og samkennd með þeim sem minna hafa og þurfa á hjálp að halda er mikilvægari í dag en nokkru sinni því að í samfélögum vesturlanda hefur markaðskerfið orðið ofan á. Í hreinum og tærum markaðslausnum í heilbrigðisþjónustunni felst misrétti, leiðarstjarnan getur því aldrei orðið sú sem lausn við útgjaldaaukningu í heilbrigðisþjónustunni.

Framsóknarflokkurinn vill byggja efnahagslíf þjóðarinnar á markaðshagkerfi einkarekstrar og samvinnurekstrar þannig að framtak einstaklinga og samtaka þeirra njóti sín til fulls. Framsóknarflokkurinn er því ekki andsnúin markaðslausnum, enda hefur hann staðið fyrir fjölbreytileika í þjónustunni sem er ætlað að vera jafn góðri og ekki dýrari fyrir skattborgarana en einhver önnur lausn. Undir stjórn framsóknarmanna hefur í fyrsta sinn verið bryddað upp á öðrum rekstrarformum í heilbrigðisþjónustu til að auka skilvirkni og bæta þjónustuna. Gerðir hafa verið fleiri þjónustusamningar en nokkru sinni áður og undir stjórn Framsóknarflokksins hefur einnig verið staðið fyrir útboðum.

Framsóknarflokkurinn byggir á frjálslyndri hugmyndafræði og telur því farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð eru á hófsemi og heiðarleika. Það er ekki hægt að tefla fram einhverjum töfralausnum í heilbrigðismálum og því mikilvægt að umræðan um þessi mál byggist á þekkingu og sanngirni.

Það er því sorglegt þegar formaður Samfylkingarinnar Össur Skarphéðinsson, fer mikinn í hinni pólitísku orðræðu um heilbrigðismál og boðar lögmál markaðarins um framboð og eftirspurn, er rætt er um vandan við útgjaldaaukninguna í heilbrigðismálum á síðustu árum. Með hagsmuni hverra að leiðarljósi tala slíkir talsmenn frjálshyggjuaflanna? Gætum við verið viss um að sjúklingar hefðu getað greitt fyrir lyfin án þess að samfélagið kæmi þar að eða greitt fyrir dýra aðgerð? Hverjir njóta bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem hægt er að fá er lögmál framboðs og eftirspurnar ráða för? Er tryggt að þar felist ekki misrétti? Er hægt að hafna þörfinni á auknum fjárframlögum til heilbrigðismála þegar staðið er vörð um samfélagslega vitund og samkennd með þeim sem minna hafa og þurfa á hjálp að halda?

Upphafsorð þessa pistils eru grundvöllur að stefnu Framsóknarflokksins, grundvöllur þeirrar stefnu sem við framsóknarmenn stöndum fyrir, hugsjónir um frelsi lýðræði, samhjálp og samvinnu. Framsóknarfólk er með svipaða lífssýn og svipaðar hugmyndir og berst fyrir umbótum á samfélaginu, berst fyrir velferð, öryggi borgaranna og lætur sig hvaðeina í mannlegu samfélagi varða í því augnamiði að láta gott af sér leiða. Framsóknarflokkurinn setur „fólk í fyrirrúmi.“

Engin ummæli: