fimmtudagur, nóvember 20, 2003

Hver er vænlegasta byggðaaðgerðin?

Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, hefur lagt fram á Alþingi þingsályktun um stofnun háskóla á Vestfjörðum. Sér hann fyrir sér að hægt væri að móta sérhæft námsframboð sem mótist af sérstöðu svæðisins, með tilliti til umhverfismála, ferðamála, sjávarútvegsmála og tónlistarlífs. Horft verði til samstarfs við aðra háskóla og þannig stuðlað að fjölbreyttu námsframboði.

Á Vestfjörðum hefur aðsókn að háskólanámi aukist svo á skömmum tíma að líkja má við sprengingu. En samt er enginn skóli á háskólastigi í fjórðungnum svo að nemendur verða að stunda fjarnám. Um það bil 130 manns á Vestfjörðum stunda háskólanám við a.m.k. fjóra háskóla.

Á Akureyri var stofnaður sjálfstæður háskóli m.a. með þeim rökum að ekkert væri raunhæfara í byggðamálum en að flytja menntun út í byggðir landsins. Má fullvíst telja að flutningur æðri menntunar út í hinar dreifðu byggðir skapi betri undirstöður heldur en margt að fjármagn sem hefur farið í ýmis konar félagsleg verkefni og til ýmiss konar atvinnufyrirtækja. Enda nauðsynlegt að fólki í hinum dreifðu byggðum landsins fái aukna möguleika á að notfæra sér þá menningu og þau lífsgæði sem felst í þróttmikilli háskólamenntun og vísindastarfsemi.

Á Vestfjörðum er staða byggðar óvíða erfiðari né íbúafækkun meiri. Um síðustu áramót voru íbúar Vestfjarða 7.915 og hefur þeim þá fækkað um 8,6% frá árinu 1997.

Menntun er fjárfesting sem skilar arði til samfélagsins sem hefur þá alla burði til að auka velsæld sína með þeim mannauði sem vex upp í heilbrigðu skólastarfi og er því vænlegasta byggðaaðgerðin. Það er ástæða til að taka undir þessa þingsályktun og fylgja henni fast eftir.

Engin ummæli: