miðvikudagur, nóvember 05, 2003

Nýtt Bistro í Hafnarfirði a la Össur Skarphéðinsson.

Það vekur athygli í hátíðarræðu Össurar Skarphéðinssonar, formanns Samfylkingarinnar, á landsþingi Samfylkingarinnar að hann telur Hafnarfjarðar-fylkinguna hafa „hratt fyrir róða því pólitíska tilraunaeldhúsi sem Sjálfstæðismenn höfðu sett hér á hlóðir, þar sem aðalrétturinn sem boðið var upp á var einkavæðing grunnskólans a la Björn Bjarnason“.

Síðan segir hann: „Hefði Samfylkingin ekki lokað einkavæðingareldhúsi Sjálfstæðisflokksins hér í Hafnarfirði hefði Sjálfstæðisflokkurinn sent sömu uppskrift og sömu kokka um allt land.“

Það vekur því furðu þegar sami formaður Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, segir að „við þurfum framtíðarlausn í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Við þurfum ekki endilega aukið fjármagn en við þurfum sárlega breytta stefnu. Pólitík er að þora. Pólitík er að reyna nýjar aðferðir, nýja hugsun, sýna dirfsku.“ En síðan heldur maðurinn því fram að það vanti fjármagn í hinu orðinu þegar hann segir „málefni geðsjúkra, meira að segja geðsjúkra barna og afbrotamanna eru í uppnámi ár eftir ár vegna fjárskorts, allt að 10 mánaða biðtími er eftir heyrnartækjum í kerfinu og allt að eins árs biðtími eftir hjúkrunarrými fyrir aldraða“.

Nú er spurning hvort að formaður Framtíðarnefndar Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hafi verið með í ráðum er þessi undarlega ræða formannsins var í smíðum og að sá annars ágæti varaþingmaður útskýri hvað þessi orð þýði „að skoða með opnum huga breytt rekstrarform í heilbrigðisþjónustunni“. Var ekki verið að afþakka kokkarí frá öðru eldhúsi með samskonar uppskrift, eða skiptir það nýju Frjálshyggju-fylkinguna höfuðmáli hver kokkar.

Engin ummæli: