þriðjudagur, nóvember 11, 2003

Sár og bitur, Ingibjörg Sólrún.

„Davíð Oddsson forsætisráðherra og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra kunna því best að taka þátt í þjóðfélagsumræðunni einir og óáreittir. Annar í sjónvarpssal og hinn á netinu. Þá er enginn að trufla þeirra merku pólitísku útleggingar á veruleikanum og enginn til andsvara. Þeim finnst fara best á því.“

Ofangreind tilvitnun er úr grein sem Ingibjörg Sólrún skírir „Rismiklir ráðamenn“ og er sjálfsagt ætlað að vera framlag hennar til svo kallaðra umræðustjórnmála sem eru hennar ær og kýr. En eitthvað er það, við þessa tilvitnun sem á bara svo ágætlega vel við formann framtíðarnendar fylkingarinnar, eða hverjum hefur hún annars boðið til sætis við hringborðið til umræðna um pólitískar útleggingar á veruleikanum. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, er þar ekki á meðal boðsgesta, það er vitað fyrir víst.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður framtíðarnefndar Fylkingarinnar, virðist ekki alltof sátt við sitt hlutskipti í sjálfskipaðri pólitískri útlegð. Enda sest hún niður, þegar hér er komið til sögu, við einhverja tölvuna, svona til að vera í beinu milliliðalausu sambandi við sitt fólk, henni þykir fara best á því, og sendir út eftir þörfum boðskap sinn, í skjóli frægrar uppgjafar frá borgarstjóraembættinu í Reykjavík og mislukkaðrar farar í átt að forsætisráðherrastólnum í vor.

Þessi annars ágæti varaþingmaður situr annars í hverju embættanna á fætur öðru innan raða Samfylkingarinnar án þessa að nokkurt það atkvæði falli henni í skaut sem ætti að þurfa til fleyta öllum öðrum dauðlegum mönnum áfram. Það eru greinilega umræðustjórnmálin sem eiga að koma í stað hefðbundinna lýðræðislegra vinnubragða. Er það þá ekki orðin aðkallandi spurning fyrir Samfylkinguna að leggja meira upp úr þörf fyrir réttaröryggi og jafnræði þegnanna þegar umræðustjórnmálin eru í kolli einnar manneskju og ráða að séð verður algjörlega för. Eða hvar dettur öðrum stjórnmálamanni það í hug, á byggðu bóli, að tilnefna sig til formanns á næsta landsþingi, ný orðin varaformaður, ef undan er skilin fylking í Norður-Kórea, þar er enginn til andsvara.

Engin ummæli: