fimmtudagur, nóvember 06, 2003

Hvers vegna bráðabirgðalög?

Samkvæmt 28. gr. stjórnarskrár er heimilt að „þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út bráðabirgðalög er Alþingi er ekki að störfum. Ekki mega þau þó ríða í bág við stjórnarskrána. Ætíð skulu þau lögð fyrir Alþingi þegar er það er saman komið á ný“. Af þessu má sjá að sérstaða bráðabirgðalaga fellst í því að Alþingi á ekki hlut að setningu þeirra, heldur forseti einn sem annar handhafa löggagjafarvaldsins. En í 2. gr. stjórnarskrárinnar, er kveður á um þrískiptingu ríkisvaldsins, segir að „Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið“.

Forseti getur ekki sett lögin að eigin frumkvæði, heldur gerir hann það með atbeina og á ábyrgð ráðherra. Það felur í sér að ráðherra gerir tillögu um slík lög og leggur hana fyrir forseta í stað þess að leggja hana fyrir þingið. Ráðherra sá sem gerir tillögu um lögin ræður að sjálfsögðu efni þeirra og hann ábyrgist gagnvart forseta að fullnægt sé skilyrðum 28. gr. stjórnarskrárinnar.

Allmörg dæmi eru til um setningu bráðabirgðalaga s.s. um stofnun utanríkisþjónustu Íslands 8. júlí 1940. En Alþingi hafði 10. apríl 1940, þ.e. daginn eftir að Þjóðverjar réðust inn í Danmörku, samþykkt þingsályktun þess efnis að Ísland taki yfir utanríkismál að öllu leyti í sínar hendur. Á árunum 1989 og 1990, voru sett bráðabirgðalög á samninga fjármálaráðherra við BHMR og tekin var til baka umsamin launahækkun kennara. Í seinni tíð hefur setning bráðabirgðalaga verið í algjöru lámarki. Nýjasta dæmið er frá því nú í sumar er sett voru bráðabirgðalög um innleiðingu tilskipunar 91/67/EBE um skilyrði á sviði heilbrigðis eldisdýra og afurða þeirra.

Heimildir til setningar bráðabirgðalaga virðist af öllu vera nauðsynleg til að geta brugðist við atvikum er kalla á brýna nauðsyn. Það er í höndum forseta að taka ákvörðun um hvort hann fellst á tillögu ráðherra og þar hlýtur m.a. að ráða mat hans á brýnni nauðsyn. Í lögum er kveðið á um að reglulegt Alþingi skuli koma saman 1. október ár hvert og sitja til jafnlengdar næsta ár. Alþingi situr því allt árið, þannig að bráðabirgðalög verða aðeins gefin út í þinghléum.

Engin ummæli: