mánudagur, nóvember 17, 2003

Drifkrafturinn kemur úr nýrri átt.

Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, flutti yfirgripsmikla og góða ræðu á Haustfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins um síðustu helgi. Halldór kom m.a. inn á að framsóknarmenn settu sér raunhæf markmið og sem kjósendur vissu að þeir geta treyst á að verði framkvæmd. En íslenskt þjóðfélag býr nú við meiri stöðugleika í efnahagsmálum en oftast áður, auknum umsvifum og öflugra velferðarkerfi. Þessar staðreyndir eiga vel við stefnu Framsóknarflokksins sem velferðarflokks, þar sem ríkistjórnin leggur áherslu á aukin framlög til málefna fatlaðra og ætlun um að eyða biðlistum eftir búsetu og þjónustu fyrir fatlaðra í heimabyggð. Ætlunin er að úrræði í öldrunarþjónustu verða bætt og að unnið verði enn frekar að uppbyggingu í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu, á næsta ári verða framlög til heilbrigðismála aukin um alls níu milljarða.

Í kosningunum í vor settu framsóknarmenn 90% lán til íbúðakaupa meðal forgangsverkefna sinna. Ráðgjafahópur þriggja ráðuneyta vinnur að mótun tillagnanna og munu niðurstöður liggja fyrir á næstunni. Jafnframt benti Halldór á að sem hluta að heilstæðri húsnæðisstefnu verði staða leigumarkaðarins könnuð í því augnamiði að auka megi framboð leiguhúsnæðis. Í menntamálum lagði Halldór til að miðstjórnin fæli Málefnanefnd að stofna umræðuhóp um málefnið, þannig að Framsóknarflokkurinn myndi móta sér kröftuga og skýra stefnu í málaflokknum, sem ætti við um öll skólastigin, enda væru menntamál einhver mikilvægust verkefni samfélagsins í framtíðinni.

Halldór Ásgrímsson benti á að traustar stoðir efnahagslífs hafi „lagt grunninn að auknum umsvifum, meiri þjóðartekjum, stórbættum kaupmætti, betri efnahag og öflugra velferðarkerfi“. En þó hefur eins og Halldór kom inn á „skort nægilegt framboð á því sem oft er kallað þolinmótt fjármagn, sem styður við frumkvöðla og sprotafyrirtæki“. Enn fremur mun Framsóknarflokkurinn í ríkistjórn beita sér fyrir nýjum lögum um vísinda og tækniráð og stofnun tækniþróunarsjóðs sem verði ætlað að bæta verulega stuðning við nýsköpun.

„Drifkrafturinn kemur úr nýrri átt“, voru orð Halldórs, er hann benti á að Austurland væri miðpunktur athyglinnar og að sérstakt væri að þensla í atvinnumálum skuli vera mest utan höfuðborgarsvæðisins. Síðan fór Halldór með miðstjórnarfulltrúa í hringferð um landið og sýndi framá hvernig byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar væri þegar farin að hafa jákvæð áhrif. Hann tók sérstaklega fram í ræðunni að hlutir gerðust ekki að sjálfu sér, eitthvert afl þyrfi til að koma hlutum af stað og það væri hlutverk ríkisins að skapa skilyrði til þess að atvinnulíf hér á landi blómstri.

Framsóknarflokkurinn og framsóknarfólk um land allt er samstíga hópur og sá mikli kraftur sem gerir okkur auðveldara en ella að sækja fram með okkar baráttumál, líkt og í kosningunum í vor, af krafti og einurð er enn til staðar og getum við með stolti litið yfir okkar störf í ríkistjórn undanfarinn átta ár „og þess vegna hefur íslensk þjóð falið okkur ábyrgð“, voru lokaorðin í ræðu Halldórs Ásgrímssonar.

Engin ummæli: