miðvikudagur, nóvember 12, 2003

Hvar er umræðan um Hatton-Rockall svæðið?

Fyrir um 3 árum flutti Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, ávarp á ráðstefnu um landgrunnið og auðlindir þess. Þar kom m.a. fram í ágætu erindi hans að frá því að Hafréttarsáttmáli Sameinaðuþjóðanna öðlaðist gildi 16. nóvember 1994 hafa tekið til starfa þrjár stofnanir Alþjóðlegi hafréttardómurinn, Alþjóðahafsbotnsstofnunin og Landgrunnsnefndin. Líkt og Halldór benti á þá hefur tilkomu tveggja síðastnefndu stofnanna, aukið áherslu á málefni hafsbotnsins, bæði landgrunnsins og alþjóðlega hafsbotnsins. Og að jafnframt þá væri það fyrir strandríkið Ísland einkum landgrunnið sem hefði gífurlega þýðingu.

Nú er það svo að frestur Íslands til þess að leggja fram upplýsingar fyrir Landgrunnsnefndina rennur út haustið 2004, sbr. ákvæði samningsins um 10 ára frestinn frá gildistöku. Fram kom í ræðu Halldórs, að Landgrunnsnefndin sé „að taka við upplýsingum frá strandríkjum um mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna og gera tillögur þar að lútandi. Samkvæmt hafréttarsamningnum skulu strandríki almennt leggja upplýsingar um mörk landgrunns síns fyrir nefndina innan 10 ára frá gildistöku samningsins að því er viðkomandi ríki varðar. Ekkert ríki hefur enn lagt slíkar upplýsingar fyrir nefndina en alls munu um 30 ríki eiga rétt til landgrunns utan 200 sjómílna.“

Um svæðin utan 200 sjómílna sagði Halldór: „Annars vegar er um að ræða landgrunnið til suðurs, þ.e. á Reykjaneshrygg og Hatton Rockall svæðinu, og hins vegar landgrunnið til austurs, þ.e. í Síldarsmugunni. Ljóst er að mikið starf er framundan vegna þessa en m.a. þarf að yfirfara fyrirliggjandi gögn um mörk íslenska landgrunnsins, afla nýrra gagna, þar sem þörf er á, og ganga úr skugga um að gögnin séu í samræmi við hinar vísindalegu og tæknilegu viðmiðunarreglur Landgrunnsnefndarinnar. Starf þetta verður einkum í höndum utanríkisráðuneytisins og Orkustofnunar en aðrir aðilar munu einnig koma að því, m.a. Sjómælingar Íslands. Tryggja verður að þessir aðilar hafi bolmagn til þess að takast á við þetta mikil-væga verkefni með fullnægjandi hætti.“

Við Íslendingar eigum gífurlegra hagsmuna að gæta í þessu máli og því nauðsynlegt að vel sé staðið að þessari framkvæmd allri. Í þjóðréttarlegri rökræðu um rétt Íslendinga til Hatton-Rockall svæðisins er vísað til hugtaksins um eðlilegt framhald landgrunns sem telja má að sé aðalregla í skilgreiningu landgrunns samkvæmt samningnum. Hafa Íslendingar byggt kröfur sínar á því að fundnar séu rætur landgrunnshlíðarinnar og dregin lína 60 sjómílur þar fyrir utan. Beiting viðkomandi reglna tekur mið af því að á íslenska hafsvæðinu séu ekki fyrir hendi skýr mörk landgrunns á Íslands-Færeyjahrygg fyrr en komið er að Hatton-Rockall bankanum.

Síðan er það að á milli Hatton-Rockall svæðisins og Írlands/Skotlands liggur svokallað Rockall-trog sem er 3000 metra djúpt þar sem það er dýpst. Þessi staðreynd veikir mjög kenningar um að Hatton-Rockall svæðið sé óslitið framhald eða eðlilegt framhald meginlands Írlands og Bretlands. Írsk og bresk stjórnvöld hafa hins vegar haldið því fram að þar sem trogið liggi innan ytri marka efnahagslögsögu þeirra hafi það ekki áhrif á framhald landgrunnsins utan 200 sjómílna. Bresk stjórnvöld hafa bent á tengsl milli Skotlands og Hatton-Rockall svæðisins eftir Wyville Thomson-hryggnum. Danir halda því fyrst og fremst fram að Hatton-Rockall svæðið tengist Færeyjum sem eins konar „micro-meginland“. Rannsóknir sem hafa farið fram benda til þess að jarðskorpan á Hatton-Rockall svæðinu sé sama eðlis og jarðskorpan undir Færeyjum.

Samkvæmt 125. gr. hafréttarsamningsins fá eyjar á stærð við Rockall hvorki landgrunn né efnahagslögsögu. Slík takmörkun á víðáttu landgrunns efnahagslögsögunnar teljast gildandi þjóðaréttur nú þegar og getur réttarstaða Bretlands og á Hatton-Rockall svæðinu byggst á eynni sem slíkri eða þessum 19 metra háa kletti.

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, kom inn á mjög mikilvægt atriði í lokaorðum sínum er hann sagði: „Hatton Rockall málið er býsna flókið og viðbúið að erfitt verði að finna lausn á því. Við munum hins vegar ekki láta okkar eftir liggja í því efni, enda er hætt við því að nái aðilar ekki samkomulagi muni kostnaðarsamar greinargerðir aðila til Landgrunnsnefndarinnar verða unnar fyrir gíg og hugsanlegar auðlindir á svæðinu liggja ónýttar í jörðu.“

Á Hatton-Rockall svæðinu er að finna vinnanlega olíu og því mikilsverðir hagsmunir sem eru í húfi fyrir fámenna þjóð eins og Ísland. Það er nauðsynlegt að umræða um þessi mál séu sem oftast í dagsljósi og að þjóðfélagsumræða sem slík fari fram. Ber því að hvetja þá aðila sem að málinu koma að greina frá stöðu mála enda aðeins 369 dagar til stefnu.

Engin ummæli: