þriðjudagur, nóvember 25, 2003

Stækkun EES og undarlegar spurningar Samfylkingarinnar.

Fram er komið frumvarp til laga um breytingu á lögum um EES, þar sem er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda þátttöku 10 nýrra ríkja ESB sem eru: Tékkland, Eistland, Kýpur, Lettland, Litháen, Ungverjaland, Malta, Pólland, Slóvenía og Slóvakía. Nýr aðildarsamningur um EES var upphaflega undirritaður í Lúxemborg 14. október 2003 en vegna ágreinings milli Liechtenstein annars vegar og Tékklands og Slóvakíu hins vegar um viðurkenningu fullveldis Liechtenstein var samningurinn ekki undirritaður fyrir Íslands hönd fyrr en 11. nóvember 2003 í Vaduz, höfuðborg Liechtenstein.

Sjálfur samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var undirritaður í Óportó hinn 2. maí 1992. Meginmarkmið samningsins er að mynda öflugt og einsleitt evrópskt efnahagssvæði er grundvallast á sameiginlegum reglum og sömu samkeppnisskilyrðum. Í meginatriðum má segja að EES-samningurinn tryggi EFTA-ríkjunum þátttöku í innri markaði ESB, án þess EFTA-ríkin teljist vera fullgildir aðilar að Evrópusambandinu með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Með innri markaði ESB er stefnt að því að koma á frjálsum viðskiptum með vörur og þjónustu, frjálsum fjármagnsflutningum, sameiginlegum vinnumarkaði, sameiginlegum samkeppnisreglum og sameiginlegum reglum um ríkisaðstoð. EES-samningurinn endurspeglar því reglur Evrópusambandsins á þessum sviðum.

Samningur um stækkun Evrópusambandsins er var undirritaður 16. apríl 2003 í Aþenu og er sú umfangsmesta frá upphafi. Eftir stækkunina verður ESB að sambandi 25 þjóðríkja í Evrópu með um 450 milljónir íbúa. En ríkin í austurvegi, eftir að hafa endurheimt stjórnarfarslegt sjálfstæði sitt, hafa lagt á það ríka áherslu að verða fullgildir þátttakendur í samvinnu og samstarfi Evrópuþjóða. Hafa þau litið á aðild að Evrópusambandinu sem mikilvægan áfanga á þeirri leið. Leiðtogar Evrópusambandsins ákváðu strax árið 1993 að þeim ríkjum Mið- og Austur-Evrópu sem kysu að sækjast eftir aðild að ESB skyldi vera gefinn kostur á því. Stækkunarferli ESB var hafið með formlegum hætti á fundi leiðtoga Evrópusambandsins árið 1997. Ári síðar hófust formlegar aðildarviðræður við Eistland, Pólland, Slóveníu, Tékkland, Ungverjaland og Kýpur. Á leiðtogafundinum í Helsinki árið 1999 var ákveðið að hefja jafnframt samningaviðræður við Búlgaríu, Lettland, Litháen, Rúmeníu, Slóvakíu og Möltu.

Samningaviðræðunum lauk síðan á leiðtogafundi Evrópusambandsins í Kaupmannahöfn í desember 2002 þar sem endanlegt samkomulag náðist um aðild umsóknarríkjanna að Evrópusambandinu, að Búlgaríu og Rúmeníu undanskildum. Stefnt er að því að ljúka samningum við þau ríki árið 2007. Á grundvelli samkomulagsins sem náðist í Kaupmannahöfn var aðildarsáttmáli við nýju aðildarríkin undirritaður í Aþenu þann 16. apríl 2003.

Í ljósi alls þessa vekur nokkra athygli fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur, alþingismanns Samfylkingarinnar, til utanríkisráðherra þar sem hún spyr m.a. hvaða áhrif stækkun EES er talin munu hafa á vinnumarkað hérlendis. Hún setur svo fram fullyrðingu er hún spyr hvort hugað hafi verið að aðgerðum til að takmarka röskunin sem stækkun sameiginlegs vinnumarkaðar getur valdið hérlendis, t.d. í ljósi vandamála sem hér hafa komið upp á síðustu mánuðum og hugsanlegra félagslegra undirboða.

Á nýliðnu landsþingi Samfylkingarinnar var ályktað sérstaklega um evrópumál, þar sem Rannveig Guðmundsdóttir hefur vonandi verið þátttakandi, en þar sagir m.a.: „Samfylkingin ákvað á stofnfundi sínum vorið 2000 að gera heildstæða úttekt um tengsl Íslands og Evrópusambandsins. Á grunni víðtækra upplýsinga tók síðan almennur flokksfélagi í Samfylkingunni ákvörðun í sögulegri kosningu haustið 2002 um að setja aðildarumsókn að Evrópusambandinu á stefnuskrá flokksins á grundvelli skilgreindra samningsmarkmiða. ... ... Samfylkingin hefur stofnað sérstakan 9 manna málefnahóp um Evrópumál sem m.a. skoði ávinning Íslands af aðild að Evrópusambandinu, skilgreini hver helstu samningsmarkmið eigi að vera við aðildarumsókn, meti stöðu EFTA og EES- samningsins og greini áhrif evrunnar á íslenskt efnahagslíf.“

Í sameiginlegri yfirlýsingu allra samningsaðila um beitingu upprunareglna eftir að samhliða stækkun ESB og EES öðlast gildi, taka EFTA-ríkin sérstaklega fram um frelsi launþega til flutninga, að það verði leitast við að veita ríkisborgurum Tékklands, Eistlands, Lettlands, Litháens, Ungverjalands, Póllands, Slóveníu og Slóvakíu greiðari aðgang að vinnumarkaði samkvæmt landslögum til þess að flýta fyrir samræmingu réttarreglnanna. Þetta verði gert í því augnamiði að fjölga verulega atvinnutækifærum ríkisborgara ofangreindra ríkja.

Nú er spurningin sú hvort að Samfylkingin hafi í raun ekki neina þekkingu á evrópumálum, þrátt fyrir að hafa staðið í heilstæðri stefnumótun allt frá árinu 2000 um málefnið. Hvaða forsendur lágu að baki hinni sögulegu ákvörðun að setja aðildarumsókn að ESB á stefnuskrá Fylkingarinnar? Ofangreind yfirlýsing EFTA-ríkjanna er nánast samhljóða sambærilegri yfirlýsingu núverandi aðildarríkja ESB við stækkun ESB í Aþenu 16. apríl s.l. Er von að spurt sé hvort þekking á evrópumálum sé enn enginn hjá annars ágætum þingmanni Fylkingarinnar, Rannveigu Guðmundsdóttur, eða hefur gleymst algjörlega að læra heima?

Engin ummæli: