miðvikudagur, nóvember 26, 2003

Málefnasnauð stjórnarandstaða Samfylkingarinnar.

Fram er komið frumvarp til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis sem er ætlað að skerpa á eftirlits- og aðhaldshlutverki Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu og fela fastanefndum þingsins víðtækt umboð og rannsóknarvald í einstökum málum. Ætlunin með frumvarpinu er sem sé að rýmka allar heimilir fastnefnda umfram þær heimildir sem í lögum eru í dag. Allt væri þetta góðagjaldavert ef ekki væri fyrir það hverjir það eru sem flytja þetta þingmál, en þetta eru þingmennirnir: Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Lúðvík Bergvinsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir, allt þingmenn Samfylkingarinnar.

Ákall þeirra til þingheims gengur út á að veikleikar löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu sé orðin alvarleg staðreynd fyrir lýðræðið í landinu og þingræðið sé í hættu. Nú er það staðfest í stjórnarskrá að þingmenn hafa frumkvæðisrétt að lagasetningu á Alþingi líkt og ráðherrar. Þingmálið sem er hér til umfjöllunar ber þess vætti að frumkvæðisréttur þingmanna er enn fyrir hendi og ekki verður séð að fluttingsmenn minnist á það einu orði í greinargerð frumvarpsins að þessi réttur sé í neinni stórkostlegri hættu. Það mat ofangreindra þingmanna Fylkingarinnar að frumkvæði í lagasetningu hafi færst yfir til framkvæmdavaldsins fær því ekki stoð í hryggjarstykki íslenskrar stjórnskipunar þar sem Alþingi má ekki taka við neinu málefni nema frumkvæðisrétthafa.

Þingmenn Fylkingarinnar hafa því allir tök á því að semja og flytja þingmál, séu þeir einlægir í því að láta hvaðeina í mannlegu samfélagi sig varða í því augnamiði að láta gott af sér leiða, og þeim er einnig í sjálfsvaldsett að leita sér aðstoðar við gerð þingmála, sé það þeim ofviða. Varaþingmaður Framsóknarflokksins, Guðjón Ólafur Jónsson, sat til að mynda á Alþingi hluta október og nóvember s.l. og flutti hann 11 þingmál, ber það skýrt merki þess að þingmenn sem vilja hafa frumkvæði að lagasetningu eru á engan hátt heftir af meintu oki framkvæmdavaldsins. Síðan er það með öllu óskilt atriði að frumvörp stjórnarmeirihluta nái að stærstum hluta fram að ganga, í þeim efnum eru það kjósendur sem veita flokkum brautargengi til umbóta í þjóðfélaginu, þ.e. að hafa áhrif á ríkisvaldið, ekki hlutdeild í, líkt og sá annars ágæti varaþingmaður, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hélt fram í ræðu á landsþingi Samfylkingarinnar.

Einlægur vilji flutningsmanna ber þess vott að hentugt gæti verið að þeir sem stjórnarandstöðuþingmenn geti hvenær sem þeim þykir ástæða til að taka upp mál og rannsaka án þess að heimild þurfi að fást fyrir því frá Alþingi. Þannig virki eftirlitshlutverk Alþingis best, þ.e. innann fastanefnda Alþingis, án sérstakar heimildar Alþingis, til að viðhalda virku eftirliti með framkvæmdavaldinu, um framkvæmd laga og reglugerða og meðferð opinberra fjármuna. Telja fluttingsmenn þessa tilhögun, þrátt fyrir sjálfstætt hlutverk Ríkisendurskoðunar, henta betur enda ætlað að vinna að rannsóknum fyrir opnum tjöldum.

Sjálfskipaður dómstóll þingmanna, Jóhönnu Sigurðardóttur, Össurar Skarphéðinssonar, Guðmundar Árna Stefánssonar, Lúðvíks Bergvinssonar og Þórunnar Sveinbjarnardóttur, í skjóli opinnar heimildar um starfshætti dómstólsins, verður varla neitt annað er veisluborð til handa alþýðu manna, þar sem beinskeyttar spurningar Jóhönnu munu bíta á andstæðingunum og ósérhlífni Össurar Skarphéðinssonar við að bæta þjóðfélagið mun njóta sín undir vökulum augum þjóðarinnar.

Er ekki komin tími til að sama gamla þreytta Samfylkingarstjórnarandstaðan með Jóhönnu Sigurðardóttur, Össur Skarphéðinsson, Guðmund Árna Stefánsson, Lúðvík Bergvinsson og Þórunni Sveinbjarnardóttur, með sömu gömlu þreyttu málin fari að vinna að hugsjónum sínum, eða skipti sér út fyrir sér yngra liði með ferskar hugmyndir, framtíðarlausnir, nýja hugsun og leiðarstef.

Engin ummæli: